Fara í efni

Ýta undir þrautseigju

Til baka

Ýta undir þrautseigju

Kanna þarf orsakir þess að stækkandi hópur ungs fólks nær hvorki að fóta sig í starfi né í skóla og er í raun í gildru aðstæðna sinna. Nokkuð var um að fólk í kringum tvítugt festist í aðgerðaleysi á árunum í kringum hrun enda var atvinnuleysi mikið þá. Nú – tæplega áratug síðar – er veruleikinn í þjóðfélaginu allt annar og skýringar á vanda þessa fólks væntanlega líka. Við þessu þarf að finna svör, að mati Vigdísar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Virk – starfsendurhæfingarsjóðs.

Vandinn er margþættur

„Virk hefur starfað í tæp tíu ár og fólk með litla menntun hefur alltaf verið stór hluti af okkar skjólstæðingum,“ segir Vigdís. „Í dag fer fólki með háskólamenntun hins vegar fjölgandi, t.d. þeim sem eru í umönnunarstörfum eins og hjúkrun og kennslu. Annars er sama hver bakgrunnurinn er; um 80% þeirra sem til okkar koma glíma við annaðhvort geðræna kvilla eða stoðkerfisvandamál. Reyndar hangir þetta tvennt oft saman og yfirleitt er vandinn margþættur.“

Alls 2.383 manns voru í starfsendurhæfingu hjá Virk við lok síðasta árs eða 17% fleiri en ári fyrr. Frá stofnun sjóðsins hafa alls 12.856 manns leitað til hans og 7.333 einstaklingar hafa lokið þjónustu. Um 70% eru komin út á vinnumarkaðinn eða í nám, öllum til ávinnings.

„Það eru margar ástæður fyrir þessari fjölgun á síðastliðnu ári. Ein skýringin er sú að vitund um þjónustu okkar er orðin meiri. Almenningur, starfsfólk stéttarfélaga og þeir sem vinna í heilbrigðiskerfinu þekkja æ betur til okkar,“ segir Vigdís.

Margt orsakar kulnun

Á síðari árum hefur orðið æ meiri skilningur á því sem kallað er kulnun í starfi og að slíku þurfi að verjast. Þar er vitaskuld hver og einn sjálfum sér næstur og þarf að gæta sín – en vinnuveitendur verða einnig að sjá til þess að álag í starfi sé hóflegt og að vel sé búið að fólki á alla lund.

„Hraði, áreiti og miklar kröfur í starfi jafnt sem einkalífi í langan tíma geta orsakað kulnun, sem er flókið fyrirbæri. Annars er umhugsunarvert hve margt getur valdið kulnun sem horfa verður heildstætt á,“ segir Vigdís.

Þurfi fólk starfsendurhæfingu hjá VIRK er gangur mála sá að fyrst þarf tilvísun læknis og svo meta sérfræðingar sjóðsins hvað sé best að gera í málum við- komandi. Ráðgjafar sem hafa meðal annars starfsstöðvar úti hjá stéttarfélögum um allt land kalla fólk svo í viðtal og út frá upplýsingum sem saman safnast er gerð áætlun um endurkomu til vinnu. Er þjónusta þessi greidd af atvinnurekendum, lífeyirssjóðum og ríki en sjóðurinn er sameiginlegt verkefni þessara aðila.

Tilveran nái jafnvægi

„Allir sem til okkar koma fá mikilvæga hvatningu, stuðning og utanumhald hjá ráðgjöfum okkar. Svo bætist við hjálp fagaðila eftir þörfum. Má þar nefna sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfun og námskeið – eða þjónustu á starfsendurhæfingarstöðvum. Þess eru líka dæmi að fólk sé hreinlega of veikt til þess að geta nýtt sér það sem við bjóðum og þá beinum við því aftur til heilbrigðiskerfisins. En oft duga einfaldar leiðir; stundum þarf fólk sem hefur ofgert sér fyrst og síðast utanumhald, hvatningu og hvíld svo tilveran nái jafnvægi að nýju. Fólk sem leitar til Virk glímir þó undantekningarlítið við margþættan vanda og þarf mikla aðstoð,“ segir Vigdís og bætir við: „Það er mikilvægt að við sem samfélag leggjum áherslu á að styðja við og ýta undir heilbrigði og þrautseigju hjá börnunum okkar til að geta mætt þeim erfiðleikum sem flestallir mæta einhverntíma. Lífið er ekki alltaf einfalt og auðvelt og því mikilvægt að við gefum börnunum okkar færi á að takast á við allskonar félagslegar aðstæður.“

Viðtal: Sigurður Boggi Sævarsson
Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. janúar 2018.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband