Fara í efni

Styrkir VIRK afhentir

Til baka

Styrkir VIRK afhentir

VIRK afhenti nýverið styrki sem voru til umsóknar haustið 2018. Veittir voru styrkir til virkniúrræða, rannsóknarverkefna og uppbyggingar- og þróunarverkefna.

Athygli er vakin á því að framvegis mun VIRK veita styrki einu sinni á ári og þurfa umsóknir um að hafa borist sjóðnum 15. febrúar ár hvert.

9 aðilar hlutu styrki að þessu sinni:

Rannsóknarverkefni

Gerður Gestsdóttir: Starfsendurhæfing innflytjenda: Ögranir, árangur og aðgengi
Markmið rannsóknarinnar eru að kanna hvernig einstaklingum sem tala litla eða enga íslensku reiðir af í starfsendurhæfingu, hvernig aðgengi þeirra er að henni, hvernig þeim gagnast hún og hvort það hái þeim í endurhæfingunni að tala litla eða enga íslensku. Jafnframt á að skoða hvernig fagfólk, sem kemur að starfsendurhæfingunni, upplifir árangur vinnu sinnar. Um er að ræða bæði megindlega og eigindlega rannsókn.

Þróunarverkefni

Ragna B. Garðarsdóttir og Elfa Þöll Grétarsdóttir: Öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi – Ráðgjöf til vinnuveitenda um forvarnir gegn kulnun starfsmanna.
Styrkurinn er veittur til þróunar á kennsluefni fyrir stjórnendur um kulnun í starfi og fyrirbyggjandi aðgerðir. Markmiðið er að hafa áhrif á stjórnunarstíl og umbunarkerfi vinnustaða þannig að starfsumhverfið verður öruggara og heilsusamlegra og getur þannig dregið úr nýgengi kulnunar í starfi. Styrkþegar munu útbúa fræðsluefni fyrir heimasíðu VIRK í tengslum við forvarnir á vinnustöðum.

Virkniúrræði

Specialisterne, Reykjavík
Specialisterne á Íslandi hafa unnið í fimm ár með einstaklingum á einhverfurófinu, einstaklingum sem sem hefur ekki gefist sömu möguleikar og flestir aðrir til að nýta styrkleika sína. Hjá Specialisterne eru einstaklingarnir metnir og þjálfaðir, þeim hjálpað að komast í „réttan takt“ við hið daglega líf. Markmiðið er að finna launað starf sem passar hverjum og einum eins fljótt og kostur er. Með því að hjálpa einstaklingunum út í atvinnulífið fá þeir tækifæri til að leggja sitt af mörkum og finna lífi sínu meiri tilgang. Specialisterne treysta að mestu eða öllu leiti á styrki eða frjáls framlög til að halda starfseminni gangandi.

Grófin geðverndarmiðstöð, Akureyri
Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta og er markmið Grófarinnar m.a. að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata, þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér. Grófin er opið og gjaldfrjálst aðgengi alla virka daga, fólk er velkomið, hvort heldur sem er í óformlegt spjall, hópastarfið, námskeið og mannfagnaði. Einnig hefur Grófin farið markvisst með fræðslu um geðraskanir og gagnleg úrræði í grunnskóla á svæðinu og einnig í önnur sveitarfélög.

Geðræktarmiðstöðin Vesturafl, Ísafirði
Vesturafl er geðræktarmiðstöð þar sem boðið er upp á virkni og samveru. Hlutverk hennar er fyrst og fremst að rjúfa félagslega einangrun og hvetja notendur til þátttöku í samfélaginu. Aukin áhersla hefur verið lögð á ungt fólk (16-30 ára) og þeim boðið upp á þjónustu sem hefur ekki verið til staðar áður þ.m.t. heimanámsaðstoð, verkefni í vinnustofu og að aðstoða við matseld. Vesturafl hefur verið í nánu samstarfi við Starfsendurhæfingu Vestfjarða (SEV) og séð um vinnustofu fyrir stöðina. Vesturafl býður upp opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga.

Styrktarfélag klúbbsins Stróks, Selfossi 
Klúbburinn Strókur hefur það að markmiði að styðja við bataferli notenda heilbrigðiskerfisins og að fólk með geðræn vandamál fái úrræði við sitt hæfi. Einnig er markmið Stróks að auka tengsl fólks sem glímir við geðraskanir og/eða félagslega einangrun, efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, fyrirbyggja innlagnir, efla samskipti fólks með geðræn vandamál og brjóta niður fordóma. Klúbburinn Strókur hefur verið starfræktur frá árinu 2005 og er þjónustusvæði hans Árnessýsla, Rangárþing og V-Skafafellssýsla. Klúbburinn er öllum opinn og engar kvaðir eru lagðar á félaga hans. Opið er 4 daga vikunnar og er öll þjónustan notandanum að kostnaðarlausu.

Rauði krossinn - Vin, Reykjavík
Virkniúrræðið Vin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir, rekið af Rauða krossinum í Reykjavík sem fræðslu- og batasetur ásamt velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr endurinnlögnum á geðdeildir og efla þekkingu á málefnum fólks með geðfötlun. Öflugt samstarf er við önnur geðúrræði, geðdeildir og þátttaka í Geðhjálp er lykilatriði í því að kynna starfsemina og efla samstarf. Vin er starfrækt alla virka daga frá 9–16 og er aðgangur að athvarfinu með öllu gjaldfrjáls sem og öll þau námskeið, fundir eða önnur virkni og bataúrræði sem eru á dagskrá

Styrktarfélag Klúbbsins Geysi, Reykjavík
Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Allir sem eiga eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða geta orðið félagar í Klúbbnum Geysi. Klúbburinn Geysir er gjaldfrjálst meðferðarúrræði og eru engin gjöld innheimt af félögum í klúbbnum vegna rekstrar hans né annarra þátta sem snúa að endurhæfingunni. Öll vinna félaga í klúbbnum er unnin í sjálfboðavinnu.

Bataskóli Íslands, Reykjavík
Bataskólinn er ætlaður fólki, 18 ára og eldra, sem glímt hefur við geðrænar áskoranir í lífi sínu og er markmið skólans að veita fræðslu um geðraskanir, gefa góð ráð varðandi geðheilsu, bæta lífsgæði nemenda og auka virkni. Námið stendur yfir í um 7 mánuði og á þeim tíma gefst nemendum kostur á að velja úr um 15 námskeiðum sem kennd eru þrisvar í viku í tvo tíma í senn. Mikið er lagt upp úr valdeflingu nemenda og að auka virkni þeirra í daglegu lífi og að gera þeim kleift að sækja út á vinnumarkað eða í frekara nám eftir nám í Bataskólanum. Skólinn er öllum opinn og nemendum að kostnaðarlausu.

Nánari upplýsingar um styrki VIRK má finna hér.


Fréttir

10.06.2022
23.05.2022

Hafa samband