Fara í efni

Fallegt að horfa á fólk grípa tækifærið

Til baka

Fallegt að horfa á fólk grípa tækifærið

Edda Sif Sævarsdóttir sérfræðingur hjá VIRK

 

Við hittum Eddu Sif Sævarsdóttur fyrir í björtum og litfögrum húsakynnum VIRK við Borgartún þar sem hún starfar meðal annars sem ráðgjafi.

„Ég réði mig fyrst til VIRK sem svokallaður „hlaupandi ráðgjafi“. Það var rétt áður en farsóttin Covid19 skall á. Starfsemin breyttist við þær erfiðu aðstæður, mitt hlutverk var þá að fara þangað sem mín var þörf hjá hinum ýmsu stéttarfélögum til þess að stytta biðlista sem höfðu myndast. Ég hef starfað í rösk fjögur ár hjá VIRK, nú sem ráðgjafi hér í Borgartúni,“ segir Edda Sif Sævarsdóttir og brosir. Nærvera hennar er hlý en um leið athugul. Spurð um menntun svarar hún:

„Ég fór í félagsfræði í Háskóla Íslands – það var á þeim tíma sem fólk blaðaði í bókum til að leita upplýsinga og læra um samfélagið. Eftir BA-nám sinnti ég ýmsum störfum en tók svo meistarapróf í náms- og starfsráðgjöf. Í því námi er lögð áhersla á að hlusta og spegla það sem fólk er að segja. Að spegla er að endursegja með öðrum orðum frásögn einstaklings þannig að ljóst sé að enginn misskilningur sé í gangi. Það er mikilvægt að hlusta og skilja rétt það sem sagt er.“

Lærðir þú eitthvað um líkamstjáningu í þínu námi?
„Já en einkum út frá viðtalstækni, til dæmis hvernig við sem ráðgjafar ættum að koma fram. Líkamstjáning er mikilvægt tæki. Þegar þjónustuþegar VIRK koma til mín í upphafi er hægt að lesa töluvert í líkamstjáningu þeirra. Atriði eins og hvernig fólk situr og hvort það er með úlpuna rennda upp í háls segja sitt. Í þriðja eða fjórða viðtali skilur það kannski svo úlpuna eftir á öðrum stól – þá er það orðið öruggara með sig. Að halda fast um úlpu og trefil sýnir að fólk er í vörn. Líkamstjáning er í raun partur af hinni virku hlustun.

Þegar ég var ráðin til VIRK höfðu myndast biðlistar, því kom upp þessi hugmynd hjá VIRK að búa til stöðu svokallaðs „hlaupandi ráðgjafa“. Markmiðið var að stytta biðlistann. Í stað þess að ráða fleiri ráðgjafa inn hjá stéttarfélögunum var ég ráðin í það starf. Ég fór þá á viðkomandi stað og var með fólk í ráðgjöf í húsnæði hinna ýmsu stéttarfélaga.“

Reyni að mæta fólki þar sem það er statt

Fannstu mun á einstaklingum eftir því í hvaða stéttarfélagi það var?
„Það skiptir í raun engu máli hvaða menntun þú hefur eða hvaða starfi þú sinnir, allir geta fengið bakslag – veikindi, slys eða kulnun. En maður horfir ekkert á það hvaðan fólk kemur heldur hvernig það er á sig komið – reynir að mæta fólkinu þar sem það er statt. Kulnun er talsvert í umræðu hjá fjölmiðlum en er ekki algengasta ástæða þess að fólk sækir um í starfsendurhæfingu. Gögn VIRK sýna að fólk með kulnunareinkenni er ekki stærsti hópurinn sem til okkar leitar – en talsverður partur þó, klárlega.“

Hvernig áttar ráðgjafi sig á hvað er í rauninni að í hverju tilviki?
„Tilvísun frá heimilislækni er forsenda þess að fólk sé tekið í þjónustu hjá VIRK. Fyrir hendi eru því klínískar greiningar læknisins sem maður getur í upphafi byggt á og spurningarlistar sem einstaklingar svara í upphafi á Mínar síður VIRK. Þessar grunnupplýsingar liggja fyrir er fólk kemur til ráðgjafa – aðrar upplýsingar þarf hann að fá frá einstaklingunum sjálfum. Þær koma ekki endilega fram á fyrri stigum, geta verið viðkvæmar og erfiðar frásagnar. Stundum er um að ræða lífsreynslu sem fólk taldi sig vera búið að vinna úr og vill gleyma – en svo gerist eitthvað sem rífur sárið upp.

Til að samstarfið á milli ráðgjafa og þjónustuþega VIRK verði gott þarf helst að myndast trúnaðarsamband. Yfirleitt gengur þetta vel því flestir sem koma í endurhæfingu hjá VIRK sækjast eftir þessari þjónustu. Fólkið vill ná bata – líða betur og er tilbúið til að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og gera eitthvað til þess að laga hana. Fólk er þakklátt að fá þjónustu hjá VIRK og vill sækja þau úrræði sem því stendur til boða. Eftir svona fjögur skipti er maður kominn með nokkuð góða mynd af því sem að er.“

VIRK er fyrst og fremst starfsendurhæfing

Er snemma byrjað að leggja línurnar hvað gera eigi?
„Ýmislegt kemur strax í ljós. Til dæmis ef um stoðkerfisvanda er að ræða. Þá er vísað á sjúkraþjálfara. Eða ef mikil streita er í lífi einstaklings, þá er að finna steitunámskeið sem hentar. En flóknari vandamál koma kannski síðar upp á yfirborðið og þá úrræði gagnvart þeim.

VIRK er fyrst og fremst starfsendurhæfing. Markmiðið er að fólk komist aftur inn á vinnumarkaðinn. Stundum stefnir fólk á nám til að komast í vinnu síðar eða þá í einhvers konar virkni í samfélaginu. Fyrsta markmiðið er svokallað þátttökumarkmið, sem beinist að því að komast út á vinnumarkaðinn. Ekki er þá endilega stefnt að hundrað prósent vinnu því slíkt er ekki raunhæft fyrir alla. Sumir geta ekki sinnt nema takmörkuðu starfshlutfalli eða jafnvel vilja það ekki. Þegar til okkar leitar einstaklingur með enga vinnugetu en kemst svo kannski í sextíu prósent starfshlutfall þá er það mikill árangur.“

Hverjir eru helstu erfiðleikarnir sem þér sýnist að fólk eigi við að stríða sem til ykkar leita?
„Fólk ætlar sér gjarnan of mikið. Ætlar að standa sig svo óskaplega vel í öllu sem það tekur sér fyrir hendur en sýnir sjálfu sér of litla mildi og samkennd. Það vill klífa metorðastigann í vinnunni, samhliða því að klífa fjöll fjórum sinnum í viku, vera í matarklúbbi og sinna heimili, börnum og öldruðum foreldrum frábærlega. Það vill sinna öllu á fullkominn hátt í starfi og einkalífi en jafnframt missa ekki af neinu í „sósíallífinu“. Segja má að það sé ofurkrafa á fólk að vera alls staðar og gera allt mjög vel.“

Er þetta stéttskipt krafa?
Nei, mér finnst þessi krafa óháð því hvar í stétt fólk stendur. Líka er áberandi hvað fólk á erfitt með að segja nei. Þetta virðist vera landlægt á Íslandi og vera hvorki tengt stéttum eða aldri. Þetta, að gera aðeins meira en maður getur. Á þessum hraðakstri verður fólk yfirkeyrt. Erfiðast er oft að fá fólk til þess að stíga aðeins út úr þessum hugsunarhætti, skilja að það skiptir ekki meginmáli þótt óhreint leirtau sé í vaskinum eða krakkarnir geti ekki farið í sömu peysunni í skólann sem þeir voru í daginn áður.

Oft skiptir meira máli að fólk leggist upp í sófa og hvíli sig heldur en að það taki fram skúringafötuna eða ryksuguna. Samfélagsmiðlar virðast eiga þarna nokkurn hlut að máli. Þótt margt sé þar jákvætt þá dregur fólk gjarnan upp glansmynd af tilveru sinni og aðstæðum og gefur þannig upp ranga mynd af stöðu sinni. En það vita ekki hinir og máta sig við glansmyndina. Fólk er þó að verða meðvitaðra um þetta en áður var. Þetta er á vissan hátt sorglegt því flestir eru í raun að gera sitt besta. Það ætti að vera nóg.

Erfiðleikar fólks eru því á vissan hátt ákveðið samfélagsmein þegar á heildina er litið. Kröfurnar koma alls staðar að, frá skólanum, frá íþróttafélögum, vinnustaðnum, heimilinu og þannig mætti telja. Samfélagið hefur í áranna rást breyst töluvert að þessu leyti, kröfurnar hafa aukist, bæði efnislega og félagslega. Þetta gengur þvert á þá hópa sem leita eftir þjónustu hjá VIRK. Skiptir ekki máli þótt fólk hafi hærri laun, það bara ætlar sér meira. Fleiri utanlandsferðir og dýrari föt. Í raun má segja að fólk þurfi almennt að ná ákveðnu jafnvægi og skilja hvað er nauðsynlegast að einbeita sér að.“

Fólkið vill ná bata – líða betur og er tilbúið til að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og gera eitthvað til þess að laga hana. 

Hjálpar þú fólki að finna þetta út?
„Já. Ég ræði við fólk á þessum nótum. Þá kemur oft í ljós að það eru tiltölulega fáir hlutir sem skipta raunverulegu máli. Við þetta bætist svo að í hinni mannlegu tilveru þá á allt sitt skeið. Tíminn líður, börnin stækka og allt breytist. Stundum þarf að átta sig á því.“

Það er mikið rætt um einmanaleika. Finnst þér að hann hafi aukist í kjölfar Covid19?
„Við erum ekki ennþá farin að finna fyrir þeim áhrifum sem kóvíd-einveran hafði á fólk, en umræður eru í gangi um hvort við eigum eftir að fá þennan hóp til okkar seinna. Við höfum þó fengið til okkar einstaklinga sem fóru illa út úr kóvíd. Voru í heilsufarsendurhæfingu, til dæmis á Reykjalundi, en komu svo til okkar með það að markmiði að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Ýmsir telja sig vissulega einmana. Einstaklingum sem líður þannig eru yfirleitt mjög ánægðir með að komast á hópnámskeið, hitta fólk í sambærilegri stöðu og deila reynslu sinni. Fólk í yngri aldurshópum talar frekar um að það sé einmana. Sumir búa kannski ennþá hjá foreldrum, eru ekki búnir að ljúka námi og eru óánægðir með hlutskipti sitt. Miða það gjarnan við það sem það sér hjá jafnöldrum sínum á samfélagsmiðlum og eru komnir í góð störf og með fjölskyldu.

Hinir sem ekki hafa lokið námi og búa enn hjá foreldrum finnst þeir sitja eftir, eru sorgmæddir og finnst þeir ekki hafa fengið það út úr lífinu sem vonaðist var eftir. Við höfum flott úrræði fyrir þennan hóp. Annars vegar er það „Stökkpallur“ og hins vegar „Toppur“ hjá Framvegis sem er símenntunarmiðstöð. Þetta eru nokkurra vikna námskeið. Þar finnst þessu fólki æðislegt að koma og hitta jafnaldra sína. Fólk í þessari stöðu styður hvert annað og oft á tíðum myndast milli þess ágætis vinskapur.“

Sum fyrirtæki ótrúlega dugleg að gefa fólki tækifæri

Hvað geta fyrirtæki gert til að aðstoða þjónustuþega VIRK við að komast inn á vinnumarkaðinn?
„Okkur virðist ýmis fyrirtæki vera að átta sig á gildi þess að hafa fólk í aðeins minna starfshlutfalli og gefa því tækifæri til að komast þannig aftur út á vinnumarkaðinn. Margir sem eru hjá okkur eru í vinnusambandi – í veikindaleyfi, en snúa svo aftur í sína vinnu og kannski fyrst í lægra starfshlutfalli. Við köllum þetta stigvaxandi endurkomu til vinnu. Þá útbúum við ráðgjafar gjarnan nokkurra vikna plan með fólki þar sem það sér fyrir sér hvernig það getur komið aftur í sitt fyrra starf. Kannski fyrst í hálft starf og síðan í vaxandi starfshlutfall.

Oftast er um að ræða fólk sem komið er á seinni helming starfsendurhæfingarinnar. Ef þörf þykir þá getur það meðfram skertu starfshlutfalli haldið áfram í úrræðum, til dæmis í sjúkraþjálfun. Við reynum að halda inni líkamsrækt, hún er mjög mikilvæg – en fókusinn er á starfið. Fordómar gagnvart skertu starfshlutfalli eru minni og sum fyrirtæki eru ótrúlega dugleg að taka á móti fólki og gefa því tækifæri til að fóta sig á ný í starfi. Og þarna er ég að ræða um fyrirtæki af ýmsu tagi.“

Hefur þú sjálf samband við fyrirtæki fyrir fólk sem er í þjónustu VIRK?
„Nei. Ef fólk er í vinnusambandi aðstoða ég það við að gera plan um hvernig endurkomunni skuli háttað sem viðkomandi fer svo með til síns vinnuveitanda. Fólk vill yfirleitt gera þetta sjálft með sínum yfirmanni. En sé um að ræða fólk sem er að feta nýjar slóðir á vinnumarkaðinum þá starfa hjá VIRK ótrúlega góðir atvinnulífstenglar. Þegar ég sé að endurhæfing hefur gengið vel og einstaklingur er tilbúinn í atvinnuleit vísa ég honum til atvinnulífstengils. Hann hjálpar viðkomandi að gera hefðbundna ferilskrá og svokallaðan Alfreð-prófíl – fyrir Alfreð.is sem er rafræn umsóknarsíða um störf. Þar getur fólk sótt um rafrænt því mörg fyrirtæki auglýsa eftir starfsfólki á Alfreð.is.

En þá erum við komin inn á svið atvinnulífstengils sem undirbýr umsækjandann og æfir hann í viðtalstækni. Oftast eru spurningarnar svipaðar sem fólk þarf að svara í atvinnuviðtölum – svo sem hvað viðkomandi álíti styrkleika sinn eða veikleika. Það eru einmitt þau atriði sem verið er að vinna með í endurhæfingarferlinu.“

Hvers konar styrkleika vilja vinnuveitendur fá núna?
„Þeir vilja fá fólk sem er framúrskarandi í öllu mögulegu – framúrskarandi í mannlegum samskiptum, eiginlega með framúrskarandi hæfni á nánast öllum sviðum. Umsækjanda fallast hendur frammi fyrir slíkum kröfum, tengja sig ekki endilega við að vera „framúrskarandi“.

Fyrirtæki mættu oft dempa aðeins orðaval sitt, nota lágstemmdari lýsingarorð þegar þau auglýsa eftir starfsfólki. Þannig fengju þau fleiri og fjölbreyttari umsóknir. En almennt leggja fyrirtæki nútímans mikla áherslu á að fólk geti unnið í teymi.“

Hvað þarf til að vera góður í teymi?
„Til dæmis að kunna að hlusta og hafa ekki endilega skoðanir á öllu. Við vinnum flest með fólki með margvíslega reynslu og menntun. Að vinna í teymi er ákveðin jafnvægislist. Það þarf að átta sig á hvenær eigi að gefa í og hvenær eigi að draga til baka. Þetta er eitthvað sem kemur með reynslunni og við leggjum enga ofuráherslu á við þá sem eru í atvinnuleit.

Við breytum ekki fólki heldur reynum að efla sjálfstraust þess, gefa því trú á eigin getu og gera það sterkara en það var þegar það leitaði til VIRK í upphafi. Það gerist þegar fólk er búið að vera í kannski árs starfsendurhæfingu og hefur fengið úrræði við hæfi og verkfæri við hæfi. Það hefur lært að spegla það sem það lærði á námskeiðum með því að ræða það fram og aftur við ráðgjafann, velta fyrir sér hvernig það muni nýtast.

Mikilvægast er að fólk tileinki sér fræðslu og nýti þau verkfæri sem búið er að fá þeim. Það er það flókna í þessu öllu saman en flestum tekst að tileikna sér þessi bjargráð ótrúlega vel. Það er fallegt að horfa á fólk grípa tækifærið. Sumir hafa hreint út sagt verulega mikið fyrir þessu en standa svo uppi á eftir sem ótrúlega glæsilegt fólk.

Markmið starfsendurhæfingar VIRK er að efla og styrkja fólk. Við höfum hafsjó af alls konar úrræðum og námskeiðum en ég segi alltaf við fólk í upphafi: „Þetta er þín endurhæfing, þú situr við stýrið, ég reyni að styðja þig og benda á möguleikana.“ Það er mikilvægt að valdefla fólk í þessu ferli. Ýmsum er of gjarnt á að halda áfram á sjálfstýringunni en hugsa ekki nóg. Endurhæfing er ákveðin tímamót.

Mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á að þetta er endurhæfing þess, ferill þess og vegferð þess. Þjónustuþegar VIRK þurfa að vinna og leggja erfiðið á sig – ég tel mig heppna að fá að fylgja þeim á þessari vegferð.“

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason


Fréttir

27.04.2024
30.05.2024

Hafa samband