Fara í efni

Það er ótrúlega margt hægt

Til baka

Það er ótrúlega margt hægt

Nanna Briem yfirlæknir 
Valur Bjarnason félagsráðgjafi

Gott er að koma inn í hlýjuna í Laugarási úr hinu íslenska roki og rigningu. Auðfundið er á andrúmsloftinu innandyra að þar ríkir sú von sem fleytir fólki gegnum ákomur í lífsins ólgusjó. Laugarásinn er deild frá Landspítala fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma á byrjunarstigi. Afar vel virðist að starfseminni búið í glæsilegum húsakynnum og ekki þarf að skima lengi yfir hóp skjólstæðinga til að sjá að þar ríkir notalegur félagsandi. 

Nanna Briem yfirlæknir tekur á móti blaðamanni og nær í Val Bjarnason félagsráðgjafa. Saman ætla þau að fara yfir stöðu á IPS-verkefninu, sem er starfsendurhæfing fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma og er samstarfsverkefni VIRK og Laugaráss.

„Þörfin á IPS hefur aukist, bæði af því að hér eru nú fleiri skjólstæðingar, eru að nálgast hundrað, og einnig af því að við erum búin að átta okkur betur á þessu meðferðarúrræði,“ segir Nanna Briem geðlæknir.

„Þetta hefur líka spurst út á meðal þjónustuaðila og þeir eru í auknum mæli að leita til okkar,“ segir Valur Bjarnason félagsráðgjafi.

Við sjáum nú æ betur að ungt fólk með geðrofssjúkdóma getur unnið meira og betur en við gerðum okkur áður grein fyrir,“ segja þau.

Hvernig hefur gengið að aðlaga IPS að íslensku umhverfi?
„Vissulega hefur þurft aðlögun IPS að okkar veruleika. Hugmyndin að IPS er upprunnin frá Ameríku en er að dreifa sér um allan heim. Búið er að taka þetta meðferðarúrræði upp á öllum Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. En á Norðurlöndunum er félagslega kerfið allt öðruvísi en í Bandaríkjunum. Því hafa komið upp vissir hnökrar á að samræma og aðlaga IPS því kerfi, þ.e. félags- og tryggingakerfi, sem við á Íslandi og öðrum Norðurlöndum búum við,“ segir Valur.

Nanna bætir við að það þurfi að aðlaga öll meðferðarúrræði íslensku umhverfi. „En án þess að skemma módelið.“

Tryggðarskali er gátlisti

Valur segir ákveðinn tryggðarskala fylgja IPS. „Hann er 26 atriða gátlisti og búið að þýða hann á íslensku. Þar eru spurningar settar fram og við fáum stig fyrir að fylgja skalanum. Eins konar einkunnargjöf fyrir 26 atriði, sem hvert um sig er fjölþætt. Færum við algjörlega eftir IPS hugmyndafræðinni fengjum við fullt hús stiga. En það er ekki hægt vegna ólíks umhverfis. Sé IPS ráðgjafi að sinna 20 einstaklingum fær hann toppeinkunn fyrir það, sinni hann fleirum lækkar einkunnin. Við skorum lægra af því að við sinnum fleirum. Tryggðarskali þýðir að halda tryggð við hin ýmsu atriði IPS hugmyndafræðinnar. Baldur Heiðar Sigurðsson sálfræðingur fann þetta góða íslenska nafn á gátlista IPS hugmyndafræðinnar.“

Nanna bætir við að því færri stig sem fáist því minna sé farið eftir hugmyndafræði IPS. „Hægt er að skora 150 stig,“ segir hún.

„Við Sveina Berglind Jónsdóttir sálfræðing og deildarstjóri hjá VIRK fórum til Danmerkur til að hitta kollegana og þeir sögðu okkur að við myndum skora lágt til að byrja með. Þannig væri það bara. Við vorum með 79 stig fyrir um það bil ári. Lægst mega stigin vera 74, þar fyrir neðan er ekki lengur verið að fara eftir þessu úrræði. Nú erum við hins vegar að skora 96 til 98 stig, sem er svipað og Danir gera. Við erum mjög sátt með þetta,“ segir Valur.

Nanna getur þess að nákvæmni Vals og vandvirkni eigi stóran þátt í þessari góðu niðurstöðu sem nú er á borðinu. „Hlynur Jónasson atvinnuráðgjafi á vegum VIRK, sem vinnur að IPS-verkefninu með okkur, hefur mjög góða þekkingu á atvinnulífinu og góð tengsl við atvinnurekendur. Þeir fá góðar upplýsingar í upphafi og tryggingu fyrir því að við munum koma að málum ef eitthvað kemur upp á, þannig hefur skapast mikill og góður áhugi atvinnurekenda á IPS-verkefninu“ segir Valur.

Gengur vel að finna vinnu

Nanna og Valur segja þátttakendur í IPS úrræðinu vera ungt fólk sem hafi ekki mikla menntun. En flest hafi það fengið vinnu sem það hefur áhuga á, t.d. við lagerstörf, á kaffihúsum eða bílaleigum, verkamannavinnu og tölvu og verslunarstörf. „Þetta byrjaði 2012 en á þessu tímabili hefur IPS fólkið okkar, sem við köllum svo, tekist að fá hin fjölbreyttustu störf. Nú eru þrettán manns í atvinnu, átta manns eru að skoða mögulega atvinnuþátttöku og brottfall er fjórir einstaklingar. Samtals eru þetta tuttugu og fimm manns sem hafa eða eru að tengjast atvinnumarkaðinum.“

Nanna segir hafa verið ákveðið að á meðan þessir einstaklingar séu í verkefninu njóti þeir þjónustu á Laugarási. „Ein af grunnstoðum í verkefninu er náið samstarf við „klíniska kerfið“. Tilnefningar þeirra sem sýna áhuga á vinnu koma frá þverfaglegu teymi og síðan taka boltann Valur félagsráðgjafi, Hlynur atvinnuráðgjafi og Svanborg Guðmundsdóttir iðjuþjálfi. Viðtöl fara fram og síðan fer Hlynur í að finna vinnu fyrir viðkomandi. Hlynur og hinir í IPS teyminu halda svo áfram að hitta viðkomandi og fylgjast með og eru í góðu sambandi við vinnuveitendurna, sem er mikilvægt.“

Samstarfið við VIRK gengur vel

Þau Nanna og Valur leggja áherslu á að samstarfið við VIRK gangi mjög vel, en það fer nú að miklu leyti fram í samstarfinu við Hlyn. „Hann er okkar stoð og stytta í þessu verkefni og orðinn hluti af starfseminni hér. Fyrst þegar þetta samstarf byrjaði 2012 vorum við með mánaðarlega samráðsfundi. En þeim hefur fækkað eftir að Hlynur tók til starfa við hlið okkar. Hann er tengiliður, kemur hér oft og er í afar góðu sambandi við skjólstæðinga og starfsfólk. Hann hefur líka svolítið aðra sýn en við, horfir ekki eins stíft á einkenni sjúkdómsins. Hann horfir á styrkleikana,“ segir Nanna. Valur getur þess að hann hafi verið í góðu samstarfi við Sveinu Berglindi Jónsdóttur hjá VIRK.

En hvernig gengur skjólstæðingunum að vinna samkvæmt IPS úrræðinu?
„Það gengur vel. Ef eitthvað kemur upp á er haft samband. Ef til dæmis einstaklingur mætir ekki er hringt í hann og ef hann er veikur er látið vita. Boðleiðirnar eru stuttar og það er áhrifaríkt. Væru ekki þessi nánu tengsl þá væri mun líklegra að viðkomandi myndi detta út úr vinnunni,“ segir Nanna.

„Samskiptin við atvinnurekendur hafa verið einstaklega góð. Þeir hafa sýnt gott hjartalag. Þetta samstarf með öðru eykur líkur á því að fólk komist á vinnumarkaðinn og nái bata. Einstaklingum frá Laugarásnum hefur líka verið vel tekið af samstarfsfólki. Móttökurnar hafa verið betri en við bjuggumst við. Gott samstarf við þjónustuna hér hefur gert atvinnurekendur öruggari og auðveldað að finna vinnu fyrir skjólstæðinga í IPS úrræði,“ segir Valur.

Fram kemur að þeir sem eru í IPS meðferðarúrræði vinna hálft starf. „Okkar fólk er flest á endurhæfingarlífeyri og á vinnusamningi frá Tryggingastofnun ríkisins. En stundum er hægt að auka starfshlutfall í allt að 65 prósent starf ef vel gengur. Samstarfið við Tryggingastofnun hefur verið farsælt. Þegar fólk kemst í vinnu verður það oft tilbúnara til að takast á við sjúkdóminn sinn. Sjálfstraust þess eykst og það tekur meðferðinni betur. Við höfum mörg góð dæmi um þetta. Rútínan hjálpar til og áhuginn á að vera í eins góðu formi og unnt er verður meiri. Þeir sem hafa verið í neyslu draga úr henni og jafnvel hætta henni alveg. Lyfjagjöfin er litin jákvæðari augum og þannig mætti fleira telja,“ segir Nanna.

Þau Valur og Nanna segja að IPS úrræðið hafi spurst vel út meðal skjólstæðinga Laugaráss, þeir koma og spyrjast fyrir um atvinnumálin, vilja jafnvel komast í vinnu. „Þá útskýrum við IPS starfsendurhæfinguna. Hve sérstakt úrræði þetta er, hve vel það heldur utan um einstaklinginn og að hann megi byrja að vinna í smáum stíl. Þetta gerir fólk tilbúnara í að taka þátt.“

Stefnt að ríkari fjölskylduþátttöku

Kemur fjölskylda viðkomandi inn í þetta ferli?
„Það er eitt af verkefnunum sem við stefnum á og fylgir tryggðarskalanum, að fá fjölskylduna meira inn í þetta verkefni. En það er auðvitað þá gert með leyfi þjónustuþegans. Einn skjólstæðingur fór að vinna fyrir skömmu með góðum stuðningi fjölskyldu og hann lagði áherslu á hve það hefði gert honum gott. Þetta smellpassar við IPS hugmyndafræðina. Gott er að allir hjálpist að. Mikilvægt er að nota stuðningskerfið sem er til og það er fjölskyldan. Hún er náttúrulegra stuðningsnet en við hér í Laugarásnum, sem erum þverfaglegur stuðningur í tiltölulega skamman tíma. Við komum hlutunum af stað en svo viljum við að þróunin haldi áfram,“ segir Nanna.

Hvað getur fólk verið lengi í IPS-verkefni?
„Talað er um að lágmarkið sé eitt ár en geti staðið lengur ef rík ástæða er til. Sumir þurfa alltaf stuðning, en ekki endilega fagfólks, gæti alveg eins verið stuðningur frá ættingjum. IPS-verkefnið byggir á átta grunnþáttum. Einn þeirra er að ef þjónustuþegi mætir ekki í viðtöl til IPS ráðgjafa eigi það ekki að bitna á honum heldur hvetja hann áfram. Ef þjónustuþegi vill skipta um starf eða missir vinnuna þá horfum við á það jákvæða sem gerst hefur í ferlinu, hvað hefur áunnist og nýtum það í áframhaldandi starfsendurhæfingu. Reynum að styrkja jákvæða þætti. Enginn undirbúningsnámskeið fylgja IPS úrræðinu, heldur er farið strax í hraðvirka atvinnuleit. Ef fólk þarf að fara á þung starfsendurhæfingarnámskeið áður en það getur hafið störf getur viljinn til að vinna dofnað,“ segir Valur.

Nanna bendir á að önnur úrræði, þyngri í vöfum, skili fólki ekki betur út á vinnumarkaðinn, „né heldur fá þau fólk til að endast betur í vinnu. Þetta módel, hröð og áhugamiðuð atvinnuleit hefur reynst vel fyrir þá sem eru með alvarlegri geðraskanir. Markmiðið er að fólk komist í vinnu, endist þar og gangi vel,“ segir hún.

Draumurinn um IPS námsendurhæfingu

„Eitt af því sem okkur langar til að gera næst er að nota IPS úrræðið í sambandi við námsendurhæfingu, það er draumurinn,“ segja þau Nanna og Valur. „En þá þyrftu að vera aðeins fleiri í þverfaglega teyminu. Ef við fengjum einn ráðgjafa í viðbót sem myndi sinna skóla- og námsmálum þá myndum við skora hærra á IPS skalanum,“ segir Valur.

„Við erum með þetta bandaríska módel sem aðlagað hefur verið að íslenskum aðstæðum. Við erum ekki að finna upp hjólið. Valur er í samskiptum við Danmörku, þar sem eru stórar rannsóknir í gangi, sem og í Noregi, við lærum af þeim,“ segir Nanna. Valur bætir við að hann hyggi á samstarf við Svía. „Þeir hafa verið lengi með IPS úrræðið og ræða nú hvernig það samrýmist best velferðarsamfélaginu. Við viljum nýta okkur þeirra reynslu og aðlögun þeirra að velferðarkerfi, sem er líkara okkar en það bandaríska.“

Er hægt að nota IPS úrræðið á víðari grundvelli?
„Þetta úrræði er notað við þyngri geðraskanir. Við höfum velt fyrir okkur hvort hægt sé yfirfæra hugmyndafræðina yfir á þunglyndi og kvíða til dæmis.“

En er hægt að nota IPS úrræði á landsbyggðinni?
„Eftir því sem við náum betri tökum á verkefninu opnast fleiri möguleikar. Við gætum til dæmis með tölvufundum sinnt þjónustuþegum og vinnuveitendum á landsbyggðinni. Það er svo ótrúlega margt hægt,“ segir Nanna.

„Almennt hefur þetta gengið vel. Það hafa ekki verið eins margir þröskuldar í veginum og við héldum í upphafi. Þetta fór hægt af stað en gengur nú hraðar. Mestur hluti af þeim fjölda sem hefur komist í vinnu hefur tekist það á síðasta hálfa ári. Þetta er flókin meðferð, en með því að nota tryggðarskalann getum við séð hversu vel okkur gengur að vinna samkvæmt IPS hugmyndafræðinni. Og því nær sem við komumst henni, því betri árangur.“

Eru þið komin með niðurstöður sem þið getið birt?
„Nei, en við erum nú komin með nægilega marga þátttakendur í IPS-verkefninu til þess að geta skráð hve margir fá vinnu og hve lengi þeir endast í henni. Rannsóknir hafa sýnt að 63 prósent eru enn í vinnu eftir 18 mánuði sé þessi hugmyndafræði notuð, á móti 23 prósentum við venjulega starfsendurhæfingu. Tölurnar eru reyndar aðeins lægri í Evrópu en í Bandaríkjunum. Þetta úrræði eykur lífsgæði og fækkar innlagnardögum á sjúkrahús. Yfirbygging er lítil og því er þetta ódýrara úrræði en hefðbundin starfsendurhæfing. Við erum afskaplega ánægð með IPS úrræðið.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2015.


Hafa samband