Fara í efni

Ungt fólk í starfsendurhæfingu

Til baka

Ungt fólk í starfsendurhæfingu

Gunnhildur Kristjánsdóttir, Sigurlaug Lilja Jónasdóttir og Svandís Nína Jónsdóttir, sérfræðingar hjá VIRK

Í byrjun árs 2019 var sett af stað samstarfsverkefni um bætt lífskjör og lífsgæði ungs fólks með skerta starfsgetu á vegum félagsmálaráðuneytisins, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Tryggingarstofnunar ríkisins, velferðarðsviðs Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnunar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs.

Ákveðið var að markmið verkefnisins væri að hækka virknihlutfall (auka atvinnuþátttöku) ungs fólks á aldrinum 18 til 29 ára með aukinni samvinnu þjónustukerfa á höfuðborgarsvæðinu. Hjá VIRK gengur hópurinn undir nafninu UNG19.

VIRK skilgreinir hópinn UNG19 - ungmenni á aldrinum 18-29 ára, út frá eftirfarandi viðmiðum:

  1. Grunnskólapróf eða minna (ekki lokið stúdentsprófi eða sambærilegu).
  2. Lítil vinnusaga og/eða langur tími frá vinnumarkaði (a.m.k. 6 mánuðir).
  3. Íþyngjandi félagslegar aðstæður, t.d. erfið uppvaxtarsaga, lítill félagslegur stuðningur, óörugg búseta, fjárhagsvandi og þess háttar.

Til þess að komast í starfsendurhæfingu undir formerkjum UNG19 verkefnisins hjá VIRK þurfa allir ofangreindu þættirnir þrír að vera til staðar.

Upphaf verkefnisins hjá VIRK – þarfagreining

Hjá VIRK var verkefnið tekið föstum tökum, farið var af stað í að móta verklag og stefnu. Byrjað var á því að kortleggja þarfir ungs fólks með skerta starfsgetu og hvernig hægt væri að aðlaga starfsendurhæfingarferlið að þörfum þeirra. Fundað var með öllum sem koma að málunum innan VIRK; ráðgjöfum, stjórnendum, atvinnulífstenglum og öðrum sérfræðingum og stefnan mörkuð. Frá ársbyrjun 2019 hafa verið vikulegir fundir með framkvæmdastjóra VIRK og fulltrúum frá ýmsum teymum starfseminnar þar sem farið er yfir stöðu mála. Til að tryggja meira notendasamráð voru tekin rýnihópaviðtöl við 11 ungmenni í UNG19 markhópi VIRK og þeirra afstaða til þjónustunnar metin. Með rýnihópaviðtölum er hægt að fá annars konar innsýn í skoðanir fólks en fæst með einstaklingsviðtölum og spurningalistakönnunum, sem er einkar heppilegt í upphafi nýs verkefnis (sjá umfjöllun síðar í greininni).

IPS hugmyndafræðin

Meginhugmyndafræði UNG19 teymisins byggir á einstaklingsmiðuðum stuðningi til starfa eða „Individual Placement and Support” (IPS). IPS leggur megináherslu á að koma atvinnu- eða námstengingu af stað snemma í starfsendurhæfingunni. Vinnan er í raun úrræði í endurhæfingunni þar sem verið er að þjálfa færni í raunaðstæðum, úti á vinnumarkaðnum eða í námi. Þannig er ekki endilega verið að bíða eftir því að búið sé að endurhæfa einstaklinginn þar til hann er tilbúinn til að fara að vinna 1. Hér er áhugahvöt til vinnu og náms lykilþáttur. Lögð er áhersla á að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur og hvetja hann áfram með því að einblína á styrkleika. Samhliða þessari vinnu er unnið með hindranir til vinnu með stuðningi þverfaglegs teymis.

Það liggja fyrir fjölmargar rannsóknir sem sýna fram á að IPS er árangursrík aðferð 2. Þar má nefna nýlega rannsókn frá Noregi þar sem niðurstöðurnar sýna fram á að tæpur helmingur þeirra sem fóru í gegnum IPS var í vinnu ári síðar en 8% í viðmiðunarhópi 3.

Nýtt verklag

Niðurstaðan úr þarfagreiningunni varð til þess að sérstakt UNG19 teymi var sett á laggirnar hjá VIRK. Í teyminu eru sex VIRK-ráðgjafar (sem vinna hjá stéttarfélögum á höfuðborgarsvæðinu), þrír sérfræðingar og tveir IPS atvinnulífstenglar. Til viðbótar við UNG19 teymið var sett af stað sérstök, þverfagleg UNG19 rýni til stuðnings ráðgjöfunum. Í rýninni hefur ráðgjafinn aðgang að fagaðilum og teymið finnur út í sameiningu hvaða leiðir í starfsendurhæfingunni eru farsælastar fyrir hvern og einn. Einnig var gert leiðarkerfi í starfsendurhæfingu þar sem hópnum var skipt upp í flokka eftir aðstæðum hvers og eins. Með þessum hætti voru sett upp viðmið fyrir starfsendurhæfingarferlið.

Verklag í UNG19 málunum felst m.a. í:

  • Nýju verklagi við inntöku til VIRK sem beinir þeim sem falla innan viðmiða UNG19 þangað.
  • Ráðgjafinn hittir einstaklinga oft sérstaklega í byrjun starfsendurhæfingarinnar.
  • Teymisfundir er haldinn tveggja vikna fresti þar sem teymið þróar verklag og samhæfir sig.
  • Mikil áhersla er á samstarf við önnur kerfi, s.s. félagsþjónustuna, VMST, TR og heilsugæsluna.
  • Sérhæfðum úrræðum er beitt, bæði hvað varðar hópnámskeið/meðferð og einstaklingsviðtöl þar sem þörfum hópsins er mætt.
  • Áhersla á áhugahvöt og styrkleikanálgun.

Markmið skýr

Skýr markmið voru sett í samráði við alla sem að verkefninu komu. Lagt var upp með að hafa starfsendurhæfinguna snarpa og markvissa, lágmarka biðtíma og koma úrræðum og náms- eða vinnutengingu fljótt af stað. Rannsóknir hafa sýnt fram á að því lengur sem einstaklingur er frá vinnu, því erfiðara er fyrir hann að snúa aftur til vinnu. Snemmtækt inngrip er því afar mikilvægt í starfsendurhæfingu 4. Rannsóknir hafa enn fremur sýnt að vinna hefur jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu en atvinnuleysi og langtíma veikindafjarvera frá vinnu hafa oft neikvæð áhrif 5.

Langtímamarkmið:

  • Að draga úr brottfalli ungmenna úr þjónustu VIRK
  • Að jafnaði ljúki einstaklingar í UNG19 verkefninu þjónustu á innan við 12 mánuðum
  • Af UNG19 einstaklingum sem ljúka þjónustu hjá VIRK útskrifist a.m.k. 60% með vinnugetu 6

Skammtímamarkmið:

  • Fimm einstaklingar á mánuði hefji nám eða vinnu (sama skilgreining og á vinnugetu)

Niðurstöður rýnihópaviðtala

Rýnihópar eru viðurkennd eigindleg aðferðafræði sem byggist á umræðum 5-8 einstaklinga í hópi um ákveðin málefni. Þannig var ætlunin að mæta þörfum hópsins enn betur og fá dýrmæta endurgjöf á starfsemi VIRK. Rýnihópaviðtölin voru tvö með samtals 11 þátttakendum, sex í öðrum hópnum og fimm í hinum. Viðtölin fóru fram í október 2019 og stóðu yfir í um eina og hálfa klukkustund hvort.

Niðurstöður rýnihópaviðtalanna má greina í eftirfarandi þemu eða áherslur:

  • Þörf er á meiri samfellu milli þjónustukerfa.
  • Bið og óvissa í þjónustuferlinu er erfið. Þátttakendurnir vilja að starfsendurhæfingin fari fljótt af stað og vilja ekki ,,þurfa að sitja og bíða”.
  • Í starfsendurhæfingarferlinu er þörf á þéttu utanumhaldi og mikilli virkni.
  • Neikvætt viðhorf til skólakerfisins.
  • Jákvætt viðhorf til vinnumarkaðar.
  • Afkomukvíði.

Greinarhöfundar voru með tilgátu um að ungu fólki standi stuggur af vinnumarkaði og eygi ekki framtíðarmöguleika þar. En tilgátan reyndist röng, þau voru jákvæð gagnvart vinnumarkaði. Fram kom að það er afar mikilvægt að skapa öryggi hvað varðar grunnþarfir, þá sérstaklega hvað varðar húsnæðismál og framfærslu. Það kom einnig skýrt fram að unga fólkið vill fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þetta er í takt við niðurstöður úr NABO, skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar, en þar kom fram að ungu fólki finnst að samfélagið þurfi að stuðla að því að þeirra aldurshópur hafi meiri áhrif 7.

Það kom einnig skýrt fram í viðtölunum að þörf er á meiri og markvissari stuðningi við menntun þar sem fæstir úr hópnum eiga rétt á námslánum. Þau töluðu um að það geti verið erfitt og jafnvel ómögulegt að framfleyta sér í námi, sérstaklega með börn á framfæri. Niðurstöður rýnihópaviðtalanna gefa til kynna að það sé mikil þörf fyrir stuðning hjá þessum einstaklingum við að fóta sig á vinnumarkaði og í námi.

Afrakstur UNG19 verkefnisins hjá VIRK

Í þessari grein eru fyrstu skrefin stigin í átt að árangursmati UNG19 verkefnisins hjá VIRK. Brýnt er að hafa í huga að skammt er liðið frá upphafi verkefnisins og útskriftarhópurinn því fámennur. Niðurstöðum ber því að taka með fyrirvara um stærð hópsins og framvindu verkefnisins hjá VIRK.

Um miðjan febrúar á þessu ári höfðu 49 einstaklingar útskrifast úr þjónustu VIRK undir formerkjum UNG19 verkefnisins. Til að gefa sem gleggsta mynd af afrakstri verkefnisins er árangur útskriftarhópsins skoðaður í samhengi við aðra einstaklinga á sama aldri (yngri en 30 ára) með litla menntun að baki og/eða búa við félagslega erfiðar aðstæður. Búnir voru til tveir sambærilegir samanburðarhópar (jafningjahópar) sem fóru ekki í gegnum UNG19 inngripið. Annar hópurinn útskrifaðist á sama tímabili og UNG19 útskriftarhópurinn (2019/2020) en hinn árið 2018 (áður en verkefnið hófst).

Í UNG19 útskriftarhópnum 2019/2020 eru 49 ungmenni (meðalaldur 22 ár).

Í samanburðarhópnum 2019/2020 eru 72 ungmenni (meðalaldur 23 ár).

Í samanburðarhópnum 2018 voru 114 ungmenni (meðalaldur 23 ár).

Skipting eftir kyni

Að jafnaði koma fleiri konur í þjónustu VIRK en karlar en í dag eru rétt tæplega 33% einstaklinga í þjónustu karlar en 67% konur. Þó svipað megi segja um UNG19 útskriftarhópinn, þ.e. í honum eru færri karlar en konur, er hlutfall karla þó ívið hærra þar en í öðrum útskriftarhópum VIRK. Eins og sjá má á mynd 1 er hlutfall karla í UNG19 útskriftarhópnum 39% borið saman við 29-36% karla í samanburðarhópunum.

Tímalengd í þjónustu

Líkt og áður segir er eitt af markmiðum UNG19 verkefnisins að koma vinnu- eða námstengingu fljótt af stað hjá þeim sem hafa áhuga og telja sig tilbúna. Þannig er hægt að hafa starfsendurhæfinguna bæði einstaklingsmiðaða (þ.e. að hún mæti þörfum hvers og eins) og valdeflandi á sama tíma. Fyrstu niðurstöður sýna að þetta verklag lofar góðu. Að jafnaði ljúka ungmenni í UNG19 verkefninu þjónustu á skemmri tíma en jafnaldrar þeirra í samanburðarhópunum (sjá mynd 2). Meðalfjöldi mánaða í þjónustu hjá UNG19 útskriftarhópnum eru 13 mánuðir (miðgildistalan er 11 mánuðir) borið saman við um 21-23 mánuði í samanburðarhópunum. Breytileikinn er þó enn talsverður, sem við er að búast þegar nálgunin er einstaklingsmiðuð eftir þörfum hvers og eins. Sumir ljúka þjónustu á örfáum mánuðum á meðan aðrir eru lengur.

Hækkun virknihlutfalls með tilliti til stöðu á vinnumarkaði og framfærslu

Útskriftarstaða einstaklings segir til um vinnugetu hans (eða virkni) við lok þjónustu hjá VIRK. Þeir einstaklingar sem ná virkni útskrifast í vinnu, nám eða virka atvinnuleit við lok þjónustu, án tillits til starfshlutfalls8. Á mynd 3 má sjá að 84% UNG19 útskriftarhópsins (alls 41 einstaklingur) útskrifast í vinnu, nám eða virka atvinnuleit við lok þjónustu borið saman við 72% einstaklinga í samanburðarhópnum 2019/20 og 68% í 2018 hópnum.

Af þessum 41 UNG19 einstaklingum sem útskrifuðust í virkni fóru flestir í launað starf á vinnumarkaði (57%) en fæstir í virka atvinnuleit (16%). Um 27% þeirra fóru í nám (sjá mynd 4).

Árangur UNG19 útskriftarhópsins út frá framfærslustöðu Næstu myndir sýna framfærslustöðu UNG19 útskriftarhópsins við upphaf og lok þjónustu hjá VIRK í samanburði við jafningjahópana tvo. Hjá VIRK er atvinnu- og framfærslustaða einstaklings metin út frá hlutfalli tekna sem hann aflar sér á grundvelli launa, námslána, atvinnuleysisbóta eða annarra réttinda (t.d. úr lífeyris- eða samtryggingarsjóðum). Hver einstaklingur getur verið með fleiri en eina tegund framfærslu og til hagræðingar er framfærslunni varpað yfir á stöðugildi (100%). Ef einstaklingur fer til að mynda í hálft starf þegar þjónustu lýkur þá er það skráð sem hálft stöðugildi og önnur framfærsla skráð á móti. Til að meta árangur er framfærslustaða við útskrift borin saman við framfærslustöðu í upphafi þjónustu. Brýnt er að hafa í huga að skráning framfærslu tekur ætíð mið af raunstöðu hverju sinni og því er eftirfylgd á atvinnu- og framfærslustöðu mikilvæg í einhvern tíma að lokinni þjónustu.

Á mynd 5 má sjá verulegan mun á framfærslustöðu UNG19 útskriftarhópsins við upphaf og lok þjónustu hjá VIRK. Við lok þjónustu eru samtals 58% stöðugilda tilkomin vegna launaðs starfs, atvinnuleitar eða náms borið saman við 19% stöðugilda í upphafi þjónustu. Mestu munar um framfærslu vegna launa á vinnumarkaði. Við upphaf þjónustu voru 11% stöðugildanna launað starf á vinnumarkaði en 52% við lok þjónustu.

Samanburður á framfærslu hópanna

Þegar framfærslustaða UNG19 útskriftarhópsins við lok þjónustu er borin saman við jafningjahópana tvo sjáum við að hlutfallslega fleiri einstaklingar í UNG19 hópnum útskrifast í virkni (þ.e. með vinnugetu). Við útskrift eru á bilinu 37-47% stöðugilda samanburðarhópanna beggja tilkomin vegna launa, náms eða atvinnuleitar borið saman við áðurnefnd 58% stöðugilda útskriftarhópsins. Mestu munar um vægi launa á vinnumarkaði annars vegar og endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri hins vegar. Fleiri stöðugildi UNG19 útskriftarhópsins eru vegna launa á vinnumarkaði og að sama skapi færri vegna endurhæfingar- eða örorkulífeyris.

Samantekt

UNG19 verkefnið var sett á fót hjá VIRK með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku hjá ungu fólki. Samkvæmt rannsóknum skilar það bestum árangri að starfsendurhæfingin sé snörp og markviss og ekki sé löng bið eftir þjónustu. Nýtt verklag var tekið upp og sérstöku UNG19 teymi komið á laggirnar hjá VIRK þar sem ráðgjafar, sérfræðingar og atvinnulífstenglar sérhæfa sig í málefnum hópsins og úrræðum ætluðum honum. Markmið voru sett um að ná að stytta starfsendurhæfingarferlið og að fleiri einstaklingar kæmust í vinnu eða nám. Nýjustu niðurstöður sýna að þeir einstaklingar sem tóku þátt í UNG19 inngripinu voru bæði skemur í starfsendurhæfingu og líklegri til að útskrifast í vinnu, nám eða virka atvinnuleit en aðrir jafnaldrar þeirra. Þó þessar niðurstöður lofi vissulega góðu þarf að taka þeim með fyrirvara um stærð UNG19 útskriftarhópsins og hversu skammur tími hefur liðið frá upphafi verkefnisins.

Heimildir

  1. Burns, T. (2017). IPS-LITE. Árangursrík leið inn á vinnumarkaðinn fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. VIRK - ársrit um starfsendurhæfingu 2017: 48-51
  2. Sjá hlekk á heimasíðu IPS hugmyndafræðinnar: https://ipsworks.org/index. php/research/
  3. Vigdís Sveinsdóttir (2019). Supported Employment and preventing Early Disability (SEED). Birt doktorsritgerð. Háskólinn í Bergen, sótt 28. febrúar 2020.http://bibliotheca.uib.no/ bitstream/handle/1956/20870/ Vigdis%20Sveinsdottir_Elektronisk. pdf?sequence=1&isAllowed=y
  4. Waddell, G., Burton, A., og Kendall, N. (2008). Vocational rehabilitation – what works, for whom, and when? (Skýrsla á vegum stýrihóps í Bretlandi um starfsendurhæfingu: The Vocational Rehabilitation Task Group), sjá rafrænt eintak á slóðinni: www.tso. co.uk.
  5. Marmot, M. og Bell, R. (2012). Fair society, healthy lives. Public Health, 126: s4-s10.
  6. Hjá VIRK er vinnugeta skilgreind svona: virkni sem eflir getu á vinnumarkaði, s.s. nám, launað starf á vinnumarkaði (óháð starfshlutfalli) eða námstengd úrræði annars staðar í kerfinu.
  7. Gunnarsdóttir, E.D., Harðardóttir, K.E.,og Guðmundsson, G. (2019). NABO – Social Inclusion of Youth in Iceland. Norræna ráðherranefndin (e. Nordic Council of Ministers), 532.
  8. Þessi mælikvarði á vinnugetu (þ.e. fjöldi einstaklinga sem útskrifast í vinnu, nám eða atvinnuleit) er afar hentugur í samanburði yfir tíma. Hann er ekki næmur fyrir samdrætti eða þenslu í efnahagslífinu. Ef störfum fjölgar eða fækkar í hagkerfinu vegna samdráttar eða þenslu þá kemur það ekki að sök því einstaklingar sem útskrifast með vinnugetu en fá ekki starf eru skráðir í atvinnuleit og teljast með.

Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband