Fara í efni

Úrræði - öflugt samstarf við þjónustuaðila og sífelld þróun

Til baka

Úrræði - öflugt samstarf við þjónustuaðila og sífelld þróun

Ásta Sölvadóttir, sviðsstjóri hjá VIRK

 

Atvinnutengd starfsendurhæfing hjá VIRK byggist ávallt á einstaklingsmiðaðri þjónustu við hvern og einn þjónustuþega. Öflugt samstarf VIRK við breiðan hóp þjónustuaðila, fyriræki og stofnanir sem bjóða upp á úrræði í atvinnutengdri starfsendurhæfingu er því afar mikilvægt.

Þjónustan tekur mið af þörfum þjónustuþega hverju sinni og sífellt er leitað leiða til þess að þróa þjónustuna svo til verði viðeigandi úrræði. VIRK kaupir einungis þjónustu sem flokkast getur sem hluti af formlegri starfsendurhæfingu og veitt er af fagaðilum með tilskilin réttindi, enda er um viðkvæma þjónustu að ræða.

VIRK steig stórt skref inn í framtíðina árið 2018 þegar tekið var í notkun nýtt upplýsingakerfi með það að markmiði að auka gæði og skilvirkni þjónustu í starfsendurhæfingu. Mikill ávinningur hefur falist í innleiðingu kerfisins fyrir þjónustuaðila VIRK. Fyrst ber að nefna öruggari samskipti milli þjónustuaðila, einstaklinga í þjónustu, ráðgjafa og sérfræðinga VIRK. Þjónustuaðilar eru hluti af teymi einstaklings og fá betri yfirsýn yfir eigið þjónustuframboð og pantanir í vinnslu. „Mínar síður“ þjónustuaðila hafa verið í sífelldri þróun frá opnun kerfisins og nýjasta viðbótin í kerfinu felur í sér enn skilvirkari leið fyrir þjónustuaðila til þess að skila framvindu í úrræðum til ráðgjafa og sérfræðinga VIRK. Notendaleiðbeiningar kerfisins eru uppfærðar reglulega og er þær að finna á mínum síðum þjónustuaðila og á vef VIRK.

Haldnar voru tvær úrræðamessur á árinu 2019, bæði vor og haust í tengslum við fræðsludaga ráðgjafa. Á úrræðamessu hittast þjónustuaðilar, ráðgjafar og sérfræðingar VIRK og kynna sér framboð úrræða hverju sinni. Mikil ánægja hefur verið með úrræðamessurnar og næsta úrræðamessa verður haldin haustið 2020.

Hvernig gerist ég þjónustuaðili?

Umsóknir um að gerast þjónustuaðili eru afgreiddar fjórum sinnum á ári, í febrúar, maí, ágúst og nóvember. Áhugasamir eru beðnir um að skoða vel viðmið fyrir þjónustuaðila VIRK sem finna má á vefsíðu VIRK áður en umsókn er send inn. Hver þjónustuaðili hefur sitt svæði eða „Mínar síður“ í kerfinu og sendir inn þjónustuumsóknir með rafrænum hætti til VIRK. Með markvissari innkaupum á þjónustu og faglegri endurgjöf þjónustuaðila til ráðgjafa og sérfræðinga VIRK standa vonir til þess að auka gæði og skilvirkni í starfsendurhæfingu á vegum VIRK. Innleiðing þrepaskiptingar á þjónustu er fyrirhuguð á árinu 2020. Með henni er ætlunin að koma enn betur til móts við þarfir einstaklinga í þjónustu VIRK.

Þjónustuaðilar eru ábyrgðaraðilar fyrir vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga, nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem tóku gildi á síðasta ári. Í upplýsingakerfi VIRK er gerð krafa um rafræn skilríki hjá öllum notendum og að þeir undirriti trúnaðaryfirlýsingu . Með því móti er tryggt að aðeins þeir sem nauðsynlega þurfa að hafa aðgang að upplýsingum um einstaklinga í þjónustu VIRK hafi slíkan aðgang. Örugg samskipti innan kerfisins auðveldar þjónustuaðilum, ráðgjöfum og sérfræðingum VIRK samvinnu sín á milli. Betri yfirsýn næst yfir mætingar, framgang og endurgjöf í hverri þjónustupöntun fyrir sig og koma samskipti innan kerfis alfarið í stað tölvupóstsamskipta. Loks ber að nefna að öll möt sérfræðinga og greinargerðir fagaðila eru unnar með rafrænum hætti í upplýsingakerfinu.

Hvar liggur þörfin?

Þessi misserin er mikil þörf á auknum fjarúrræðum í kjölfar COVID-19 faraldursins. Þjónustuaðilum er bent á að kynna sér tilmæli landlæknis um fjarheilbrigðisþjónustu þar sem það á við sem finna má á vef landlæknis. Hér leynast ný tækifæri til þróunar nýrrar þjónustu fyrir einstaklinga í starfsendurhæfingu sem gagnast einstaklingum alls staðar á landinu. Einnig er þörf á fleiri úrræðum fyrir útlendinga, þar sem þeim fer fjölgandi í starfsendurhæfingu hjá VIRK.

Þróun útgjalda - keypt þjónusta af fagaðilum

Yfir 500 þjónustuaðilar um allt land

VIRK átti sem fyrr í góðu samstarfi við fjölda þjónustuaðila um land allt á árinu 2019. Kaup á þjónustu fagaðila jókst á árinu og námu þau rúmlega 1.428 milljónum króna eins og sjá má á mynd 1. Myndin sýnir þróun útgjalda á verðlagi hvers árs. Í árslok 2019 voru rúmlega 500 þjónustuaðilar um allt land með virkar pantanir í upplýsingakerfi VIRK.

Á mynd 2 má sjá skiptingu útgjalda milli mismunandi tegunda þjónustu á árinu 2019. Kostnaður vegna sálfræðiþjónustu jókst um 3% á árinu og kostnaður vegna sérhæfðrar starfsendurhæfingarþjónustu dróst saman um 3%. Lítilsháttar samdráttur var í kaupum á atvinnutengdum úrræðum og kostnaður vegna sjúkraþjálfunar dróst saman um eitt prósentustig á árinu vegna breytingar á samningi sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar Íslands. Lítilsháttar aukning er í flokkunum nám og námskeið og heilsuefling og líkamsrækt en annars er skipting útgjalda með svipuðum hætti og árið áður.

Þjónustuaðilar VIRK

Ríflega 140 aðilar veittu sálfræðiþjónustu hjá VIRK á árinu 2019. Sálfræðingar veita einstaklingum með geðrænan og streitutengdan vanda einstaklingsviðtöl og hópmeðferðir sem byggja á gagnreyndum aðferðum. Búið er að þrepaskipta þjónustu sálfræðinga eftir eðli vanda einstaklinga og mælst er til þess að sálfræðingar styðjist við klínískar leiðbeiningar í meðferð. Sálfræðingar auk fleiri fagstétta bjóða auk þess upp á fjölda úrræða á sviði sjálfseflingar.

Með VIRK starfa tæplega 130 sjúkraþjálfarar sem veita fjölbreytta einstaklings og hópþjónustu fyrir einstaklinga með stoðkerfisraskanir. Þeir styðja auk þess einstaklinga til að gera hreyfingu að lífstíl. Sjúkraþjálfurum í samstarfi við VIRK fjölgaði lítillega á árinu og standa vonir til að sjúkraþjálfurum fjölgi á nýjan leik meðal þjónustuaðila á árinu 2020 þar sem umsýsla vegna þjónustupantana er mun skilvirkari í nýja upplýsingakerfinu og þörf einstaklinga í þjónustu VIRK hefur ekki dregist saman.

Um 120 þjónustuaðilar um land allt bjóða upp á ýmsa heilsueflandi þjónustu og má þar nefna líkamsrækt með stuðningi íþróttafræðings eða þjálfara, vatnsleikfimi og jóga. Talsverður fjöldi nýrra fagaðila bættust í hóp þjónustuaðila á árinu.

Fjölmargir fræðsluaðilar og símenntunarmiðstöðvar um allt land veita ráðgjöf og fræðslu sem auka möguleika einstaklinga á vinnumarkaði. Þjónustan felur meðal annars í sér áhugasviðsgreiningar, hæfnigreiningar, raunfærnimat, nám á vottuðum námsleiðum auk fjölmargra styttri námsleiða og námskeiða sem auka möguleika á vinnumarkaði. Fjöldi þjónustuaðila veita atvinnutengda þjónustu og má þar helst nefna vinnuprófanir, úttekt og ráðgjöf og stuðning á vinnustað við endurkomu til vinnu sem og úrræði sem miða að því að búa einstaklinga undir atvinnuleit. Að lokum veita fjölmargir fagaðilar ýmsa ráðgjöf og meðferð. Hópur útlendinga leitar einnig til VIRK og er veittur ýmiss sértækur stuðningur fyrir þennan hóp t.d. túlkaþjónusta og íslenskunámskeið. Þörf er á fleiri úrræðum fyrir útlendinga meðal allra hópa þjónustuveitenda.

VIRK hefur átt í farsælu samstarfi við 9 starfsendurhæfingarstöðvar um allt land á undanförnum árum. Samstarfssamningar við starfsendurhæfingarstöðvar eru liður í því að tryggja að til staðar sé fagleg þekking og reynsla á sviði starfsendurhæfingar um allt land. Samstarf VIRK og starfsendurhæfingarstöðva byggist m.a. á reglulegum þverfaglegum rýnifundum þar sem farið er markvisst yfir mál einstaklinga sem eru í þjónustu starfsendurhæfingarstöðva á vegum VIRK. Almenn ánægja er með samstarfið og nýtist upplýsingakerfið vel við miðlun á framvindu í starfsendurhæfingunni.

Úrræðateymi VIRK

Hlutverk úrræðateymis VIRK er að hafa umsjón með þeirri þjónustu sem VIRK kaupir, sinna eftirliti með þjónustukaupum og tryggja upplýsingastreymi til þjónustuaðila, ráðgjafa og sérfræðinga VIRK. Í teyminu eru Ásta Sölvadóttir, Óskar Jón Helgason, Freyja Lárusdóttir og Anna Magnea Bergmann. Í kjölfar stefnumótunar VIRK á árinu 2019 verða þrjú stór verkefni í forgrunni á næstu tveimur árum sem snúa að úrræðum.

  1. Þrepaskipting þjónusta, þjónustuleiðir, úrræði og tímamörk.
  2. Skilgreining hópa í þjónustu, þjónustuframboð og árangur fyrir hópa.
  3. Samstarf við þjónustuaðila vegna úrræða aukið m.a. með meiri fræðslu og þjálfun. Þróað betra mat á árangri í úrræðum í samstarfi við þjónustuaðila.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2020.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband