Fara í efni

Hjálp úr kjarna kerfisins

Til baka

Hjálp úr kjarna kerfisins

Bjarki Ingi Karlsson

Bjarki Ingi Karlsson var steypubílstjóri hjá BM Vallá. Sumarið 2008 fékk hann svæsna lungnabólgu og var haldið sofandi á gjörgæslu í fimm vikur. "Það var undarlegt að vakna úr þeim svefni um miðjan september. Mér leið eins og ég hefði sofið í 2-3 daga, en þá voru það fimm vikur, góðærið mikla var alveg horfið, bankakerfið var að leggjast á hliðina, starfið mitt að gufa upp eins og byggingariðnaðurinn allur og allir mínir vöðvar og styrkur virtust hafa runnið niður í dýnuna. Ég var bara slytti og stóð ekki undir sjálfum mér."

Veitti ekki af veikindadögunum

Þessi 180 sm stælti maður var orðinn 57 kíló. Hann var sendur í hjólastól í endurhæfingu á Grensás. „Ég hafði lengi verið félagi í VR og hélt því áfram þrátt fyrir að ég væri að keyra steypubíl og hefði kannski átt að tilheyra einhverju öðru félagi. En VR er öflugt félag og ég átti eftir að vera því feginn. Áður en ég veiktist hafði ég einhvern tímann verið að lesa mér til um réttindi mín og þar sá ég að veikindaréttur var 270 dagar! Mér fannst það satt best að segja alveg fáránlega mikill réttur og hugsaði með mér að þetta hlyti nú að vera óþarfi. Svo veiktist ég sjálfur og þá veitti nú ekkert af þessum 9 mánuðum.“

Bjarki var útskrifaður af Grensás fyrir jólin 2008. Hann segir það hafa verið mikil viðbrigði. „Ég var búinn að vera undir nánu eftirliti mánuðum saman, en svo var ég bara allt í einu kominn heim og það var engin eftirfylgni. Ég fór til sérfræðinga af og til, en það var ekkert endurhæfingarprógramm eða neitt slíkt. Líklega hafa læknarnir vitað að ég myndi aldrei snúa aftur í fyrra starf; til þess þarf hreysti, þetta eru átök og stundum mikið álag. Sjálfur var ég enn bjartsýnn á að ná fullri heilsu.“

Fyrstur til World Class

Bjarki var enn rúmliggjandi þegar hann fékk fyrst greidda sjúkradagpeninga og hann átti lítinn rétt eftir þegar Kristín Waage, ráðgjafi hjá VR, hafði samband við hann.  „Hún var leið yfir því að hafa ekki áttað sig fyrr á því að ég væri komin af spítala og engin eftirfylgni væri í gangi, VR vildi fylgjast með hverjum og einum, til að tryggja að þeir yrðu virkir í atvinnulífinu á ný. Svo sagði hún mér af Starfsendurhæfingarsjóði, sem var þá að komast á laggirnar.“

Bjarki tók ráðgjöf Kristínar fegins hendi. „Hún sendi mig til sjúkraþjálfara, sem sagði best að ég stundaði reglulega líkamsrækt. Ég fór að æfa í World Class og mér skilst að ég sé fyrsti fulltrúi  Starfsendurhæfingarsjóðs þar, eftir að samningar tókust við líkamsræktarstöðina. Sjóðurinn tryggði mér aðgang að stöðinni og ég fór fimm daga í viku í líkamsrækt. Ég var eins og spýtukarl fyrst, en smám saman hef ég liðkast og náð meiri styrk og þoli.“

Smurbrauð og styrkur

Hann segir að Kristín hafi leiðbeint sér þegar sjúkradagpeninga þraut. „Hún benti mér á að ég gæti fengið endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun.  Það var ljóst að það var talsvert í land með að ég væri vinnufær og vafamál að ég geti snúið til fyrri starfa svo við Kristín ræddum það talsvert hvort ég ætti ekki að nota tímann og huga m.a. að námi og kanna þá hvort unnt væri að gera það samhliða greiðslum frá Tryggingastofnun.“

Bjarki hefur haft ýmislegt fyrir stafni, annað en að stunda líkamsrækt af kappi til að ná upp fyrri styrk og þoli, en alvarleg lungnabilun eins og sú sem Bjarki fékk skerðir þolið gífurlega.   „Til að gera eitthvað skemmtilegt fór ég til dæmis á námskeið í nóvember hjá Marentzu Poulsen og fékk innsýn í alvöru smurbrauðsgerð. Ég hef um fátt annað talað og vinir mínir eru sumir búnir að fá alveg nóg af vangaveltum um smurbrauð!“

Vill umgangast fólk

Hann veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. „Ég er með fullt meirapróf, svo ég get ekið vörubíl, rútu eða leigubíl, svo dæmi séu tekin. En miðað við ástandið í þjóðfélaginu er ekki líklegt að ég geti farið í svoleiðis störf, ég sé að gamlir samstarfsmenn mínir hjá BM Vallá fá ekkert að gera þótt þeir séu með meirapróf.  Það er líka óvíst að ég muni endurheimta nægilegt  þol til að stunda mjög erfiða líkamlega vinnu.  Líklega er skynsamlegast að nýta tímann til mennta. Ég er með stúdentspróf og núna ætla ég að taka áhugasviðspróf og  fá þannig aðstoð við að ákveða hvað ég ætti helst að læra. Það verður að tengjast mannlegum samskiptum; ég hef svo gaman af að umgangast fólk.  Hjá BM Vallá  unnu margar áhugaverðar týpur og starfið var mjög fjölbreytt, ég fór nánast aldrei tvisvar á sama staðinn, heldur var alltaf í nýju umhverfi að hitta nýtt fólk.  Ég er ágætur sölumaður, en mér finnst ekkert ólíklegt að tölvunám af einhverju tagi verði niðurstaðan. Ég hef hjálpað vinum og kunningjum í tölvumálum og hef gaman af því. Mér finnst líklegt að ég komist til fyrri heilsu, en það tekur víst alltaf langan tíma eftir svona svæsna lungnasýkingu. Og þann tíma ætla ég að nota vel.“

Hann segir aðstoð Kristínar Waage ómetanlega. „Hún leysir vanda og ýtir á mig, sem skiptir ekki minna máli. Það er svo mikilvægt að fá hvatningu.“

Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.


Hafa samband