Fara í efni

VIRK Atvinnutenging - Til vinnu á ný

Til baka
Atvinnulífstenglar VIRK
Atvinnulífstenglar VIRK

VIRK Atvinnutenging - Til vinnu á ný

Hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkri starfsendurhæfingarþjónustu og með aukinni þekkingu, rannsóknum og reynslu tryggir VIRK samþætta, árangursríka og örugga þjónustu á því sviði.

Samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu nr. 60 frá árinu 2012 (10. grein, lið d.), þá er hlutverk VIRK einnig að „Veita atvinnurekendum og stjórnendum nauðsynlega fræðslu og stuðning með það að markmiði að stuðla að endurkomu einstaklinga til starfa eða auka möguleika þeirra til þátttöku í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa.“

Með þessi hlutverk að leiðarljósi var farið af stað með sérstakt þróunarverkefni árið 2016 þar sem stefnt var að því að tengja einstaklinga með skerta starfsgetu markvisst við vinnumarkaðinn áður en starfsendurhæfingu þeirra lauk. Því fyrr sem einstaklingar reyna endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys, því líklegra er að þeir komist aftur út á vinnumarkaðinn og því er mikilvægt að gefa einstaklingum tækifæri til að komast í vinnu við hæfi snemma í starfsendurhæfingarferlinu.

Strax í byrjun verkefnisins var lögð mikil áhersla á að ná góðu samstarfi við vinnumarkaðinn og auka fræðslu og stuðning við fyrirtæki og stofnanir. Í heimsóknum til fyrirtækja fór fram ákveðin fræðsla um starfsemi VIRK, um mögulegan ávinning af því að ráða hæft starfsfólk sem var að ljúka starfsendurhæfingu til starfa og þann stuðning sem VIRK var tilbúin að veita í þessu ferli. Í kjölfar þessara heimsókna mynduðust tengsl milli atvinnulífstengla VIRK og tengiliða þeirra í fyrirtækjunum og mörg fyrirtæki skrifuðu undir sérstakan samstarfssamning við VIRK. Þetta skref hefur reynst verkefninu mjög mikilvægt og er enn mikilvægur þáttur í samskiptum við fyrirtækin. Í hvert sinn sem haft er samband við þessi fyrirtæki er reynt að tala við skráða tengiliði sem oft hafa þegar fengið fræðslu um atvinnutengingu einstaklinga með skerta starfsgetu sem auðveldar allt áframhaldandi samstarf.

200 fyrirtæki í samstarfi

Í maí 2019 eru um 200 fyrirtæki með undirritaðan samstarfssamning við VIRK en í upplýsingagrunni VIRK eru nú skráð yfir 900 fyrirtæki og stofnanir. Núna stendur yfir sérstakt átak þar sem lögð er áhersla á að nálgast fyrirtæki sem ekki hafa verið í virku samstarfi við VIRK til þessa. Sendur var út fjölpóstur á þessi fyrirtæki og honum fylgt eftir með ósk um að fá að koma í heimsókn til að veita upplýsingar um starfsemi VIRK og starf atvinnulífstengla VIRK við að aðstoða einstaklinga með skerta starfsgetu við að komast aftur á vinnumarkaðinn.

Gert var ráð fyrir að niðurstöður þróunarverkefnisins gætu haft marktæk áhrif á ferli einstaklinga í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Þetta varð raunin, því árið 2018 var ákveðið að það ferli sem búið var að vinna eftir í þróunarverkefninu yrði varanlegt verkferli fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem voru tilbúnir til að reyna endurkomu á vinnumarkað en þurftu sérstaka aðstoð til þess. 

Einstaklingum er vísað í þjónustu hjá sérstökum atvinnulífstenglum þegar þeir eru metnir tilbúnir til að reyna endurkomu inn á vinnumarkaðinn, um 3–4 mánuðum áður en starfsendurhæfingu lýkur. Þar fá þeir stuðning frá atvinnulífstengli við undirbúning fyrir atvinnuleit og stuðning í gegnum allt ferlið þar til þeir eru komnir í vinnu. Margir eflast mjög á þessum tíma og sækja sjálfir um störf sem auglýst eru á almennum vinnumarkaði. Þá hefur komið í ljós að einstaklingum sem hafa verið lengi frá vinnumarkaði gagnast vel að fá tækifæri til að koma inn á vinnumarkaðinn á stigvaxandi máta og það eykur líkurnar á árangursríkri endurkomu á vinnumarkaðinn. Í þeim tilfellum er unnin sérstök virkniáætlun af atvinnulífstengli í samvinnu við starfsmanninn og yfirmann hans. Þar er tekið mið af verkefnum, vinnuferlum, aðstæðum og vinnutíma á viðkomandi vinnustað og síðan eru gerðar endurbætur á áætluninni eins og þurfa þykir. Bæði er lögð áhersla á að styðja einstaklinginn en ekki síður vinnustaðinn, bæði stjórnendur og samstarfsmenn, eins og óskað er eftir.

Eftirfylgni er með starfsmanni inni á vinnustaðnum í samráði við starfsmanninn og vinnustaðinn og getur atvinnulífstengill aðstoðað við úrlausnir vandamála og hindrana sem upp geta komið. Á meðan einstaklingar eru í atvinnutengingu geta atvinnulífstenglarnir keypt einstaklingsmiðuð úrræði frá ýmsum fagaðilum sem auðveldað geta endurkomu inn á vinnumarkaðinn. Þetta geta verið úrræði eins og vinnuvistfræðilegt mat á vinnuumhverfi framkvæmt af sjúkraþjálfara eða iðjuþjálfa, viðtöl hjá sálfræðingi til stuðnings sem og sérstök námskeið sem geta aukið möguleika einstaklings á vinnumarkaðinum. Mynd 1 sýnir samstarf VIRK og vinnustaðar í endurkomuferlinu.

Í lok árs 2018 störfuðu fimm atvinnulífstenglar í rúmlega 4 stöðugildum og aðstoðuðu ráðgjafa VIRK á höfuðborgarsvæðinu (35 talsins) við að koma einstaklingum með skerta starfsgetu aftur inn á vinnumarkaðinn eftir starfsendurhæfingu. Auk þessa störfuðu fjórir atvinnulífstenglar við IPSatvinnutengingu (Individual Placement and Support) í um 3,5 stöðugildum og aðstoðuðu þeir einstaklinga með alvarleg geðræn vandamál við að komast inn á vinnumarkaðinn. Þessir einstaklingar komu í þjónustu VIRK í gegnum samstarf við geðdeild Landspítalans – Laugarási og geðheilsuteymi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, bæði austur og vestur.


156 störf árið 2018

Tæplega 300 tilvísanir bárust frá ráðgjöfum VIRK um aðstoð fyrir einstaklinga sem voru að klára starfsendurhæfingu hjá VIRK árið 2018 og fundu atvinnulífstenglar VIRK 156 störf á því ári. 26 þessara starfa voru fyrir einstaklinga í IPS-atvinnutengingunni sem tók að meðaltali um 6 mánuði að finna en 130 starfanna voru fyrir einstaklinga sem voru að klára almenna starfsendurhæfingu en þau störf tók að meðaltali rúmlega 3 mánuði að finna. Í 14% tilfella var gefið tækifæri á stigvaxandi endurkomu inn á vinnumarkaðinn. Um 30% af þeim störfum sem fundust árið 2018 voru störf sem einstaklingarnir fundu sjálfir en allir fengu þeir aðstoð við atvinnuleitina frá sínum atvinnulífstengli og margir fengu áframhaldandi stuðning eftir að í starf var komið.

Mynd 2 sýnir menntun þeirra sem útskrifuðust í starf eftir þjónustu hjá atvinnulífstenglum og mynd 3 aldursdreifingu þeirra.

Á mynd 4 má sjá hver starfshlutföllin voru fyrir þau störf sem fundust árið 2018. Langflestir fara í hlutastörf eftir að þjónustu hjá atvinnulífstengli lýkur, enda eru þeir einstaklingar sem vísað er til þeirra með skerta starfsgetu. Ánægjulegt er að sjá að þó nokkuð stórt hlutfall, eða 28%, eru í 90–100% starfshlutfalli.


Mynd 5 sýnir síðan þær starfsgreinar sem einstaklingarnir störfuðu við í lok þjónustu. Þar eru tvær stærstu starfsgreinarnar þjónustu-, umönnunar- og sölustörf (38%) og sérfræðistörf (23%).

Um 57% þeirra einstaklinga sem útskrifuðust í starf eftir þjónustu hjá atvinnulífstenglum VIRK voru búnir að vera fjarverandi frá vinnumarkaðinum í allt að 6 mánuði áður en þeir komu í þjónustu til VIRK en 12% þeirra höfðu verið meira en 36 mánuði fjarverandi frá vinnumarkaðinum. Við þetta bætist síðan sá tími sem starfsendurhæfingin tekur en meðaltími í þjónustu hjá öllum einstaklingum sem útskrifuðust úr þjónustu VIRK árið 2018 var 15,7 mánuðir.


Mynd 6 sýnir framfærslu við upphaf þjónustu og mynd 7 sýnir stöðu á vinnumarkaði við upphaf þjónustu hjá VIRK fyrir þá einstaklinga sem þáðu aðstoð hjá atvinnulífstenglum VIRK og útskrifuðust í starf að lokinni almennri starfsendurhæfingu árið 2018. Telja má líklegt að margir þeirra hefðu átt erfitt með að finna sér vinnu á eigin spýtur. Allir þeir sem komu inn í þjónustu og voru með laun á vinnumarkaði við upphaf þjónustu voru búnir að missa þá tengingu og nutu því aðstoðar frá atvinnulífstenglum VIRK.

Eins og sjá má í umfjöllun um útreikninga Talnakönnunar þá er metinn ávinningur af starfsemi VIRK verulegur. Samkvæmt þeim útreikningum er reiknaður meðalsparnaður á hvern útskrifaðan einstakling árið 2018 12.7 miljónir króna. Það er einnig fjárhagslegur hagur einstaklingsins í flestum tilfellum að fara aftur út á vinnumarkaðinn auk þeirra beinu lífsgæða sem felast í því að verða virkur þátttakandi í samfélaginu. Það er því til mikils að vinna að starfsendurhæfingu einstaklinga ljúki með endurkomu inn á vinnumarkaðinn.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2019 - sjá fleira áhugavert úr ársritinu hér.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband