Fara í efni

Endurhæfing er ævilangt verkefni

Til baka

Endurhæfing er ævilangt verkefni

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir   

„Ég var búin að stofna bókaforlag sem heitir Bókstafur og var komin með einkenni örmögnunar en gerði mér ekki grein fyrir hvað var að gerast,“ segir Sigríður Lára Sigurjónsdóttir sem hefur lokið samstarfi sínu við VIRK. Hún býr á Egilsstöðum og hóf samstarfið við VIRK sumarið 2016.

„Ég las viðtal við konu sem ég rakst á á vef VIRK, í gegnum Facebook. Hún hafði fengið kulnun og þá áttaði ég mig á að ég væri með ýmis einkenni starfsþrots eða örmögnunar. Ég hélt að slíkt kæmi bara fyrir fólk sem væri í erfiðri og leiðinlegri vinnu. Ekki fólk sem þætti brjálæðislega gaman að vinnunni sinni og hefði yfirgengilegan áhuga á öllu, en þannig er ég,“ segir Sigríður Lára.

Hvað breyttist við þessa uppgötvun?
„Ég var búin að fara til læknis, var með flensueinkenni sem ekki vildu fara, kvíða og viðvarandi streitu. Ég var alltaf að reyna að gera eitthvað í þessu, vera duglegri að taka vítamín, hreyfa mig meira, breyta hinu og þessu, en ekkert virtist ganga. En eftir að ég las viðtalið fór ég aftur til læknis og bað hann um að sækja um fyrir mig hjá VIRK. Ég vissi að VIRK væri með þjónustufulltrúa á Egilsstöðum. Læknirinn sótti um fyrir mig og ég fékk viðtal við ráðgjafa um sumarið. Svo hóf ég samstarf við VIRK, samtalsmeðferð hjá sálfræðingi, sjúkraþjálfun og endurhæfingu hjá StarfA um haustið. StarfA heitir fullu nafni Starfsendurhæfing Austurlands. Um leið var ég sett á langverkandi þunglyndis- og kvíðalyf.“

Á hverju var byrjað í endurhæfingunni?
„Maður kemur inn í ákveðið prógramm sem er skipulagt af ráðgjafa hjá  StarfA. Þar á meðal sótti ég námskeið. Þetta var einsog að vera í skóla að læra á lífið, samhliða því að vinna í mínum málum með sálfræðingi og sjúkraþjálfara. Það var tekið á öllu sem að mér amaði samhliða. Í StarfA var ég í góðum hópi fólks sem ýmist var glíma við kulnunareinkenni, örmögnun eða afleiðingar af slysum eða áföllum.“

Úrræðin „svínvirkuðu“

Reyndust þessi úrræði vel?
„Já, þau gerðu það – eiginlega „svínvirkuðu“. Ég var allan þennan vetur í fullri endurhæfingu en var jafnframt að sinna fyrirtækinu mínu. Þegar aðrir í hópnum fóru í svokallaðar vinnusmiðjur þá vann ég áfram í Bókstaf. Svo var ég í vinnuprófun á Bókasafni Héraðsbúa. Á þessum hinum ýmsu námskeiðum var meðal annars unnið með félagskvíða og markmiðasetningu hjá iðjuþjálfa. Já, og streitustjórnun! Fyrirbæri sem ég vissi ekki að væri til. Ég hélt nefnilega að streitan væri svo algjörlega utan frá og innbyggð í lífið að ég gæti bara ekkert gert til að stjórna henni. Svo var regluleg hreyfing inni í prógramminu. Einnig var rætt um líf og líðan í víðum skilningi. Að þessu starfi komu margir kennarar, fagfólk í ýmsu, á mörgum mismunandi námskeiðum. Mér voru kenndir hlutir sem ég vissi ekki einu sinni að ég þyrfti að læra. Þegar mikið hefur verið að gera hjá mér þá hef ég oft sleppt hvíld og hreyfingu. Nú þurfti ég að læra að forgangsraða í lífinu til þess að það yrði „sjálfbært“. Áður hafði ég klárað batteríin, varatankinn og alla orkuna mína, með reglulegu millibili.“

Hvaða menntun hefur þú?
„Menntun mín og kulnunarsaga eiga að vissu leyti samleið – fyrstu kulnunareinkennin eiga sér því rætur nokkuð langt aftur.

Ég er fædd á Egilsstöðum 1974 og ólst þar upp. Lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum hér á Egilsstöðum 1993 og fór síðan í Háskóla Íslands 1994 í Almenna Bókmenntafræði, eftir að hafa skroppið einn vetur í Háskólann á Akureyri í kennaranám.

Ég held að ég hafi fengið fyrstu einkenni um örmögnun 1995, þegar ég var á öðru ári í HÍ. Ég lauk þó BA-prófi 1997. Svo fór ég í mastersnám og lauk mastersgráðu í Almennri bókmenntafræði 2004. Síðan tók ég aðra mastersgráðu í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu árið 2009, einnig frá Háskóla Íslands. Eftir það byrjaði ég í doktorsnámi og það er enn á hliðarlínunni. Ég er með doktorsritgerð í leikhúsfræði í smíðum.

Í einkalífinu gerðist margt á þessum árum. Ég gifti mig 2006 og þá var fyrra barn okkar skírt, seinna barnið fæddist tveimur árum síðar. Inn á milli tók ég – að því er ég sé núna –  líklega nokkur „örmögnunarskeið“. En þau gengu yfir. Ég var greind þunglynd 1998, fékk slík einkenni öðru hverju. Þegar þau náðu yfirhöndinni lokaði ég mig dálítið inni. En það er nú þannig að þegar maður er duglegur að liggja í sófanum sínum og meikar ekki að tala við fólk, þá hvílist maður ágætlega.

Svo komst ég á skrið aftur og hófst sami leikurinn. Ég áttaði mig ekki á að þetta væri mynstur sem ég væri að endurtaka. Ég þurfti að læra að endurhlaða „batteríin“ með hvíld og hreyfingu bara helst á hverjum degi. Ég þurfti að læra að gera ráð fyrir tíma til þess í daglega lífinu, í stað þess að taka vinnuskorpur og stoppa ekki fyrr en öll orkan væri löngu búin og ekkert eftir nema geðvonskan.“

Maður er aldrei í friði fyrir sjálfum sér

Hvenær fluttir þú til Egilsstaða?
„Árið 2012 fluttum við fjölskyldan í Egilsstaði. Þá fékk ég starf sem verkefnastjóri sviðslista, tímabundna stöðu við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Menntaskólans á Egilsstöðum. Sú ráðning var til eins og hálfs árs. Þegar því lauk í ársbyrjun 2014 fór ég að undirbúa stofnun bókaútgáfunnar Bókstafs. Það var afskaplega skemmtilegt. Bókstafur er reyndar enn í gangi þótt við séum ekki með skrifstofu lengur.

Undirbúningur að stofnun Bókstafs var töluvert álag. Við vorum nokkrir frumkvöðlar saman á hæð í húsi, fyrirbæri sem er til húsa á gömlu Kaupfélagsskrifstofunni á Egilsstöðum og kallast Hugvangur, mest fólk sem var að reka sprotafyrirtæki. Við töluðum stundum um að við værum með ömurlegustu yfirmenn í heimi – okkur sjálf – maður er aldrei í friði fyrir sjálfum sér.

Í byrjun árs 2015 hóf Bókstafur starfsemi sína og rúmu ári síðar, í febrúar 2016, fékk ég flensu sem ekki gekk yfir á eðlilegan máta. Einkennin voru viðvarandi þangað til um sumarið. Ónæmiskerfið mitt virtist endanlega hafa sagt upp störfum. Þetta lagaðist ekki fyrr en um sumarið. Ég fór á tvær ráðstefnur út af öðrum málum og skyldi Bókstafsstarfið eftir heima – þá lagaðist þetta. Um haustið var ég svo komin í samstarf við VIRK og jafnframt formlegt veikindaleyfi „frá lífinu“ má segja.“

Komin í alvöru vinnu með laun

Hvernig líður þér núna?
„Heyrðu – þetta gengur rosalega vel. Ég var hjá VIRK fram á haust 2017, þá var ég að skilja. Vegna þess fékk ég aðeins lengri tíma til að jafna mig. Fékk að hitta áfram ráðgjafa VIRK og sálfræðinginn minn aðeins lengur en til stóð.

Síðan gerðist það í ársbyrjun 2018 að fékk ég vinnu hjá Austurbrú í fræðslumálum. Austurbrú er öðrum þræði þekkingarnet á Austurlandi, og þar sinni ég námskeiðahaldi og ýmsu sem tengist menntamálum, próftöku háskólanema í fjarnámi og fleiru. Nú er ég sem sagt komin í alvöru vinnu með laun og hvaðeina. Staðan er því góð. Ég var á sínum tíma sett á þunglyndis- og kvíðalyf en hef sleppt þeim að ráði læknis og virðist komast upp með það.

Aðalmálið er samt kannski að gleyma ekki því sem ég lærði í endurhæfingunni. Þetta er ævilangt verkefni. Taka ekki vinnuna með mér heim. Taka ekki heimilið með mér í vinnuna. Við erum tvær sem vorum saman í endurhæfingunni sem reynum enn að hittast og hreyfa okkur allavega einu sinni í viku. En auðvitað fer örmögnunin kannski aldrei alveg. Þetta er svolítið eins og að vera sími með lélegt batterí. Suma daga er maður bara kominn niður í 50% um leið og maður tekur úr sambandi. En mér hefur gengið vel að vera ekki að burðast með streitu, þótt ég sé alveg örugglega ekki að gera allt fullkomlega í lífinu… hvernig sem mælikvarðinn á því á nú að vera.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir

Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.


Hafa samband