Fara í efni

Gagnrýnin hugsun og fagleg ákvarðanataka

Til baka

Gagnrýnin hugsun og fagleg ákvarðanataka

Henry Alexander Henrysson aðjúnkt við sagnfræði- og heimspekideild og sérfræðingur við Siðfræðistofnun HÍ

Útdráttur

Gagnrýnin hugsun hefur verið mikð í umræðunni á undanförnum árum. Öðru hvoru spretta upp raddir um að þjálfun hennar sé ekki nægilega markviss í skólakerfinu og að mikið skorti upp á að fyrirtæki og stofnanir hvetji til slíkrar hugsunar á vinnustaðnum. En hver er þessi gerð hugsunar og hvernig gæti þjálfun hennar farið fram? Í þessari grein er leitast við að útskýra mikilvægi og eðli gagnrýninnar hugsunar. Augunum er sérstaklega beint að möguleikum hennar fyrir farsæla ákvarðanatöku í faglegu samhengi. Einnig eru færð rök fyrir því að hún sé hæfni sem þurfi að tileinka sér fremur en einungis færni eða leikni sem hægt er að læra að beita á stuttum tíma. Þessi hæfni samanstendur af þekkingu á áhrifaþáttum á hugsun, færni í að rökstyðja mál sitt, trú á mikilvæg gildi og rétt viðhorf til þeirra tækifæra sem felast í samræðunni.

Fagmennska

Hver kannast ekki við að hafa gerst sekur um óskynsama ákvarðanatöku í mismunandi aðstæðum? Á fyrsta vinnustaðnum féllum við fyrir hrekk samstarfsmanna sem spiluðu á trúgirni okkar. Síðar á lífsleiðinni treystum við liprum sölumanni gegn betri vitund vegna bráðskemmtilegrar sögu sem hann segir okkur. Ef hann er að selja okkur fasteign er eins víst að sagan sé hlýleg frásögn úr æsku hans og á rafmagnstækjum er oft liðkað fyrir sölu með dæmi af vandræðum tengdaföður með takka og snúrur. Einnig eigum við það öll til að fylgja stjórnmálamanni sem fellur okkur í geð í fjölmörgum málum sem við höfum svo sem ekkert kynnt okkur.

Í vissum aðstæðum kann þetta að vera í lagi og oft er hlegið eftir á. En í öðrum aðstæðum höfum við ekki efni á að slaka á kröfum um að láta skynsemina leiðbeina okkur. Hér er fyrst og fremst átt við þær aðstæður sem faglegt hlutverk okkar leiðir okkur í. Slíkum hlutverkum fylgja oft töluverð réttindi um ákvarðanatöku fyrir okkur sjálf og aðra. Öllum réttindum fylgja mismunandi skyldur. Skyldurnar sem fylgja faglegum ákvörðunum eru rökræðuvilji og rökræðuhæfni. Páll Skúlason komst svo að orði að rökstudd afstaða væri „að geta gert sjálfum sér og öðrum grein fyrir forsendum þeirra ákvarðana sem maður tekur.“(1) Líklega er ekki hægt að orða mikilvægustu skyldu hvers fagmanns á skýrari máta.

Gagnrýnin hugsun

Rökræða krefst gagnrýninnar hugsunar. Mikilvægi hennar kemur ekki síst í ljós við áföll, hvort sem þau eru persónuleg eða samfélagsleg. Rangar ákvarðanir hafa, að öllu jöfnu, slæmar afleiðingar. Við áföll, og stórvægileg afglöp, kemur iðulega fram krafa í samfélaginu um að efla skuli gagnrýna hugsun þeirra sem með ákvarðanir fara.

Hugtakið „gagnrýni“ á það þó til að sitja í fólki. Þrátt fyrir að hafa óljósa hugmynd um mikilvægi hennar, telja margir að þarna sé um ræða neikvæða gerð hugsunar. Snýst gagnrýni ekki fyrst og fremst um að setja út á það sem aðrir segja og gera? Lýsingarorðið „gagnrýninn“ hefur ekki slíka neikvæða merkingu. Þvert á móti, merking þess er að vera athugull á allar hliðar máls. Gagnrýnin hugsun snýst um að tileinka sér ákveðinn hugsunarmáta. Hún gerir ráð fyrir samvinnu, hvetur fólk til að leita sannleikans, ber traust til skynseminnar, krefst víðsýni og fær fólk til að vera reiðubúið til að breyta eigin skoðunum.(2) Markmið hennar er ekki síst að leitast við að skilja hvernig ólíkar forsendur liggja niðurstöðu til grundvallar og að byggja ákvarðanir okkar að lokum á þeirri staðreynd.

Við þurfum þó öll að sætta okkur við að ákvarðanir okkar – og þar af leiðandi athafnir – eru ekki alltaf röklegar. Þær ráðast oftar en ekki af flóknu samspili líkamlegra og félagslegra þátta sem stjórna athöfnum okkar. Okkur þurfa þó ekki að fallast hendur. Mögulegt er að þróa með sér framangreindan vilja og hæfni til þess að hlíta rökum. Vissulega er hægt að leggja meira upp úr því að treysta á reynslu eða innsæi – og það gera margir. Vandamálið er að þá erum við stöðugt og ómeðvitað undir áhrif frá öðrum, samstarfsmönnum eða hagsmunaaðilum. Gagnrýnin hugsun reynir að losa okkur undan slíkum áhrifum.

Áhrifaþættir

En hvernig getur gagnrýnin hugsun minnkað áhrif annarra á hugsun okkar? Svarið felst í að með beitingu hennar verðum við meðvitaðri um áhrifaþætti sem trufla ákvarðanir okkar. Sumt verður stöðugt hluti af skoðanamyndun okkar. Margræðni tungumálsins er dæmi um það. Jafnvel skynjun okkar á sömu hlutum er ekki laus við flækjustig; hver man ekki eftir kjólnum sem skipti fólki í tvær fylkingar eftir því hvaða lit það sá? Erfiðari viðfangs eru þau óteljandi mælskubrögð sem fólk getur gripið til ef það vill hafa áhrif á skoðanir annarra. Oft gengur fólk á lagið þegar það sér að þau sem áhrif á að hafa á eru undir mikilli tímapressu. Skoðanir verða ekki til í tómarúmi og gjarnan vilja margir vera með í að skapa þær. Allir hafa orðið fyrir því að láta skoðanir sínar litast af því að viðmælendur hafa fegrað eða skrumskælt hluti, gefið eitthvað í skyn, notað hlutdrægar spurningar, spilað á afbrýðisemi eða samviskubit, smjaðrað og fundið hentuga blóraböggla.

Jafnvel sérfræðingar sem ættu að hafa fagleg sjónarmið að leiðarljósi eiga það til að gerast sekir um tungutak sem er frekar ætlað að slá ryki í augu fólks en að skýra málavöxtu og leiðbeina öðrum í skoðanamyndun. Málalengingar, stofnanamál og innihaldslaust orðagjálfur er eitthvað sem sú sem ætlar sér að vera athugul á allar hliðar hvers máls þarf að gæta sín á. Raunar getur hver og einn gerst sekur um – á ógagnrýnin hátt – að gæta ekki að sér og taka þátt í þessum leik. Það er auðvelt að falla í þá gryfju sjálfur að fara rangt með, gefa eitthvað í skyn, beita óljósu orðalagi, vera með stanslausa útúrdúra, endurskilgreina hugtök sjálfum sér í hag og snúa út úr orðum viðmælanda.

Rökvillur kallast þær villur hugsunarinnar sem láta okkur draga ályktanir á ógagnrýnin máta. Hlutverk gagnrýninnar hugsunar er því ekki síst að draga slíkar villur fram í dagsljósið. Ein ástæða þess er að rökvillur eru ekki einungis villur sem fólk gerir eitt með sjálfu sér heldur eru þær oft notaðar sem mælskubrögð af þeim sem kunna með þær að fara. Svokölluð svart-hvít villa er þannig oft notuð til að stilla fólki upp við vegg, persónurök eru notuð til að ráðast á einstaklinga fremur en að takast á við umræðuefni og fuglahræðurök er sköpuð til að þurfa ekki að bregðast við rökum viðmælanda.(3) Svona mætti lengi telja. Í opinberri umræðu má sjá tilraunir til að tengja saman fjölda slíkra rökvillna til að hafa áhrif á skoðanir almennings. Það sama á sér stað á stofnunum og vinnustöðum. Gagnrýnin hugsun er í raun eina vörn okkar gegn tilraunum af þessu tagi.

Erum bara mannleg

Ef horft er yfir söguna er varla annað hægt heldur en að renna í grun að mannkynið sé afsprengi þróunar sem hafi ekki alltaf haft rökvísi í hávegum. Það sem í samhengi faglegrar ákvarðanatöku gæti virst sem nokkur löstur, kann að hafa reynst vel í annars konar, og jafnvel frumstæðari, aðstæðum. Þannig er augljóst að tryggog hjarðlyndi reynist samfélögum vel þegar eitthvað bjátar á og ógn steðjar að. Sömuleiðis er ekki verra að fólki þyki vænt um sína heimatorfu og telji hana vera nafla alheimsins. Ekkert þessara viðhorfa eru þó hluti þess að vera gagnrýninn. Ekki frekar en fordómar sem í viðsjárverðum aðstæðum og á ógnvekjandi tímum geta verið kostur. Varla er hægt að mótmæla því að óskhyggja og hjátrú hafa fært fólki merkingu, tilgang og öryggi eins lengi og við höfum heimildir um. 

Vandamálið er að þessar tilhneigingar sem eru svo ríkar í eðli okkar hafa þróast í fjölmargar hvimleiðar glapsýnir. Í starfstengdu samhengi blasa raunar fjöldi slíkra mögulegra hleypidóma við okkur. Sjálfstraust virðist stundum eflast í öfugu hlutfalli við þekkingu, fyrstu kynni lita alla dóma sem á eftir koma, við fögnum því sérstaklega sem fellur strax að heimsmynd okkar, aðlaðandi fólk fær okkur til að fylgja sér að málum og ef niðurstaða rökfærslu fellur að öðrum skoðunum þá getum við verið furðu blind á forsendur hennar.

Gagnrýnin hugsun sem hæfni

Hvað getum við gert ef hugsun okkar er í flestum aðstæðum að upplagi fjarri því að vera gagnrýnin? Gagnrýnin hugsun er hugsunarmáti – hún er hæfni sem tengir saman þekkingu á ákveðnum hlutum, færni til að bregðast við áreiti og áhrifum, mikilvæg viðhorf til samfélagsins og siðferðisleg gildi. Hæfnin felst í því að við getum brugðist við mismunandi aðstæðum þegar kemur að ákvarðanatöku. Besta leiðin til að skerpa slíka hæfni á sér fornar heimspekilegar rætur. Hún er að temja sér að spyrja spurninga þegar við myndum okkur skoðun. Ekki hvaða spurninga sem er heldur sjö spurninga sem tryggja að maður sé athugull á allar hliðar hvers máls.(4)

Fyrsta spurningin er að spyrja hvað tiltekin skoðun felur í sér. Það getur verið einkennilega ógagnrýnið að mynda sér sterka skoðun á einhverju viðfangsefni án þess að vera með það á hreinu hvert umfjöllunarefnið er. Önnur spurningin er hvers vegna maður er að mynda sér skoðun á þessu efni. Áhrifavaldarnir eru margir og eins víst að maður sé ekki að mynda sér skoðun að ástæðulausu. Þriðja spurningin er hvort þessi skoðun sé í samræmi við núverandi hugmyndaheim. Auðvitað mega allir skipta um skoðun en það er svo einkennilegt að halda einhverju fram sem stendur í beinni andstöðu við fyrri skoðanir ef þeim er ekki ætlað að láta undan síga. Fjórða spurningin er hvort maður skilji helstu hugtök og sú fimmta hvort skilningur sé til staðar á þeim gögnum sem skoðun er reist á. Sjötta spurningin er hvort við getum fylgt röksemdafærslum, hvort þær séu yfirleitt til staðar eða hvort mælskubrögð og rökvillur einkenni alla umræðu í kringum málefnið.

Síðasta, mikilvægasta og líklega flóknasta spurningin er sú að reyna að gera sér grein fyrir hvað myndi gerast ef allir hefðu sömu skoðun og breyttu í samræmi við hana. Skoðanir eru sjaldnast einkamál. Hver og einn breytir oftast í samræmi við skoðanir sínar. Ef við ætlum að gera gagnrýninni hugsun hærra undir höfði í hugmyndaheimi okkar þurfum við að leyfa hugsun okkar að tengjast hinu mögulega – því sem ætti að gerast. Vitund um afleiðingar er hluti þess að vera athugull á allar hliðar hvers máls. Markmiðið er að gera einhvers konar langtímaplön fyrir sjálfan sig og aðra. Auðvitað kunnum við að þurfa að hugsa í styttri lotum en þá eigum við að geta gert sjálfum okkur og öðrum grein fyrir því hvers vegna ekki var horft til lengri tíma. Þar kemur samræðu og rökræðuviljinn fram.

Gagnrýna hugsun má því jafnvel útskýra á þann máta að það að vera athugull á allar hliðar sé nokkurs konar 360 gráða sjónarhorn við ákvarðanatöku. Hún krefst þess að við þekkjum forsögu þess að skoðun myndast og þá áhrifaþætti sem hafa komið fram. Hún krefst þess að við berum kennsl á rök með og á móti. Og að lokum horfir hún til framtíðar og þeirra afleiðinga sem gæti fylgt því að breyta í samræmi við þá skoðun sem virðist ætla að verða ofan á.

Í raun snýst gagnrýnin hugsun um að hvert og eitt okkar gæti sín, sérstaklega í faglegu samhengi, á að leiða ekki forsendur hjá sér, gera sér grein fyrir áhrifaþáttum á eigin skoðanir, reyna að finna sem flestar hliðar hvers máls og myndi sér að lokum skoðun sem maður er viss um að flest skynsamt fólk gæti gert að sinni. Í gegnum þetta ferli kemur fram sá vilji til samskipta og rökræðu sem er frumskylda hvers fagmanns.

Greinin birtist í ársriti VIRK 2018 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.

Heimildir

1. Páll Skúlason. Forspjallsvísindi. Hlutverk þeirra og viðfangsefni. Pælingar II. Reykjavík: Höfundur; 1989: 146.
2. Guðmundur Heiðar Frímannsson. Hugarfar gagnrýninnar hugsunar. Hugur 2010: 119–134.
3. Ólafur Páll Jónsson. Sannfæring og rök. Gagnrýnin hugsun, hversdagslegar skoðanir og rakalaust bull. Reykjavík: Heimspekistofnun – Háskólaútgáfan; 2016.
4. Henry Alexander Henrysson og Páll Skúlason. Hugleiðingar um gagnrýna hugsun. Gildi hennar og gagnsemi. Reykjavík: Heimspekistofnun – Háskólaútgáfan; 2014: 20–28.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband