Fara í efni

Áherslubreyting í málefnum fólks með fíknivanda

Til baka

Áherslubreyting í málefnum fólks með fíknivanda

Sigurlaug Lilja Jónasdóttir verkefnastjóri hjá VIRK

 

Misnotkun áfengis og vímefna hefur erið vaxandi vandamál víða í heiminum síðustu áratugi og hluti fólks sem misnotar þessi vímugefandi efni þróar með sér fíknivanda í kjölfarið. 

Nákvæm tíðni fólks sem glímir við fíknivanda er óljós, en samkvæmt tölum frá landlæknisembættinu árið 2019 féllu um 25% karla og 22% kvenna á Íslandi undir skilgreiningu á áhættusömu drykkjumynstri. Í þeim tölum er tekið tillit til tíðni áfengisneyslu, fjölda drykkja og tíðni ölvunardrykkju.1

Landlæknisembættið lagði einnig fyrir könnun árið 2018 um notkun annarra vímuefna og þar kom fram að: „36% svarenda höfðu prófað kannabisefni einhvern tíma um ævina og að um 4% karla og kvenna á aldrinum 18 til 67 ára höfðu neytt kannabis 1-2 sinnum á síðustu 12 mánuðum og 1% 40 sinnum eða oftar. Um 14% höfðu prófað amfetamín og 12% kókaín1.“.

Ekki er óalgengt að fólk sem glímir við fíknivanda sé einnig greint með aðrar geðraskanir. Í rannsókn Kristins Tómassonar frá 1995 kom í ljós að 70% fólks með áfengissýki og 90% fólks í blandaðari neyslu voru með tvígreiningu, þ.e. voru einnig að glíma við aðrar geðraskanir. Þar af voru kvíði (65%) og lyndisraskanir (33%) algengastar2. Þessar geðraskanir og fíknivandinn geta síðan haft áhrif á gang hvers annars. Margir með fíknivanda leita í vímuefni til að deyfa erfiðar tilfinningar, en til langs tíma geta vímuefni ýtt undir kvíða, depurð og aðrar alvarlegar geðraskanir.

Fjarvera frá vinnumarkaði er ein af stærri áskorunum fólks sem glímir við eða hefur glímt við fíknivanda. Vel heppnuð fíknimeðferð og edrútími í framhaldinu nægir ekki alltaf til að tryggja að fólk með fíknivanda geti fundið atvinnu við hæfi. Algengt er að eftir sitji ýmsar afleiðingar neyslunnar, til að mynda geðrænn vandi sem einstaklingurinn hefur ekki náð að vinna úr. Margir innan þessa hóps geta því þurft á starfsendurhæfingu að halda til þess að fóta sig á vinnumarkaði og fá þar með tækifæri til að vinna með sinn geðræna vanda og aðra heilsubresti sem hindra atvinnuþátttöku.

VIRK hefur nú ákveðið að leggja fremur áherslu á að horfa á hvert mál fyrir sig með tilliti til stöðugleika í edrúmennsku og líðan einstaklings.  

Mikilvægt er að styðja fólk með fíknivanda út á vinnumarkaðinn því að atvinna er í raun, samkvæmt rannsóknum, einn stærsti forspárþáttur árangursríkrar fíknimeðferðar og langvarandi edrútíma að meðferð lokinni. Einstaklingar sem hafa fasta atvinnu eftir meðferð virðast sinna meðferðinni með meiri metnaði og áhuga, og ná lengri edrútíma en þeir sem ekki hafa vinnusamband. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að þeir einstaklingar sem voru með atvinnu eða fengu starf á meðan á meðferð stóð, voru ólíklegri til að falla aftur í neyslu heldur en þeir sem voru atvinnulausir. Einstaklingar með fíknivanda sem hafa atvinnu eru einnig ólíklegri til að fremja glæpi og sýna aðra áhættuhegðun, heldur en þeir sem eru atvinnulausir3,4.

Einstaklingar með fíknivanda eða sögu um fíknivanda eru fjölbreyttur hópur sem þarfnast einstaklingsmiðaðar nálgunar. Sumir einstaklingar með fíknivanda þurfa starfsendurhæfingu til að komast aftur á vinnumarkað og öðlast nægilegt sjálfsöryggi og færni til að fá og halda atvinnu3.

Sýnt hefur verið fram á að sjálfsöryggi einstaklinga með fíknivanda eykst í starfsendurhæfingu, þeir snúa aftur í sitt félagslega umhverfi og hafa uppbyggilegt hlutverk í sínu daglega lífi og í samfélaginu, sem aftur eykur áhuga og skuldbindingu við meðferð og edrúmennsku. Fyrir einstaklinga með fíknivanda er atvinnuþátttaka því mikilvægur þáttur í því að snúa aftur til samfélagsins, tilheyra og taka virkan þátt3,5.

Inntökuviðmið VIRK endurskoðuð

Í ljósi þessa ákvað VIRK nýlega að endurskoða inntökuviðmið fyrir einstaklinga með fíknivanda. Áður var gerð krafa á að einstaklingur með fíknivanda næði að lágmarki 3-6 mánaða edrúmennsku áður en til starfsendurhæfingar kæmi. VIRK hefur nú ákveðið að leggja fremur áherslu á að horfa á hvert mál fyrir sig með tilliti til stöðugleika í edrúmennsku og líðan einstaklings. Afleiðingar og umfang neyslu geta verið ólík milli einstaklinga og því mikilvægt að taka tillit til þess.

Einstaklingur verður þó sem áður að uppfylla önnur viðmið VIRK um rétt til þjónustu og edrúmennska er enn skilyrði á meðan á starfsendurhæfingu stendur. Mikilvægt er að einstaklingar hafi getu til þátttöku í athöfnum daglegs lífs ásamt getu til að sinna starfsendurhæfingu. Þar með talið eru þær kröfur sem gerðar eru um mætingu og ástundun, ásamt því að einstaklingur stefni á nám eða vinnumarkað svo fljótt sem verða má. Í sumum tilvikum geta mál einstaklinga verið metin sem svo að þörf sé á annarskonar inngripi áður en til starfsendurhæfingar kemur, t.d. fíknimeðferð eða meðferð innan heilbrigðiskerfisins.

VIRK vill einnig reyna að koma til móts við einstaklinga með fíknivanda sem fá bakslag meðan á þjónustu stendur. Ef einstaklingur hrasar í neyslu meðan á þjónustu stendur á hann kost á að halda áfram í starfsendurhæfingu með þeim skilyrðum að hann leiti sér hjálpar, t.d. með fíkniráðgjöf eða öðrum meðferðarúrræðum.

Í einhverjum tilvikum getur verið þörf á stærra inngripi sem varir í allt að 2 mánuði og getur þá einstaklingurinn haldið áfram þjónustu að inngripi loknu. Ef þörf er á lengra inngripi en það, eða ef einstaklingurinn hefur ítrekað verið að hrasa eða falla, er mælt með að einstaklingur nái meiri stöðugleika með aðstoð heilbrigðiskerfisins áður en til frekari starfsendurhæfingar kemur. Einstaklingar eru hvattir til að vera heiðarlegir og getur VIRK þá stutt þá í að fá viðeigandi stuðning og meðferð við sínum vanda.

Í starfsendurhæfingu er unnið með þá heilsubresti sem taldir eru hindrandi til vinnu og horft á hvernig best er að styðja einstaklinga út á vinnumarkað. Starfsendurhæfing á þannig að vera síðasti liðurinn í endurhæfingarferli þar sem stefnt er á vinnumarkað. VIRK hefur leitast eftir að vera í samstarfi við bæði heilbrigðiskerfið og hin ýmsu meðferðarúrræði til að geta sem best leiðbeint einstaklingum í rétta átt þannig að þeir fái réttu þjónustuna á réttum tíma.

Að finna sinn stað í samfélaginu er afar mikilvægur hluti af bataferli einstaklinga með fíknivanda, og spilar atvinna þar stóran þátt. Það er því afar mikilvægt að einstaklingar með fíknivanda fái stuðning við að komast aftur út í vinnu eða nám þegar þeir eru tilbúnir að stíga skref í áttina að vinnumarkaði. Starfsendurhæfing getur þannig hjálpað einstaklingum sem glíma við fíknivanda að efla sjálfsöryggi sitt, rútínu og þá færni sem þarf til að fá og halda atvinnu og á sama tíma að styðja við áframhaldandi edrúmennsku.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2022

Heimildir

  1. Alma D. Möller, Agnes Gísladóttir, Rafn M. Jónsson, Salbjörg Bjarnadóttir og Sigríður Haralds. (2020). Vandi vegna áfengis og/eða annarra vímuefna: Bið eftir heilbrigðisþjónustu. Embætti landlæknis.
  2. Tómasson, K., & Vaglum, P. (1995). A nationwide representative sample of treatment-seeking alcoholics: a study of psychiatric comorbidity. Acta Psychiatrica Scandinavica, 92(5), 378–385.
  3. Doostian Y, Bahmani B, Farhoudian A, Azkhosh M, Khanjani MS. Vocational Rehabilitation for Individuals With Substance-Related Disorders. Iranian Rehabilitation Journal. 2019; 17(2):105- 112.
  4. Sprong M, Melvin A, Dallas B, Koch S, D. Substance Abuse and Vocational Rehabilitation: A Survey of Policies & Procedures. Journal of Rehabilitation. 2014; 80(4):4-9.
  5. Schottenfeld RS, Pascale R, Sokolowski S. Matching services to needs. Vocational services for substance abusers. Journal of Substance Abuse Treatment. 1992; 9(1):3-8.

Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband