Fara í efni

Leiðir langtíma óvinnufærni til fátæktar?

Til baka

Leiðir langtíma óvinnufærni til fátæktar?

Björk Vilhelmsdóttir félagsráðgjafi og sérfræðingur hjá VIRK

 

Eftir að hafa starfað sem félagsráðgjafi í rúm 30 ár hef ég ekki enn hitt fyrir fólk sem vill eða velur að lifa í fátækt og verða óvinnufært. Reynsla mín er að langflestir vilji læra og vinna á fullorðinsárum og lifa því sem almennt er kallað mannsæmandi líf. En til þess að geta svarað því á faglegan hátt hvort óvinnufærni leiði til fátæktar þarf að skilgreina hugtakið fátækt og hvað felst í óvinnufrærni.  

Fátækt er oftast skilgreind út frá fjárhagsstöðu fólks, annars vegar sem algild fátækt og hins vegar afstæð fátækt. Algild fátækt er þegar tekjur fólks duga ekki fyrir helstu nauðsynjum svo sem húsnæði, mat og fatnaði. Í Evrópu og þar með talið á Íslandi er fátækt yfirleitt rædd út frá afstæðum fátæktarmörkum. Þá er fólk skilgreint fátækt ef tekjur þess fara undir fyrirfram skilgreint hlutfall af tekjum viðmiðunarhóps(1). Lágtekjumörk Hagstofu Íslands eru til að mynda tekjur einstaklings og/eða fjölskyldu sem eru undir 60% af miðgildistekjum sambærilegrar einingar. Á árinu 2016 voru 8.8% Íslendinga undir þeim mörkum(2).

Hugtakið óvinnufærni er notað þegar læknir metur líkamlegt og/eða andlegt ástand fólks það slæmt að það komi í veg fyrir störf á almennum vinnumarkaði. Fólk sem treystir sér ekki til að vinna vegna heilsubrests er því óvinnufært en ekki atvinnuleitendur sem treysta sér til að takast á við ný störf. Ef heilsubrestur er staðfestur af lækni koma til opinberar og eða samningsbundnar greiðslur til að tryggja afkomu einstaklings. Í upphafi nýtir fólk rétt sinn til veikindalauna og greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna en þegar þeim réttindum er lokið taka við sjúkradagpeningar sjúkratrygginga og að endingu mögulega örorku- og endurhæfingarlífeyrir almannatrygginga og/eða lífeyrissjóða. Þá geta óvinnufærir mögulega átt rétt á fjárhagsaðstoð frá sínu sveitarfélagi, en í ljós hefur komið að ríflega helmingur þeirra sem fá fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg eru með læknisvottorð um óvinnufærni (3).

Fátækt tengd færni

Hægt er að horfa á fátækt frá fleiri hliðum en fjárhagslegum. Dr. Amartya Sen er indverskur velferðarhagfræðingur sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1998. Eftir áratuga rannsóknir á fátækt, setti hann fram kenningu um tengsl fátæktar og færni einstaklinga. Amartya skilgreinir fátækt svohljóðandi í bók sinni Development as Freedom: Fátækt er ekki bara skortur á peningum; það er að fá ekki tækifæri til að nýta færni sína til að lifa mannsæmandi lífi. (e. Poverty is not just lack of money; it is not having the capability to realize one´s full potential as a human being) (4). Með færnikenningu sinni tengir Amartya Sen á áhrifaríkan hátt fátækt við stöðu fólks í samfélaginu. Hann segir að ef fólk fær ekki tækifæri til að nýta hæfileika sína verður fólk ekki það sem það vill vera, lífsgæði þeirra skerðast og þau verða fátæk.

Hugmyndir Sens hafa haft veruleg áhrif á velferðarstefnumótun síðustu tvo áratugi þar sem í auknum mæli er reynt að koma í veg fyrir að fólk lendi á jaðri samfélagsins þar sem það upplifir sig félagslega útilokað (e. social exclusion) og þar með fátækt.

Vannýtt færni er tap allra

Annar Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði frá árinu 2001, Dr. Joseph E. Stiglitz, hefur sýnt fram á langtíma færnisskerðingu samhliða fátækt. Rannsóknir Stiglitz sýna að fátækt kemur í veg fyrir að fólk afli sér menntunar og þar með sitji þeir fátæku eftir í samfélaginu og færist fjær þeim sem fá tækifæri á grundvelli menntunar. Stiglitz bendir einnig á að samfélagið fari þannig á mis við vannýtta hæfileika fólks og þannig ástand leiði til minni hagsældar þar sem bein tengsl eru milli menntunarstigs þjóðar og framleiðni(5). Fyrir vikið verður einstaklingurinn ennig fátækur samkvæmt kenningum Sen þar sem hæfileikar hans eru ekki nýttir.

Með áherslum hagfræðinnar á fátækt hefur í auknum mæli verið horft til hins tvöfalda ávinnings, einstaklings og samfélags, sem hlýst af því að gefa fólki tækifæri til að nýta færni sína. Þannig hefur aukin áhersla verið lögð á að veita fólki hlutverk í lífinu með félagslegri þátttöku (e. social inclusion) og koma þannig í veg fyrir félagslega útilokun.

Fjárhagsleg fátækt utan vinnumarkaðar

Staða á vinnumarkaði hefur talsvert um það að segja hver fjárhagsleg afkoma fólks er. Evrópusambandið hefur tekið saman helstu áhættuþætti fyrir fátækt. Þar kemur skýrt fram að heimili sem eru undir lágtekjumörkum og þar sem fullorðnir eru með minna en 20% atvinnuþátttöku eru í verulegri áhættu á fátækt eða félagslegri útilokun(6). Hagstofa Íslands hefur ekki gefið út opinberlega niðurstöður úr Evrópsku lífskjararannsókninni sem stofnunin tekur þátt í, en á Læknadögum 2019 var sagt frá niðurstöðum um mikinn fjárhagslegan mun milli öryrkja og annarra. Munurinn kom skýrast fram þegar spurt var hvort fólk búi við skort á efnislegum gæðum og hvort það gæti látið enda ná saman þar sem öryrkjar sem höfðu engar atvinnutekjur voru margfalt líklegri en aðrir til að skorta efnisleg gæði og ná ekki endum saman. Þá sýnir evrópska lífskjararannsóknin að 40% lífeyrisþega eru á leigumarkaði á meðan hlutfallið fyrir aðra landsmenn er helmingi minna eða 21.5%. Rétt er þó að geta þess að samkvæmt kjarakönnun Eflingar stéttarfélags eru einnig 40% þeirra félagsmanna á leigumarkaði(7) þannig að lágtekjuhóparnir fylgjast að hvað þetta varðar, óháð vinnugetu.

Hamingja tengd vinnumarkaði

Í febrúar 2019 kom til landsins þekktur fyrirlesari og fræðimaður, Vanessa King, sérfræðingur um vellíðan, þrautseigju og hamingju á vinnustöðum(8). Hélt hún erindi á ráðstefnunni Hamingja á vinnustöðum er alvörumál sem haldin var á vegum VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, Embættis Landlæknis og Vinnueftirlitsins. Í fyrirlestrinum birti hún eftirfarandi mynd, sjá mynd 1, sem sýnir niðurstöður bresku hagstofunnar þar sem lífsánægja er mæld út frá stöðu á vinnumarkaði. Þarna kemur sterkt fram að þeir sem eru á vinnumarkaði telja líf sitt mun ánægjulegra en atvinnulausir og eftir því sem tími atvinnuleysis lengist minnkar lífsánægjan. Svipaðar niðurstöður má sá í fjölda alþjóðlegra Gallup kannana sem mæla lífsánægju með tilliti til atvinnuþátttöku(9).

Sama sagan hjá unga fólkinu

Samkvæmt norrænum og evrópskum rannsóknum er staða ungmenna sem eru hvorki í vinnu né skóla talsvert slakari en almennt gerist og flest þeirra búa við mjög takmörkuð fjárráð10. Félagsleg staða þeirra hefur neikvæð áhrif á heilsufar, sérstaklega með tilliti til geðrænna sjúkdóma(11,12). Samkvæmt OECD(13) á þessi hópur á hættu að verða félagslega einangraður, með tekjur undir fátæktarmörkum og skorta færni til að bæta fjárhagsstöðu sína. Sænsku sérfræðingarnir Olafsson og Wadensjö(14) hafa sýnt fram á að tímalengd frá vinnumarkaði eða námi skiptir miklu og taka þannig undir með niðurstöðum bresku hagstofunnar sem rætt var um hér að framan. Þeir segja að ungt fólk, sem hefur hvorki verið í námi né vinnu lengur en í 6 mánuði sé í verulegri hættu á félagslegri og fjárhagslegri fátækt til langframa. Norsku og sænsku fræðimennirnir Olsen og Tägtström(12) hafa komist að svipuðum niðurstöðum og benda jafnframt á að andlegir erfiðleikar aukast með lengri tíma frá virkri þátttöku í vinnu eða í námi. Rannsóknir Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar sýna einnig að geðrænir erfiðleikar og þá helst kvíði og þunglyndi, séu mjög algengir hjá þeim sem eru óvirkir og hvorki í skóla né vinnu. Einnig er á það bent að geðrænir erfiðleikar eru algengasta orsökin fyrir örorku á unga aldri á Norðurlöndunum, þar með talið á Íslandi(10).

Hægt að festast í fátækt

En af hverju er fátækt svona skýr hjá þeim sem standa utan vinnumarkaðar? Fyrst ber að nefna að upphæðir þær sem eru greiddar til fólks utan vinnumarkaðar eru ætíð lægri og í besta falli sambærilegar við allra lægstu laun. Slíkar upphæðir einar og sér auka áhættu á fátækt óháð því hvort um laun, lífeyri eða aðrar bætur er að ræða15. Þeir sem framfleyta sér á lágmarksframfærslu geta sjaldnast leyft sér að hitta aðra í aðstæðum sem kalla á fjárútlát eins og á kaffihúsi eða í bíó og það eykur áhættu á félagslegri einangrun.

Lægstu greiðslur hverju sinni eru fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Tölfræðigögn frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar sýna að um 60% fólks sem nýtur fjárhagsaðstoðar hefur einnig verið með fjárhagsaðstoð árið áður og um 60% er einnig með fjárhagsaðstoð árið á eftir(16). Þannig bendir tölfræðin til þess að talsverð hætta sé á að fólk festist á þessum stað þrátt fyrir að fjárhagslegur hvati sé mikill að komast úr þessum aðstæðum. Þess má geta að síðustu þrjú ár hefur ríflega helmingur allra sem eru með fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg verið með læknisvottorð um óvinnufærni. Slík vottorð auka ekki rétt einstaklinga til framfærslu en þegar þau eru til staðar eru ekki gerðar kröfur á fólk að það leiti sér að vinnu, enda óvinnufært(17). Ætla má að óvinnufærnin sé tilkomin vegna heilsubrests sem getur til að mynda verið félagsfælni þess sem hefur einangrað sig og kvíði við að takast á við kröfur á vinnumarkaði. Heilsubrestur verður þó ekki meðhöndlaður hjá félagsþjónustu sveitarfélaga því sveitarfélögin hafa engar skyldur til að takast á við heilsuvanda íbúa sinna, það er verkefni heilbrigðiskerfisins og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs.

Óvinnufærni skal meðhöndla

Lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða nr. 60/201218 tryggja einstaklingum með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa atvinnutengda starfsendurhæfingu. VIRK Starfsendurhæfingarsjóður býður upp á starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga með heilsubrest ef vilji og geta er til að sinna starfsendurhæfingu og markmið einstaklings er að verða aftur virkur þátttakandi á vinnumarkaði eða auka þátttöku á vinnumarkaði svo fljótt sem verða má. Það er von mín að heilbrigðisstarfsfólk sinni skyldu sinni við samfélagið og einstaklingana sem þeir sinna og vísi fólki sem glímir við heilsubrest í starfsendurhæfingu. Að vísa í áframhaldandi fjárhagsaðstoð og fátækt þar sem ekki er unnið með vandann er ekki lausn.

Hvort sem við lítum á fátækt út frá fjárhagslegum skilgreiningum eða stöðu og möguleikum einstaklings í samfélagi manna (færnikenningunni) er ljóst að það að vera utan vinnumarkaðar vegna heilsubrests hefur veruleg neikvæð áhrif á heilsufar, hamingju og fjárhag. Það minnkar því fátækt einstaklingsins og efnahagsvanda samfélagsins að tekið sé fljótt og vel á þeim heilsubresti sem leiður til óvinnufærni - en tíminn er dýrmætur.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2019.

Heimildir

1. Stefán Ólafsson og Guðný Björk Eydal. (2012). Fátækt og fjárhagsþrengingar. Í Guðný Björk Eydal og Stefán Ólafsson (ritstj.), Þróun Velferðarinnar 1988 til 2008 (bls. 185–211). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
2. Hagstofa Íslands. (2017). Litlar breytingar á dreifingu ráðstöfunartekna 2016. Sótt af https://www.hagstofa. is/utgafur/frettasafn/laun-og-tekjur/ litlar-breytingar-a-dreifinguradstofunartekna-2016/.
3. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. (2018). Hlutfall óvinnufærra með fjárhagsaðstoð til framfærslu 2007- 2017. Sótt af http://velstat.reykjavik.is/ PXWeb/sq/0cccf91d-a17c-451c-ae0f7ca06aa6a17c.
4. Amartya, S. (2000). Development as freedom. New York: Anchor Books.
5. Stiglitz, E. J. (2012). The price of inequality. London: Allen Lane.
6. EU social indicators - Europe 2020 poverty and social exclusion target. Sótt af file:///C:/Users/bjork/Downloads/ EU-social-indicators_Europe%20 2020_EN%20(1).pdf.
7. Efling stéttarfélag. Kjarakönnun október 2018. Sótt af https://efling. is/2018/12/06/kjarakonnun-eflingarnidurstodur-kynntar-2/.
8. King, V. (2016). 10 Keys for Happier Linving. London: Headline Publishing Group.
9. De Neve, J.E. og G. Ward, George, Happiness at Work. (2017). Saïd Business School WP 2017-07. Sótt af https://ssrn.com/abstract=2943318.
10. Norden. (2016). Creating participation for youth with mental health problems. Stockholm: Nordic Centre for Welfare and Social Issues. Sótt af https:// nordicwelfare.org/nb/publikationer/ creating-participation-for-youth-withmental-health-problems-no/.
11. Halvorsen, B., Hansen, O. og Tägtström, J. (2013). Young people on the edge (summary): Labour market inclusion of vulnerable youths. Copenhagen: Norræna ráðherranefndin. Sótt af https:// nordicwelfare.org/en/publikationer/ young-people-on-the-edge-summary/.
12. Olsen, T. og Tägtström, J. (2013). Innledning. Í T. Olsen og J. Tägström (ritstj.), For det som vokser. Unge, psykisk uhelse og tidlig uførepensjonering i Norden, (bls. 16-27). Sótt af https://nordicwelfare. org/nb/publikationer/for-det-somvokser-unge-psykisk-uhelse-og-tidliguforepensjonering-i-norden/.
13. OECD. (2016). Youth not in employment, education or training (NEET). doi:10.1787/72d1033a-en.
14. Olafsson, J. og Wadensjö, E. (2012). Youth, education and labour market in the Nordic countries: Similar but not the same. Stockholm: Friedrich Ebert Stiftung. Sótt af http://www. youthpolicy.org/wp-content/uploads/ library/2012_Youth_Education_ Labour_Market_Nordic_Eng1.pdf.
15. Hagstofa Íslands. (2015). Lágtekjumörk og tekjudreifing 2014. Hagtíðindi, 100(15). Sótt af https:// www.hagstofa.is/utgafur/nanar-umutgafu?id=55055.
16. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. (2018). Fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fjöldi notenda eftir þjónustumiðstöðvum, atvinnustöðu og aldri, 2007-2018 Sótt af http:// velstat.reykjavik.is/PXWeb/pxweb/ is/VELSTAT/VELSTAT__200.%20 Arsskyrsla__02%20 Fjarhagsadstod/VEL02008.px/table/ tableViewLayout2/?rxid=35107622- 6393-4b06-8dd4-cb4d1623b5a4.
17. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. (2018). Hlutfall óvinnufærra með fjárhagsaðstoð til framfærslu 2007- 2017. Sótt af http://velstat.reykjavik.is/ PXWeb/sq/0cccf91d-a17c-451c-ae0f7ca06aa6a17c.
18. Lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða Nr. 60/2012. Sótt af https://www.althingi. is/lagas/nuna/2012060.html.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband