Fara í efni

Mér þykir mjög vænt um VIRK

Til baka

Mér þykir mjög vænt um VIRK

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður á tíu ára afmæli ár. Margt og mikið hefur breyst í íslensku samfélagi síðan Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins auglýstu eftir framkvæmdastjóra og Vigdís Jónsdóttir tók til starfa sem slíkur - miklu mun meira hefaur þó breyst í starfi VIRK þennan áratug.

Ég horfi á þessa konu, hana Vigdísi Jónsdóttur framkvæmdastjóra VIRK, hita kaffi fyrir mig í eldhúsinu sínu í Hafnarfirði og fæ ekki varist þeirri hugsun að ætti ég að nefna eitthvað sem einkenni hennar persónu væri það orðið; birta. Hennar bjarta ára kann að eiga sinn þátt í hinum mikla vexti og árangri sem starfsemi VIRK einkennist af.

„Ég lærði hagfræði af því að ég vildi vera sjálfstæð og geta séð fyrir mér," svarar Vigdís þegar ég spyr hana, í framhaldi af ofannefndri hugsun, hvers vegna hún hafi valið hagfræðinám að loknu stúdentsprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði.

„Síðasta prófinu í menntaskóla, tvöföldu frönskuprófi, lauk ég sautjánda desember 1984. Svo fór ég upp á fæðingardeild og ól son þann nítjánda desember. Tuttugasta og fyrsta desember fékk ég að fara út og setja upp stúdentshúfuna með skólasystkinum mínum - síðan aftur upp á deild í þrjá daga. Þá lágu sængurkonur á fæðingardeild í fimm daga," segir Vigdís og hellir kaffi í bolla fyrir mig.

„Satt að segja var ég óviss hvað ég ætti að læra eftir stúdentsprófið," bætir hún við. „Ég hafði haft áhuga á læknisfræði, var góð í líffræði og stærðfræði. Síðustu önnina í Flensborg tók ég hagfræðiáfanga og fannst sú grein líka áhugaverð. Reyndar hef ég alltaf haft áhuga á því sem ég hef verið að gera hverju sinni. Ég setti á sínum tíma fyrir mig inntökuprófið hvað læknisfræðina varðar. Óttaðist að ná ekki inn og sitja þá uppi með ógreitt námslán. Eftir á séð hefði ég kannski átt að láta á þetta reyna. Hins vegar þýðir ekki að hugsa um slíkt núna, maður lifir lífinu áfram - ekki aftur á bak," segir Vigdís um leið og hún ber fram girnilega rúllutertu og ristað brauð.

„Kannski hefur þó áhugi minn á læknisfræðinni valdið því að ég sótti inn í heilbrigðisgeirann - næstum eins og ósjálfrátt. Fyrsta starfið mitt eftir háskólanám var hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, ég gerðist hagfræðingur þess félags, vann þar í sjö ár og gekk vel. Mér fannst sérlega áhugavert að sjá hve hjúkrunarfræðingum þótti vænt um starfið sitt.

Síðan ákvað ég að söðla um og fara til Danmerkur til að læra mannauðsstjórnun. Mér hefur alltaf líkað vel að vinna í nánum tengslum við fólk. Þegar ég kom heim eftir það nám árið 2001 lágu störf ekki endilega á lausu. Mér bauðst samt starf hjá SKÝRR við innleiðingu á mannauðskerfum hjá ríki og Reykjavíkurborg. Þar starfaði ég í sex ár og var boðin stjórnunarstaða eftir þrjá mánuði."

„Ég get ekki neitað því að mér fannst það gaman. Ég er metnaðarfull og finnst gaman að stjórna," segir Vigdís brosandi og sest andspænis mér við eldhúsborðið.

Stjórnandi þarf að skapa sér virðingu

„Hjá SKÝRR var ég með mjög góðan hóp af vel menntuðu fólki sem var á réttri hillu í starfi. Það er lærdómsríkt að fylgjast með fólki, sjá það þróast í starfi og gera sér grein fyrir hvernig hægt er að laða það besta fram hjá hverjum og einum. Stjórnandi þarf að skapa sér virðingu meðal starfsfólks en má þó ekki setja sig á háan hest. Maður þarf að vera maður sjálfur og manneskja - en samt að vera aðeins ofan við. Þetta er nauðsynlegt því stundum þarf að taka á erfiðum málum og vera fær um það.

Stjórnunarstörf eru oft erfið og sumt fólk ræður maður hreinlega ekki við. Þannig er það bara. Ég hef vissulega átt ágætan stjórnunarferil - en hann hefur ekki bara verið beinn og breiður - ég hef í störfum mínum þurft að takast á við ýmsan vanda. Erfiðustu ákvarðanir sem ég hef tekið sem stjórnandi varða uppsagnir starfsfólks. Í þeirri stöðu er engin leið auðveld en hreinskiptni mikilvæg. Við slíkar aðstæður er þýðingarmikið að viðkomandi starfsmaður fái að halda eins mikilli reisn og auðið er."

VIRK að mestu séríslensk hugmynd

Hvernig varð VIRK til?
„Samið var um stofnun VIRK í almennum kjarasamningum í febrúar 2008. Þá sömdu Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands um að stofna svokallaðan endurhæfingarsjóð. Nokkrum mánuðum síðar komu síðan opinberir atvinnurekendur og stéttarfélög að verkefninu. Þetta var þríhliða samkomulag sem ríkið átti að koma að líka. Aðilum vinnumarkaðarins fannst ekki nóg að gert í tilvikum þar sem starfsmenn áttu við langvinn veikindi að stríða.

Segja má að VIRK sé að mestu séríslensk hugmynd - það er að stéttarfélög og atvinnurekendur taki höndum saman á þennan hátt. Fyrirkomulag varðandi veikindi starfsfólks á Íslandi er að mörgu leyti ólíkt því sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Hér á landi bera aðilar vinnumarkaðarins svo mikla ábyrgð. Fólk fær greidd laun í langan tíma frá atvinnurekanda en á hinum Norðurlöndunum tekur hið opinbera við launagreiðslum eftir tvær til þrjár vikur. Þarna er stór munur.

Í Bandaríkjunum og Þýskalandi er til dæmis starfsendurhæfing tengd framfærslu fólks. Atvinnurekendur tryggja sig þá gagnvart veikindum starfsfólks. Tryggingafélögin sjá svo um starfsendurhæfinguna því þau bera ábyrgð á greiðslum.

Það er eðlilegt hér á landi að aðilar vinnumarkaðarins sjái um starfsendurhæfingu því þeir bera svo mikla ábyrgð á greiðslum til starfsmanna í veikindum. Hér er langur veikindaréttur og einnig koma þarna inn í sjúkrasjóðir stéttarfélaganna. Þeir síðarnefndu greiða kannski áttatíu prósent af launum í sex mánuði eftir að veikindarétti lýkur. Loks eru það lífeyrissjóðirnir sem greiða háar upphæðir í örorkulífeyrisgreiðslur. Starfsemi VIRK er því ekki að erlendri fyrirmynd en eðlileg miðað við íslenskar aðstæður.

Stofnun VIRK finnst mér bera vott um mikla framsýni hjá aðilum vinnumarkaðarins. Þeir Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson áttu þarna stóran hlut að máli, brunnu fyrir því og lögðu mikið á sig til að koma stofnun VIRK á fót."

Fyrstu starfsdrögin skrifuð á ælupoka frá Croatia Airlines

Hvernig hófst starfsemi VIRK?
„Ég hóf störf hjá VIRK 15. ágúst 2008. Starf framkvæmdastjóra þessa nýstofnaða endurhæfingarsjóðs hafði verið auglýst en ég var þá í ágætu starfi hjá Glitni - stýrði þar þjónustuborðI í upplýsingatækni og leið vel.

Áður hafði ég um tíma verið í starfi sem mér líkaði ekki að öllu leyti. Ég hafði haft vit á að segja strax upp og fékk mjög fljótt starfið hjá Glitni. Ég var svo skamma stund atvinnulaus að ekki er hægt á neinn hátt að leggja það að jöfnu við erfiðleika sem margt fólk mátti reyna í kjölfar hrunsins eða af öðrum orsökum. Fann þó aðeins á eigin skinni hve gríðarlegt óöryggi fylgir að hafa ekki starf og hef því skilning á slíkum aðstæðum. 

Ég hafði satt að segja, þegar auglýsingin umrædda var birt, ekki hugmynd um að Glitnir stæði illa. Ég man að ég skoðaði auglýsingu eftir framkvæmdastjóra fyrir VIRK og hugsaði með mér að nánast allt það sem þar var óskað eftir ætti vel við mig. Leitað var að manneskju sem hefði reynslu af stjórnun, vinnu með heilbrigðisstéttum, sem hefði innsýn inn í störf stéttarfélaga og fleira mætti telja. Ég gerði samt ekkert í málinu fyrr en umsóknarfrestur var nánast runninn út. Þá datt mér allt í einu í hug að senda inn ferilskrá og lét fylgja að hún mætti vera með ef henta þætti.

Svo var ég kölluð í viðtal. Það var að vissu leyti skondin upplifun. Ég reyndi ekki að „selja mig" á nokkurn hátt - sagðist meira að segja ekki vera viss um að ég hefði áhuga á þessu starfi. Þessu var ótrúlega vel tekið og ég vandlega upplýst um hvað starfið fæli í sér. Ég hlustaði og sagði fátt. Í lok viðtalsins sagði ég þó: „Mér leiðist að fara með lofræður um sjálfa mig - ég hef hins vegar alltaf náð árangri í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Þið getið hringt í meðmælendur og fengið það staðfest."

Þegar ég kom út varð ég ergileg út í sjálfa mig, fannst að ég hefði getað sagt meira um áhuga minn á starfinu. Svo ég sendi póst, þakkaði fyrir viðtalið og sagði að mér þætti þetta starf mjög áhugavert. Nokkur tími leið. Talað var við fleiri af þeim fimmtíu sem sóttu um starfið og ég var send í persónuleikapróf. Það er gjarnan gert þegar ráðið er í svona störf. Síðan var haft samband við mig og mér boðið starfið.

Áður en ég byrjaði hjá VIRK en eftir að ég var búin að ráða mig fór ég í frí með manninum mínum til Svartfjallalands. Í flugvélinni fékk ég mér hvítvínsglas og fannst ég allt í einu verða svo frjó í huga gagnvart hinu nýja starfi að ég yrði að skrifa hugmyndir mínar niður. Eina sem ég gat skrifað á voru ælupokarnir frá Croatia Airlines. Þannig skrifaði ég fyrstu drögin að starfsemi VIRK og öðru hvoru rekst ég á þessa poka þegar ég fletti gömlum skjölum."

Skýrt markmið að koma sem flestum út á vinnumarkað

„Þegar ég kom til starfa byrjaði ég á að kaupa fartölvu og settist með hana inn í skrifstofuhorn hjá ASÍ. Ég fékk fjármagn í hendurnar og hóf hikandi starfsemina. Ég vissi satt að segja á þessum tímapunkti harla lítið út í hvað ég væri að fara.

Þá þegar hafði ég þó rætt við sérfræðinga í endurhæfingu og hélt því nú áfram. Ég vildi eiga samvinnu við til dæmis lækna, sálfræðinga og sjúkraþjálfara. Ég hafði ekki hugmynd um hvers konar fólk myndi leita til VIRK. Ég held að enginn hafi þá gert sér grein fyrir hversu mikil þörf væri á þessari starfsemi og hversu flókið starfið yrði.

Við hjá VIRK erum að taka á móti veiku fólki og það gerir maður ekki hvernig sem er. Við komum inn í ýmis kerfi sem fyrir voru, svo sem heilbrigðiskerfi, félagskerfi og stéttarfélög. Það flækir málið síðan að menn eru ekki alltaf sammála um það hvernig beri að skilgreina starfsendurhæfingu og hver beri ábyrgð á hverju. En leiðarljós okkar hjá VIRK var að við ættum að koma til viðbótar þeirri þjónustu sem fyrir hendi var og markmiðið var skýrt - að koma sem flestu fólki aftur út á vinnumarkaðinn.

Hvernig átti að gera þetta og hverjar áherslurnar ættu að vera var ekki eins ljóst. Við höfum á þeim tíma sem VIRK hefur starfað verið að finna út úr þessu og ég vil meina að þeirri vegferð sé ekki lokið. Við erum ennþá að átta okkur á hvar við eigum að vera og það er ekki undarlegt - tíu ár er ekki langur tími í slíkt verkefni."

Hvernig gekk í upphafi?
„VIRK hóf starfsemi sína á miklum umbrotatímum í íslensku samfélagi, rétt í þann mund sem bankahrunið varð. Á sama tíma og byggja átti þessa nýju þjónustu upp var verið að skera niður fjármagn til ýmissa ríkisstofnana. Mörgum fannst því að það fé sem VIRK fékk hefði átt að fara í annað. Ég hef skilning á þessu sjónarmiði en hef ávallt bent á það að fjármagnið sem fór í VIRK var ekki tekið frá öðrum stofnunum heldur kom til viðbótar frá atvinnulífi og lífeyrissjóðum. Þessar aðstæður ollu því hins vegar að erfitt gat verið að fá fólk til samstarfs við VIRK í upphafi. Áhugi Velferðarráðuneytisins á VIRK var einnig lítill á þessum tíma - ég var til dæmis ekki boðuð á fund sem ráðuneytið boðaði til þar sem fjallað var um starfsendurhæfingu.

Þegar Guðbjartur Hannesson varð velferðarráðherra breyttist margt. Hann var einstakur maður. Ég minnist þess að hann kom í heimsókn til okkar í VIRK og sagði: „VIRK er til og verður til og nú skulum við vinna saman." Eftir það varð samstarfið við hið opinbera betra. Vissulega finnum við þó stundum enn fyrir því að vera ekki ríkisstofnun. Á móti kemur að aðilar vinnumarkaðarins og stéttarfélögin standa við bakið á starfsemi VIRK og hafa barist fyrir henni. Hún snertir þeirra hagsmuni og það ber ekki að vanmeta. Þetta hefur verið ómetanlegur stuðningur í þeim ólgusjó sem VIRK hefur siglt, það hefur ekki alltaf verið eining um hvert stefna beri."

Ekkert lát á eftirspurn

Óx VIRK hratt?
„Já, mjög hratt, á tímabili voru langir biðlistar eftir þjónustu og sú er einnig raunin í dag því miður. Ég hélt lengi vel að verið væri að „taka kúfinn" af þörfinni hjá fólki eftir starfsendurhæfingu. En það er ekkert lát á eftirspurninni eftir samstarfi við VIRK hjá þeim sem einhverra hluta vegna eru ekki lengur úti á vinnumarkaðinum."

Hverjar eru helstu orsakir þess að fólk leitar til VIRK?
„Flest fólk sem leitar eftir þjónustu VIRK á í vanda vegna stoðkerfis eða geðrænna kvilla. Mjög mörgum tekst í samstarfi við VIRK að endurhæfast og komast til starfa á vinnumarkaðinum. En það er þó alltaf einhver hópur sem ekki tekst að endurhæfa. Orsökin liggur stundum í því að fólk er of veikt þegar það kemur til okkar. Það hefði þurft að fá meiri hjálp innan heilbrigðiskerfisins áður en það færi í starfsendurhæfingu eða heilsubresturinn er það alvarlegur að endurkoma á vinnumarkað er ekki raunhæf.

Niðurskurður sem varð í kjölfar hrunsins í heilbrigðisgeiranum hefur til dæmis valdið því að við erum að fá til okkar hjá VIRK of veikt fólk. Það er vandi sem þarf að vinda ofan af í samstarfi við heilbrigðiskerfið. Fólk á að fá betri hjálp áður en það kemur til VIRK í starfsendurhæfingu. Hins vegar er stundum ekki auðvelt að greina þetta í upphafi þjónustu og við viljum gjarnan að fólk fái að njóta vafans. Stundum tekst að ná góðum árangri þótt ekki hafi blásið byrlega í fyrstu.

Annað er það að jafnvel þótt viðkomandi einstaklingar nái ekki í fyrstu atrennu að komast út á vinnumarkaðinn þá nær hann oftast betri líðan. Þann árangur ber líka að meta. Þessu fólki tekst kannski að komast til starfa sem sjálfboðaliðar eða í lítið starfshlutfall þótt það sé ekki enn fært um að fara í fullt starf á hinum almenna markaði. Það öðlast meiri menntun og lifir betra lífi með sinni fjölskyldu og þarf jafnvel að nota lyf og heilbrigðisþjónustu minna en annars væri. Þetta skilar sér inn á heimilin, til barnanna og þannig út í samfélagið."

Hvernig fólk leitar til VIRK?
„Það er búinn að vera mikill „rússíbani" með VIRK á allan hátt. Við vissum í upphafi ekki hvaða fólk kæmi til okkar og við höfum frá upphafi verið að þróa betur árangursríkar aðferðir í þjónustunni. Fyrst kom margt ófaglært fólk en upp á síðkastið hefur aukist að til VIRK leiti vel menntað fólk sem hefur kulnað í starfi. Þetta á við til dæmis um kennara, fólk í heilbrigðisstéttum - ekki síst þá sem vinna við umönnun. Greinilega er mikið álag á fólki sem sinnir þessum störfum og það þyrfti að skoða nánar.

Ingibjörg Jónsdóttir, forstöðumaður hjá Institutet för Stressmedicin í Gautaborg, hefur bent á að skoða þurfi uppbyggingu starfa í fyrrnefndum starfsgeirum. Ingibjörg hefur stundað rannsóknir á ýmsu því sem viðkemur starfsþroti fólks. Hún hefur til dæmis vakið athygli á að fyrirkomulag á borð við að hafa einn stjórnanda yfir allt að fimmtíu starfsmönnum sé varla fólki bjóðandi. Þá er vinnumarkaðurinn að taka miklum breytingum í kjölfar hinnar stafrænu þróunar. Allt þetta skapar óróa sem getur valdið kvíða."

Hefur aldur eitthvað að segja í þessu sambandi?
„Já, til okkar leitar oft fólk sem ræður ekki lengur við núverandi starf, sem það hefur jafnvel menntað sig til á sínum tíma. Það fólk þarf að umskóla sig, ef svo má segja, það þarf að hjálpa því að finna starf við hæfi."

Hvernig ræður þú ráðgjafa til VIRK?
„Félagsráðgjafar hafa komið sterkir inn ásamt fleiri fagstéttum svo sem sjúkraþjálfurum og iðjuþjálfum. Í fyrstu voru menn með þær hugmyndir að það þyrfti ekki að fá háskólamenntað fólk sem ráðgjafa. Talið var þjónustufulltrúar myndu geta sinnt slíkum störfum. Fljótlega var þó snúið af þeirri leið og fólk áttaði sig á að til að endurhæfa fólk til starfa yrði að vera fyrir hendi staðgóð þekking.

Það er ekki sama hvernig komið er til móts við fólk sem glímir við vanda. Að vera ráðgjafi er gríðarlega erfitt starf. Ráðgjafinn þarf bæði að ráða við að sýna fólki stuðning og hvatningu en án þess þó að taka vandamálin of mikið inn á sig eða verða meðvirkur. Ekki dugar að ráðgjafinn „brenni upp" sjálfur. Við höfum verið heppin með ráðgjafa og eigum í þeim hópi öflugt fólk. Ég er þakklát fyrir það. Ráðgjafarnir fá handleiðslu hjá fagfólki þegar þörf er á. Almennt þarf fólk í svona störfum á handleiðslu að halda."

Skilningur á starfsemi VIRK hefur aukist

Hvað er lögð áhersla á í samstarfi VIRK og einstaklinga?
„Við hjá VIRK leggjum mikla áherslu á að einstaklingar, sem eru í samstarfi við okkur, ráði sem mest ferðinni í sínum málum. Út frá því er gengið. Fólk verður að vera bílstjóri í sínum bíl. Hlutverk VIRK er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Það hefur tekist að mestu leyti en vissulega má alltaf gera betur. Við erum núna að innleiða nýtt upplýsingakerfi sem hjálpar til í þessum efnum."

Hefur skilningur samfélagsins aukist á starfsemi VIRK?
„Já, mér finnst það. Á undanförnum árum hefur viðhorfið til VIRK verið að breytast. Ég viðurkenni að þegar ég, árið 2008, var nýbyrjuð að starfa fyrir VIRK og bankahrunið varð nokkrum vikum síðar þá óttaðist ég að þessi starfsemi yrði lögð af. Ég ákvað að mæta þessu með því að spýta í. Þeir Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson voru sammála mér þar - sögðu sem svo: „Nú þarf fólk virkilega á þessari þjónustu að halda."

Þótt ég væri þá ekki komin langt með undirbúning þá setti ég starfsemina af stað. Ég byrjaði með tvo eða þrjá ráðgjafa í einskonar tilraunaverkefni með nokkrum stéttarfélögum. Við hrundum þessu af stað og árið 2009 komu fyrstu ráðgjafarnir til starfa hjá VIRK. Við héldum fundi með þessum nýju ráðgjöfum og ég fann svo vel að nú var virkilega eitthvað að gerast. Fólk fór að koma inn í þjónustu. Aðstæðurnar voru þannig að ekki var um annað að ræða en fara bara af stað og læra af reynslunni. Ég er ekki viss um að langur undirbúningur hefði skilað betri árangri. Vissulega höfum við misstigið okkur í ferlinu - en þá höfum við stigið til baka og haldið svo áfram."

Hvernig er varið samstarfi við fyrirtæki?
„Við erum núna að byggja upp mjög markvisst samstarf við fyrirtæki um að taka á móti einstaklingum til starfa með skerta starfsgetu. Þetta verkefni gengur vel og verður þróað áfram á margan hátt. Hins vegar er einnig komin í gang umræða um hvort VIRK gæti komið meira að forvörnum. Ég er ekki frá því að það geti gengið. En slíkt þarf að móta m.a. í samstarfi við Vinnueftirlitið sem hefur lögbundið hlutverk í forvörnum. Líka höfum við velt fyrir okkur hvort við gætum hjálpað fólki fyrr í ferlinu. En vissulega er á hverjum tíma fjöldi fólks á vinnumarkaði sem líður illa – og hvar eigum við þá að setja mörkin? Ekkert okkar gengur í gegnum lífið áfallalaust. Þetta þarf því að skoða mjög vel en við hjá VIRK erum ávallt tilbúin til að skoða nýjar leiðir til árangurs."

VIRK er orðið stórt og öflugt net

Hvað eru margir sem starfa hjá VIRK?
„Á skrifstofu VIRK í Guðrúnartúni 1 eru fjörutíu og fimm starfsmenn. Starfsemi VIRK er umfangsmikil, markviss stuðningur við ráðgjafa og mikið er um samninga. Við kaupum úrræði af fimm hundruð þjónustuaðilum, utan um það þarf að halda og ekki síður fjármálin. Einnig starfa í Guðrúnartúni þverfagleg teymi sem fara yfir málefni einstaklinga í þjónustu og meta stöðu og framgang í starfsendurhæfingunni ásamt ráðgjöfunum. Áður var þetta í höndum verktaka en á undanförnu ári höfum við í auknum mæli verið að færa þennan þátt starfseminnar frá verktökum til starfsmanna. Svo starfa hjá VIRK fimmtíu og tveir starfsendurhæfingarráðgjafar víða um land. 

VIRK er í samstarfi við öll stéttarfélög, lífeyrissjóðina, samtök atvinnurekenda, allt heilbrigðiskerfið, endurhæfingarkerfið, alla heilsugæsluna, félagsþjónustu sveitarfélaganna, Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun og ráðuneytið - alla þessa þræði þurfum við að halda utan um. Hlutverk mitt er í raun að stýra þessu samstarfi. Þess ber að geta að veltan hjá VIRK er um þessar mundir þrír og hálfur milljarður króna á ári.

Við erum með núna um tvö þúsund og fjögur hundruð einstaklinga í þjónustu. Þeir hafa snertifleti við alla þessa fjölmörgu aðila í kerfinu. Það fer ekki hjá því að í leiðinni verðum við hjá VIRK vör við ýmsa bresti í öllu þessu kerfi."

Hvernig gengur að fá vinnu hjá fyrirtækjum fyrir þjónustuþega VIRK?
„Það er farið að ganga betur, sérstaklega eftir að við fórum markvisst af stað til að leita eftir slíku. Hluti af starfsmönnum VIRK í Guðrúnartúni eru svokallaðir atvinnulífstenglar. Þeir fara með fólki út í fyrirtækin og leita eftir störfum. Bjóða samstarf við VIRK. Þegar losnar starf sem hentar er haft samband. Við hjá VIRK eigum líka að láta vita þegar til okkar kemur fólk sem við teljum að geti verið eftirsóknarverðir starfskraftar í ákveðin störf. Stundum fer fólk til vinnu með svokallaðan starfssamning, þ.e. Tryggingastofnun ríkisins borgar á móti fyrirtækinu. Hitt er þó alveg eins algengt að fyrirtæki borgi launin að fullu.

Þessi vaxandi þáttur í okkar starfsemi hefur gengið vonum framar. Við getum ekki ætlað fólki sem á við vanda að stríða, jafnvel ævina á enda, að fara út á vinnumarkaðinn hjálparlaust. Þess vegna höfum við undanfarið lagt aukna áherslu á að hjálpa þessu fólki lengra út í atvinnulífið og við lítum á það sem hluta af starfsendurhæfingarferlinu. Á því sviði tel ég að VIRK muni m.a. vaxa. Á sama tíma stöndum við vörð um ráðgjafana okkar sem eru í hinum persónulega stuðningi og beinist aðallega að því að byggja upp sjálfsmynd einstaklingsins. Þetta er því margþætt."

Er mikil þörf á að styrkja innviði kerfisins?
„Já, það er víða þörf á að styrkja innviði en hér er líka verið að gera margt vel. Því má ekki gleyma né vanmeta. Það er til staðar mikið af þjónustu þar sem unnið er gott starf. Þar sem við þurfum sérstaklega að gera betur er á sviði geðheilbrigðisþjónustu og heilsugæslu. Ef til dæmis boðið væri upp á sálfræðiþjónustu fyrr í ferlinu þá myndu færri þurfa að koma til okkar í VIRK. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að einmitt á þessu sviði ætli þau að gera betur svo ég leyfi mér að vera bjartsýn hvað það varðar."

Manneskjan bak við stjórnandann

Hvernig líður þér þegar þú nú horfir yfir tíu ára vegferð VIRK?
„Ég er fyrst og fremst þakklát og finnst það ákveðin forréttindi að hafa fengið tækifæri til að gera þetta. Mér þykir mjög vænt um VIRK. Ég hefði ekki lagt mig meira fram þótt ég hefði átt þetta fyrirtæki sjálf. Ég er líka þakklát fyrir að hafa fengið að starfa með öllu því góða fólki sem að þessari starfsemi hefur komið á hinni tíu ára vegferð VIRK. Ég vann mjög mikið fyrstu árin hjá VIRK en svo áttaði ég mig á að ég yrði líka að fá að vera til sem manneskja og setti mér mörk."

Hvað telur þú helst hafa skapað þá manneskju sem þú ert núna?
„Svo margt. Ég er fædd og uppalin í Hafnarfirði og hef alltaf búið hér utan tvö ár sem ég var, sem fyrr greinir, við nám í Danmörku. Ég er gift Daníel Helgasyni húsasmíðameistara. Við kynntumst í Flensborg sem unglingar, giftum okkur í Garðakirkju á Álftanesi 1987 og eigum tvo syni og eina dóttur.

Foreldrar mínir eru báðir aldir upp í Hafnarfirði. Faðir minn, Jón Vignir Karlsson lést á síðasta ári. Hann var sonur útgerðarmanns hér í Hafnarfirði og ætlaði sér að fara á sjó. Hann sá hins vegar svo illa að hann gat ekki farið í Stýrimannaskólann og fór því í upplýsingageirann. Hann varð einn af framkvæmdastjórum Nýherja og rak seinna Nýja tölvu- og viðskiptaskólann."

Gat hann orðið frumkvöðull á þeim vettvangi þegar hann sá svona illa?
„Hann fékk sér bara gleraugu," svarar Vigdís og hlær. „Móðir mín, Hjördís Edda Ingvarsdóttir, var lengi heima við og sinnti okkur börnunum. Seinna fór hún í Flensborg. Við vorum þar við nám á sama tíma mæðgurnar. Hún varð síðar skrifstofustjóri hjá sjúkraþjálfunardeild Háskóla Íslands. Pabbi minn var duglegur maður og móðir mín er það líka. Ég er elst barna þeirra og á þrjá bræður."

Þú ert sem sagt „væske ekte" Hafnfirðingur?
„Já - nema hvað ég var í sveit frá sex ára aldri að Bessastöðum í Húnavatnssýslu. Þar bjó frændfólk mitt. Ég var hjá Birni Einarssyni og Ólöfu Pálsdóttur - Bjössa og Lóu - og byrjaði á að passa börnin þeirra. Ég var mörg sumur á Bessastöðum og gekk í allskyns störf. Þetta var margmennt heimili og oft mikið að gera. Ég man eftir að hafa gripið í að elda ofan í mannskapinn tólf ára gömul og líka bakað."

Kynntist þú samhjálp í æsku?
„Þessu hef ég ekki velt sérstaklega fyrir mér. Ég var félagslega sterk strax sem barn, átti auðvelt með að eignast vini þótt ég hefði mig ekki mikið í frammi. Líklega var ég fremur rólynd og þæg stelpa. Fljótlega fann ég að nám lá vel fyrir mér og var því dugleg að læra. Fyrir það fékk ég heilmikla viðurkenningu sem var gott fyrir sjálfsmyndina. Ég dúxaði á stúdentsprófi og fékk fyrstu einkunn í Háskóla Íslands. Þetta er samt ekki það sem mér finnst sérstaklega varið í núna.

Þrátt fyrir allt er ég dálítill „bóhem" í mér. Ég get til dæmis ekki gengið í drögtum. Ég fékk mér einu sinni eina slíka en fann að hún átti ekki við mig svo ég gaf hana í Rauða krossinn. Ég er sem sagt ekki mjög formleg og kann best við mig í mínum skrautlegu og litglöðu kjólum."

Harmónikan og hamingjan

Hvað finnst þér mest varið í núna?
„Með árunum hef ég orðið meðvitaðri um, að eins gott og það er að standa sig vel, þá þarf maður líka að leyfa öðrum þáttum persónuleikans að njóta sín. Ég hef uppgötvað hluti um sjálfa mig sem ég vissi varla að væru til, svo sem sköpunarþrána. Ég fæ útrás fyrir hana til dæmis í prjónaskap - en þó miklu fremur í tónlist. Fólk sem hefur verið í þjónustu hjá VIRK talar stundum um að sköpun hafi fært því bata. Sköpunargleðin er án efa ein af leiðum fólks til betra lífs. Það er mikilvægt að geta nýtt þá hæfileika sem búa með manni."

Hverskonar tónlist stundar þú?
„Maðurinn minn gaf mér harmóniku í afmælisgjöf þegar ég varð fertug. Ég talaði stundum í gríni um að læra á nikku þegar ég yrði gömul. Honum fannst ég ekki þurfa að bíða með það. Sem stelpa var ég í kór Öldutúnsskóla og fékk þar ákveðið tónlistaruppeldi. Einnig lærði ég í stuttan tíma á píanó. Svo komu börnin og námið til sögunnar - ég hef þó alltaf verið í kórum af og til - sem „mjóróma altrödd", ef svo má segja.

Þegar ég fékk harmónikuna fór ég til Karls Jónatanssonar til að læra á hana. Við vorum þrjú saman í tímum hjá honum, einn bifvélavirki, útfararstjóri og svo ég. Þetta var hið skemmtilegasta. Kalli var mjög hvetjandi og sagði fljótlega við mig að ég gæti orðið góður harmónikuleikari. Þótt ég hafi gaman af músik og dansi er ég samt ekkert náttúrubarn í tónlist. Ég hef þurft að hafa fyrir að læra á nikkuna og ég geri það bara fyrir mig. Kannski hefur maðurinn minn stundum verið þreyttur á að hlusta á mig hjakka á nikkuna. En mér fór fram. Svo var ég svo heppin að kynnast Hildi Petru Friðriksdóttur og hef spilað talsvert með henni og við gáfum saman út harmónikudisk fyrir nokkrum árum síðan. Einnig hef ég æft talsvert undanfarið með Haraldi Reynissyni, Halla Reynis  - við erum raunar nýlega búin að taka upp lag saman - Motherland. Þar syngur hann og spilar á gítar og ég sé um harmónikuna og syng aðeins bakrödd. Við stefnum að því að taka upp fleiri lög og gefa út disk á þessu ári."

Er tónlistariðkunin góð útrás fyrir stjórnandann?
„Já hún er það. Stundum þegar ég spila finn ég innra með mér ríka hamingjutilfinningu. Sú tilfinning kemur ekki til manns á hverjum degi. Ég segi ekki að ég sé ekki hamingjusöm í starfi mínu hjá VIRK - en það er öðruvísi hamingja. Ég veit að á einhverjum tímapunkti fer VIRK frá mér en ég vona að harmónikan yfirgefi mig aldrei."


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband