Fara í efni

Mannauður VIRK - Árangur er í fólkinu falinn

Til baka

Mannauður VIRK - Árangur er í fólkinu falinn

Auður Þórhallsdóttir sviðsstjóri mannauðsmála hjá VIRK

Hjá VIRK starfa nú (apríl 2017) 33 starfsmenn í 28,5 stöðugildum, 29 konur og 4 karlar. Ráðgjafar VIRK sem starfa hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum um allt land eru 50 talsins í 47,7 stöðugildum, 44 konur og 6 karl.

Árið 2016 innleiddum við verkferla í mannauðsmálum bæði fyrir starfsfólk og ráðgjafa. Þessir ferlar tryggja samræmt verklag við stjórnun mannauðs, uppfylla mannauðsstefnu VIRK sem og lagalegar skyldur. Ferlin spanna allt frá þörfinni á nýjum starfsmanni, ná til ráðninga, móttöku og þjálfunar nýs fólks, fræðslu og símenntunar og starfsloka.

Markviss fræðsla og þjálfun gerir starfsfólk enn hæfara til að takast á við ögrandi verkefni ásamt því að viðhalda og bæta fagþekkingu. Við greiningu á fræðsluþörfum höfum við til hliðsjónar stefnu VIRK, gildi og áherslur, lög og reglugerðir, árleg frammistöðusamtöl, verkferla, upplýsingar frá stjórnendum sem og óskir starfsmanna.

Frá ársbyrjun 2017 höfum við framkvæmt mánaðarlegar mannauðsmælingar, enda mjög mikilvægt að mæla mannauðinn, rétt eins og aðrar lykiltölur í rekstri. Markmiðið er að greina enn frekar og með markvissum hætti líðan starfsfólks og hvernig þeir upplifa vinnuumhverfi og menningu hjá VIRK. Stjórnendur geta þannig greint og brugðist við ef umbóta er þörf svo starfsfólkið geti á sem bestan hátt blómstrað enn frekar og notið sín í starfi hjá VIRK.

Starfsfólk VIRK

Helstu áherslur í fræðslumálum síðasta árs voru á verkefnastjórnun og hvernig hún getur nýst VIRK sem best. Hluti starfsfólks fékk dýpri kennslu um hlutverk verkefnastjórans, hvernig meta á árangur, gerð tíma- og kostnaðaráætlana, eftirfylgni, skil og lúkningu verkefna. Móttökuritarar VIRK sátu námskeið í þjónustusímsvörun. Starfsfólk og stjórnendur efldu sig í undirbúningi fyrir árleg frammistöðusamtöl og hvernig slík samtöl geta sem best verið þægileg, uppbyggileg og árangursrík fyrir báða aðila.

Á dagskrá vorannar þessa árs er svo m.a. í boði fræðsla um hugmyndafræði „Lean“ eða straumlínustjórnunar og farið verður í hlutverk þeirra sem stýra slíkum verkefnum og hvernig má ná sem bestum árangri við innleiðingar. Einnig eru fleiri námskeið á dagskrá vorannar s.s. skyndihjálp og kynntar leiðir til að efla þrautseigju og vellíðan starfsfólks. 

Ráðgjafar VIRK

Allir ráðgjafar VIRK koma saman tvisvar til þrisvar á ári á fræðsludögum sem haldnir hafa verið síðustu ár á höfuðborgarsvæðinu.

Á haustdögum 2016 fór m.a. fram fræðsla með áherslu á hvernig við getum eflt ráðgjafa VIRK svo þeir upplifi enn frekar vellíðan í starfi, hafi áhrif á þróun starfsins og séu virkir þátttakendur í þróun starfsendurhæfingarferilsins hjá VIRK. Erindi var haldið um „Núvitund“ og fjallað um umbótavinnu eða „Lean-vinnu“ sem fer fram á nokkrum ferlum starfsendurhæfingar hjá VIRK. Einnig var upplýst um stöðu á nýju tölvukerfi sem er í þróun en það mun halda utan um starfsendurhæfingarferli einstaklinga í þjónustu hjá VIRK. Farið var í hlutverk geðsviðs Landspítalans og mikilvægi samstarfs við aðra velferðarþjónustu.

 

Í janúarfræðslu ráðgjafa í upphafi þessa árs var m.a farið í mikilvægi teymisvinnu og hvað einkennir árangursrík teymi, helstu hindranir og áskoranir í þannig vinnu og þroskastig teyma. Einnig var erindi um hugmyndafræði „Þjónandi forystu“ þar sem leiðarstefið er hlustun ásamt einlægum áhuga og gagnkvæmum stuðningi samstarfsfólks og virðingu fyrir öðrum. Dagskráin var brotin upp með „Heitum klukkutíma“. Í þeim leik eru þátttakendur vaktir til umhugsunar um mikilvægi þess að standa saman sem sterkt teymi og voru þannig gildin okkar fagmennska - virðing - metnaður samofin í leikinn. Þátttakendur eru virkjaðir til að hugsa um mikilvægi samstarfs, miðlun þekkingar, markmiðssetningu, skipulags og markvissra vinnubragða svo dæmi séu tekin.

Þessa fræðsludaga enduðum við með „Þjóðfundi“ þar sem tíu spurningar voru teknar fyrir en markmiðið var að kalla eftir fjölbreyttum hugmyndum ráðgjafa til umbóta í starfi VIRK. Nú er unnið úr þessum hugmyndum og gaman verður að sjá afrakstur vinnunnar í framkvæmd.

 

Greinin birtist í ársriti VIRK 2017 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband