Fara í efni

Aldrei hafa fleiri leitað til VIRK

Til baka

Aldrei hafa fleiri leitað til VIRK

Finnbjörn A. Hermannsson, formaður stjórnar VIRK 2019-2020

 

Þau áhrif sem kórónaveiran hefur þegar haft á íslenskt samfélag minna okkur enn og aftur á mikilvægi góðrar heilsu. Þó að faraldurinn hafi, þegar þetta er skrifað, ekki náð mikilli útbreiðslu á Íslandi má öllum ljóst vera að almenn óskert starfsgeta er ein af lykilstoðum þess samfélags sem við byggjum.

Á nýliðnu ári leituðu 2.092 einstaklingar í fyrsta sinn til VIRK. Að sama skapi var metfjöldi fólks útskrifaður, eða 1.428 manns. Þetta eru einstaklingar sem hafa ákveðið, með hjálp fagfólks VIRK, að setja heilsuna í fyrsta sæti. Samtals hafa 17.500 einstaklingar hafið starfsendurhæfingu á vegum VIRK frá því sjóðurinn var stofnaður. Það er á við íbúafjölda Garðabæjar. Yfir 80 prósent þeirra sem til VIRK hafa leitað hafa ekki haft starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma eða stoðkerfisvandamála.

Fjárhagslegur ávinningur samfélagsins af starfsemi VIRK árið 2019 var af ráðgjafarfyrirtækinu Talnakönnun metinn 20,5 milljarðar króna, að gefnum forsendum um afdrif einstaklinga ef þjónustu VIRK hefði ekki notið við. Rekstrarkostnaður þess árs var 3,4 milljarður króna. Þessar tölur gefa skýrt til kynna að eftir miklu getur verið að slægjast ef vel tekst til með endurhæfingu, en til að setja upphæðina í samhengi má þess geta að sama ár úthlutaði sitjandi ríkisstjórn 21 milljarði til heilbrigðismála.

Þó að fjárhagslegur ávinningur af starfsemi VIRK sé ótvíræður skiptir sá persónulegi ávinningur sem þeir sem þjónustunnar njóta mestu máli. Allar tölur benda í sömu átt. Þeim sem lokið hafa starfsendurhæfingu hjá VIRK líður betur en áður en þeir leituðu til sjóðsins; þeir hafa sterkari sjálfsmynd og mun meiri starfsgetu auk þess sem þeir meta bæði líkamlega og andlega heilsu sína betri. Þjónustukannanir VIRK sýna að þátttakendur eru undantekningarlítið mjög ánægðir með þjónustuna og telja hana auka verulega lífsgæði sín og vinnugetu. Þetta eru hin raunverulegu verðmæti sem starfsemi VIRK leiðir af sér og hvatning til alls þess fólks og þeirra félaga sem að sjóðnum standa.

Hver einstaklingur dýrmætur

Þrátt fyrir að það sé áhyggjuefni hversu ört þeim fjölgar sem þurfa á endurhæfingu að halda er mikilvægt að vinna áfram að öflugu kynningarstarfi VIRK. Tölurnar sem hér að ofan eru raktar, um ávinning af starfsemi VIRK, ættu hratt og örugglega að kveða í kútinn þá skoðun sem stundum heyrist um markaðssetningu sjúkdóma. Fjárhagslegur ávinningur af bættri heilsu fólks, að lífsgæðunum ónefndum, talar sínu máli og undirstrikar mikilvægi þess að VIRK haldi áfram á sömu braut; að rétta fólki hjálparhönd. Markmiðið hlýtur að vera að ná til allra þeirra sem nýtt geta sér þá þjónustu sem í boði er til að bæta starfsgetu sína og auka lífsgæði. Hver einasti einstaklingur sem VIRK hjálpar til betra lífs er samfélaginu dýrmætur. En markmið okkar á að sjálfsögðu að vera að það sé ekkert að gera hjá VIRK.

Óhætt er að segja að ákveðin vitundarvakning hafi orðið undanfarin misseri um streitu og kulnun í starfi. Kulnun, sem er sálfræðileg lýsing á afleiðingum langvinnrar streitu, er áberandi innan margra starfsstétta. Síðast í febrúar var greint frá því að 40 prósent félagsráðgjafa sýna einkenni kulnunar, svo nýlegt dæmi sé tekið. Fregnir herma að áhrifa þessa sé þegar farið að gæta í ríkum mæli í sjúkrasjóðum stéttarfélaganna. Það er þungbært að horfa upp á vinnandi fólk á besta aldri missa starfsgetu vegna viðvarandi streitu og álags og nauðsynlegt að ráðast að rót vandans.

Mikilvægt skref til að draga úr álagi vinnandi fólks er stytting vinnuvikunnar. Mörg stéttarfélög sömdu um slíkt í síðustu samningum. Önnur félög, sem eru nú í samningaviðræðum eru með styttingu vinnuvikunnar sem höfuðbaráttumál sitt. Sem dæmi má nefna að 1. apríl styttist vinnuvika iðnaðarmanna í 37 dagvinnustundir og með viðbótarsamningum á vinnustað er hægt að stytta hana niður í 36 virkar vinnustundir.

Styttri vinnuvika dregur úr álagi

Rannsókn á tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttri vinnuviku, sem hófst árið 2015, sýndi að styttri vinnutími auðveldaði starfsfólki að samræma vinnu og einkalíf og minnkaði álag á heimilinu. Bæði megindleg rannsókn og þrjár kannanir sem gerðar voru á sex mánaða tímabili í tengslum við tilraunaverkefnið sýndu að marktækur munur mældist á vinnuálagi, starfsanda og jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Þátttakendum bar saman um að starfsánægja hefði vaxið, starfsandi hefði orðið betri, minna hefði verið um útréttingar á vinnutíma auk þess sem þeir sem áttu börn á leikskóla upplifðu meira svigrúm. Margir orðuðu það svo að þeim gengi betur að „púsla saman deginum“. Starfsfólkið upplifði bætta líkamlega og andlega heilsu. Mælingar benda einnig til þess að styttri vinnuvika komi ekki niður á afköstum starfsfólks og að ávinningurinn af því að vinna skemur sé bætt líðan og betri samskipti bæði í vinnu og heima fyrir.

Ef tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar, og síðar ríkisins, um styttri vinnuviku gefur fyrirheit um heilsuávinning þeirra stétta sem undirritað hafa kjarasamning með styttri vinnuviku er ljóst að styttingin gengur hönd í hönd við markmið VIRK, sem er að efla starfsgetu einstaklinga og koma í veg fyrir heilsubrest og stefna þannig að aukinni þátttöku fólks á vinnumarkaði. Ef til vill hefur því fyrsta skrefið í því að vinda ofan af streitu vinnandi fólks verið tekið.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2020.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband