Fara í efni

Hraustir og ánægðir starfsmenn

Til baka

Hraustir og ánægðir starfsmenn

Marta Sigurðardóttir leikskólastjóri á leikskólanum Kirkjubóli

Leikskólinn Kirkjuból er staðsettur á fallegum og friðsælum stað í Garðabæ. Eftir að hafa skoðað húsakynni, séð glatt og ánægt starfsfólk á kaffistofunni og litið út, þar sem börnin voru í frjálslegum leik á skólalóðinni lá leiðin inn á skrifstofu Mörtu Sigurðardóttur leikskólastjóra. Hún hafði forgöngu um að Kirkjuból tók þátt í átaksverkefninu Virkur vinnustaður sem er þróunarverkefni á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.

„Ég var í fríi sumarið 2011 þegar tilboðið frá VIRK var sent í tölvupósti til mín fyrir milligöngu bæjaryfirvalda í Garðabæ. Ég var mjög áhyggjufull yfir að ég væri búin að missa af þessu mjög svo áhugaverða tækifæri en svo var ekki. Sem betur fer.  Ég vildi endilega að leikskólinn Kirkjuból yrði þátttakandi í þessu verkefni,“ segir Marta.

„Þessu átaksverkefni sem sem hófst  haustið 2011 er nú, eftir þriggja ára samstarf við VIRK,  að ljúka hjá okkur með mjög góðum árangri. Við eru ánægð með hvað starfsfólk hér er hraust og fullt af vinnugleði. Á Kirkjubóli dvelja nú í dagvistun sextíu börn og starfsmenn eru sautján. Starfsmannaveltan hér er ekki mikil en í leikskólanum er stór og sterkur kjarni með langan starfsaldur. Oftast er verið að ráða einn til þrjá nýja starfsmenn á ári. Fjöldi starfsmanna fer einkum eftir aldri og aðstæðum barna sem hér dvelja,“ bætir Marta við.

Hefur samstarfið við VIRK skilað árangri?
„Vissulega. Ég er mjög ánægð með að við á Kirkjubóli höfum farið inn í verkefnið Virkur vinnustaður, þróunarverkefni sem VIRK starfsendurhæfingarsjóður hefur boðið fyritækjum og stofnunum upp. Við hér á Kirkjubóli eru einn fimm leikskóla hér í bænum sem tilkynntum í upphafi þátttöku. En einnig eru fleiri  fyrirtæki þátttakendur í þessu verkefni. Við höfum borið saman bækur okkar, auðvitað höfum við ekki öll sömu sögu að segja en þegar við miðlum upplýsingum á milli kemur ýmislegt gott út úr því.  Starfsmenn sem hafa verið með í verkefninu frá upphafi eru meðvitaðir um að það þarf að vera á varðbergi, þarf að kynna nýju starfsfólki starfsmannastefnuna, sem mótuð hefur verið í takt við verkefnið og rifja hana upp með öllu starfsfólki öðru hvoru. Einnig var gerð vinnulýsing um fjarverusamtöl og tekin viðtöl þegar við átti, það hefur reynst vel.“


Komu vel út úr könnun

Breytti þátttaka Kirkjubóls í átaksverkefni VIRK miklu í starfi leikskólans?
„Já. Eftir að samstarfsverkefnið hófst fórum við hér á Kirkjubóli í heilmikla sjálfsskoðun. Allt miðaði að því hvernig við gætum bætt okkur og látið okkur líða betur.  Á starfsmannafundi í upphafi var hópnum skipt í smærri hópa til að vinna með nokkra punkta úr  þarfagreiningunni um vellíðan og streitu. Í framhaldi af því voru sett markmið fyrir árið 2012. Í lok ársins var svo gerð skoðanakönnum meðal starfsmanna um hvernig til hefði tekist. Fólk var sátt. Mér fannst mjög gagnlegt að skoða innra starfið hér hjá okkur. Við fórum vel yfir hvað við vildum hafa að markmiði, en á hverju ári höfum eitt meginþema. Árið 2011 til 2012 var þema skólaársins til dæmis hljómlist. Við komumst að því að við vildum halda inni flestu af því sem við höfðum lagt áherslu á þó við hefðum í upphafi viljað draga aðeins úr umfanginu. 

Mikilsvert var einnig að frá VIRK fengum við fimm góða fyrirlestra á tímabilinu. Einnig verkefni í kringum þá, sem við unnum hér hjá okkur. Þetta hefur skilað okkur góðum árangri þessi þrjú ár sem við höfum verið í samstarfinu. Könnun var gerð á árangri þessa samstarfs og við komum satt að segja glimrandi vel út úr henni og eru mjög stolt af því.“


Flest starfsfólk sjaldan veikt

Hvað kom mikilsverðast fram að þínu mati?
„Sú gleðilega stareynd að starfsfólkið er almennt hraust og er yfirleitt fáa daga veikt á ári. Fyrst voru veikindadagar hér metnir útfrá meðaltalsreglu. En þegar ég fór samkvæmt tilmælum VIRK að greina veikindadaga hvers og eins í starfsmannahópnum, kom í ljós að flestir voru fáa daga ársins veikir. En um 20 prósent starfsmanna áttu flesta veikindadagana. Þetta breytti öllu. Mér varð ljóst að starfsfólkið væri heilsugott yfirleitt. Það besta við þetta samstarf var sem sagt það, að við áttuðum okkur á að það voru ekki eins mikil veikindi hjá starfsfólkinu eins og áður var talið.

Því er ekki að neita að við horfum fram á að starfsmannahópurinn okkar er að eldast og því líklegt að það komi upp að fleiri starfsmenn eigi í langtímaveikindum og stríði við kulnun. En þá er líka mikilvægt að nú hef ég fengið tæki í hendurnar sem hjálpar mér að átta mig á ástandinu og ég get gripið fyrr inn í.  Áður fannst manni að veikindin væru bara örlög sem yrði að sætta sig við. En með þessu samstarfi fékk ég nýja sýn og sem sagt verkfæri til þess að vinna með og taka á þessum vanda.

Árið 2012 er sennilega nokkuð dæmigert starfsár. Þá voru ellefu starfsmenn veikir fimm daga eða færri á árinu. Átta starfsmenn voru með miðlungsveikindi, þar af voru sex þeirra veikir í sex daga. Þrír starfsmenn voru langtímaveikir. Þar af var einn þeirra með langflesta veikindadaga.  Nú gerum við  vinnulýsingu og skoðum ferli veikindadaga. Ef eitthvað svipað kemur upp aftur þá vitum við hvað er er á ferðinni og hvernig á að taka á því.“


Gott starfsfólk fjársjóður

Hvernig tóku starfsmennirnir sem áttu í mestu veikindunum þessu?
„Vel. Þeir fundu að einhver hjálpaði þeim, fundu að þeir voru studdir. Ég bað í framhaldi af færslunum um veikindadaga starfsfólksins tvo einstaklinga um að fara og ræða við lækni. Þá sem mestar höfðu fjarvistirnar.“

Þér hefur ekki dottið í hug, einsog ýmsum stjórnenum nú, að reka þessa starfsmenn sem svo illa mættu?
„Nei alls ekki. Viðkomandi starfsmenn hafa mikla reynslu og gott starfsfólk er mikill fjársjóður. Annar þessara starfsmanna hefur unnið hér í 25 ár. Mér finnst að fólk eigi það besta skilið sem unnið hefur gott starf hjá sama fyrirtæki í svo langan tíma. Því á að styðja það áfram til betri heilsu. Starfsmaðurinn sem oftast hafði verið veikur átti eitt ár í veikindarétt eftir sitt langa starf. Viðkomandi fór í Hveragerði í heilan mánuð og fékk svo ráðgjöf hjá VIRK. Einnig fór starfsmaðurinn á námskeið í núvitund sem gerði gott. Eftir ársleyfi hóf þessi starfmaður vinnu í hálfu starfi og jók svo við sig starfshlutfallið er frá leið. Það tók hann þrjá mánuði að færa sig upp í fullt starf. Þetta hefur allt gengið mjög vel. Ég fylgist í framhaldi af þessu betur með líðan starfsfólksins hér á Kirkjubóli og er tilbúin að grípa inn í ef ég sé að hlutirnir eru að fara á verri veg.“

Hvernig sérðu það?
„Veikindadögum fer þá fjölgandi og starfsmaðurinn sýnir merki þreytu og vanlíðunar. Verður jafnvel stuttur í spuna og  leiður. Þetta hefur vitanlega áhrif á annað starfsfólk og hið innra starf leikskólans. Stundum er fólk tilbúð til að gera eitthvað í sínum málum og stundum ekki. Ég sá fljótlega, eftir að mér varð ljóst samhengið í veikindadögunum, að einkum tveir starfsmenn sýndu glögg merki vanlíðunar. Þegar ég ræddi málið við þá fór annar strax til læknis og í framhaldi af því í veikindaleyfi, sem fyrr kom fram. Hinn taldi í fyrstu ekki ástæðu til læknisheimsóknar. En er frá leið komst hann á þá skoðun að hann þyrfti á aðstoð að halda. Í framhaldi af því fór hann til læknis og niðurstaðan varð að hann var í veikindaleyfi í fimm mánuði, fékk sjúkraþjálfun og ráðgjöf. Það þarf að finna þá starfsmenn sem eiga í langtíma veikindum og þar með fjarvistum og sinna þeim betur. Aðferðir VIRK hjálpa mikið í þessum efnum.“


Fyrirlestrar VIRK fræðandi

Hvað fleira fólst í samstarfinu við VIRK?
„Fyrirlestrarnir fimm frá VIRK reyndust bæði fræðandi og gagnlegir. Fjallað var forvarnir gegn veikindum og kulnun, um líðan starfsmanna almennt og heilsueflingu á vinnustöðum. Þá var rætt um samþættingu vinnu og fjölskyldulífs og áætlanir um endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys. Loks var fjallað um líkamsbeitingu sem er mikilsvert atriði á vinnustað einsog leikskólum. Allt þetta var hluti af þeirri framtíðarsýn VIRK að vinnustaðir á Íslandi leggi áherslu á forvarnir, fjarvistastjórnun og viðbrögðum við skammtíma- og langtímafjarvistum vegna veikinda og slysa, ástundi þar með virka starfsmannastefnu. Einnig að stefna, athafnir og viðhorf á vinnustöðum stuðli að eflingu starfsendurhæfingar og aukinni virkni einstaklinga með skerta starfsgetu. Loks er framtíðarsýn VIRK sú að viðhorf á vinnustöðum geri ráð fyrir að allir hafi hlutverk í atvinnulífinu, þrátt fyrir skerta starfsgetu af ólíkum ástæðum.

Eftir að hafa áttað okkur á hversu heilbrigður starfsmannahópurinn hér er í raun og veru, hefur viðhorf okkar breyst. Við tölum ekki um mikil veikindi þó auðvitað komi uppá, svo sem þegar ganga flensur og margir veikist á svipuðum tíma. Það er eðlilegt. Verkefnið hefur skilað okkur því að fólk hugsar um sig sem heilbrigt og innan leikskólans er unnið út frá heilbrigði, bæði hvað varðar starfsfólk og börnin sem hér dvelja.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir.


Hafa samband