Fara í efni

Hvað getur vinnustaðurinn gert til að auðvelda endurkomu til vinnu?

Til baka

Hvað getur vinnustaðurinn gert til að auðvelda endurkomu til vinnu?

Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri atvinnutengingar hjá VIRK

 

Rannsóknir í gegnum tíðina hafa gefið sterkar vísbendingar um jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan. Það að taka þátt í launaðri vinnu gefur lífinu merkingu. Í vinnu fær fólk tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum hvað varðar félagslegt framlag og öðlast viðurkenningu ásamt því að geta fullnægt ýmsum af okkar grunnþörfum eins og að eiga húsaskjól og að eiga í okkur og á. Atvinnuleysi, á hinn bóginn, tengist ýmsum heilsufarslegum og félagslegum vandamálum, svo sem lélegri líkamlegri heilsu og vanlíðan 1.

Fjarvera frá vinnustaðnum af heilbrigðisástæðum hefur áhrif á ýmsa hagsmunaaðila á mismunandi hátt; vinnuveitendur hafa áhyggjur vegna samdráttar á framleiðni, starfsmenn hafa áhyggjur af heilsu sinni og fjárhagslegu öryggi og félagslega velferðarkerfið hefur áhyggjur af kostnaði. Það hafa því allir áhuga á að koma að úrræðum sem auðvelda starfsmönnum endurkomu til vinnu (ETV).

Síðustu ár hafa rannsóknir bent á mikilvægi vinnustaðarins í árangursríku ETV-ferli 2,3. Þegar vinnustaðurinn er hluti af ferlinu og setur af stað markvissar íhlutanir, þá næst betri árangur hvað varðar ETV en þegar honum er haldið utan við ferlið 2. Vinnustaðir geta komið af stað eða boðið upp á ýmsar áætlanir og vinnulag til að styðja við árangursríka ETV hjá slösuðum eða veikum starfsmönnum sínum. Lykilatriðið er hins vegar að þessar íhlutanir séu fjölþátta inngrip sem taki til samhæfingar á þjónustu, séu heilsumiðuð og bjóði upp á aðlögun á vinnustað til að draga úr fjarveru starfsmanna (mynd 1) 4.

Í leiðbeiningum sem „The Institute for Work & Health“ í Kanada gaf út koma fram hagnýtar lausnir sem vinnustaðurinn getur innleitt til að styðja við ETV hjá starfsmönnum með stoðkerfissjúkdóma og andleg vandamál4. Þessar áætlanir/vinnulag má flokka í þrjá flokka sem lýst er hér fyrir neðan í mynd 2, auk dæma og ráðlegginga um hvernig megi nota þá og útfæra.

Þrátt fyrir að hver áætlun/vinnulag út af fyrir sig hafi kosti, þá er það ljóst, eins og rannsóknir hafa sýnt, að það sem skilar bestum árangri er að samræma áætlanir/vinnulag frá fleirum en einum flokki þegar kemur að áætlun um ETV 2,5. Því þarf að taka ákvörðun um hvaða þætti skal velja úr hverjum flokki fyrir sig þegar einstaklingsmiðuð áætlun um ETV er sett upp. Hér þarf að taka tillit til bæði félagslegra, starfrænna og persónulegra aðstæðna starfsmannsins sem slasaðist eða veiktist, auk þeirra sérstöku aðstæðna sem snúa að vinnustaðnum sjálfum. Markmiðið er að starfsmaður snúi aftur til vinnu á árangursríkan hátt og til þess að svo verði þurfa allir hagsmunaaðilar að koma að ferlinu og styðja starfsmanninn og vinnustaðinn. Leiðbeiningar þessar eru almennar og fyrir alla starfsmenn sem eru að koma aftur til vinnu eftir slys eða veikindi hvort sem um er að ræða stoðkerfissjúkdóma, andleg veikindi eða annað sem hefur valdið því að þeir hafi þurft að fara af vinnustaðnum. Rannsóknir hafa hinsvegar sýnt að mikilvægt er að taka tillit til ástæðna fyrir fjarverunni; sýnt hefur verið fram á að einstaklingar sem eru fjarverandi vegna andlegra veikinda hafa ekki eins jákvæða reynslu af ETV ferlinu eins og starfsmenn með stoðkerfisvandamál 6.

Ástæður fjarveru mikilvægar

Í nýlegri ástralskri rannsókn var starfsmönnum á bótum, sem farið höfðu af vinnumarkaðinum vegna vinnutengdra veikinda eða slysa, fylgt eftir í 12 mánuði 6. Markmið rannsóknarinnar var að skoða muninn á breytanlegum þáttum í ETV-ferlinu (miðlandi þáttum) fyrir þá bótaþega sem voru fjarverandi vegna andlegra veikinda, í samanburði við þá sem voru fjarverandi vegna stoðkerfisvandamála. Ennfremur að ákvarða hvernig áhrif þessir miðlandi þættir höfðu á muninn á varanlegri ETV (hafa unnið í meira en 28 daga) hjá þessum tveim hópum yfir þetta 12 mánaða tímabil. Niðurstöðurnar sýndu að starfsmenn sem voru fjarverandi vegna vinnutengdra andlegra vandamála urðu ekki fyrir jafn jákvæðri reynslu af ETV-ferlinu eins og starfsmenn með stoðkerfisvandamál. Þessi reynsla tengdist einnig lakari niðurstöðum varðandi varanlega ETV fyrstu 8 til 11 mánuði veikindafjarverunnar.

Bótaþegar með stoðkerfisvandamál voru 69% líklegri en þeir sem voru með andleg vandamál að hafa snúið aftur til vinnu á varanlegan máta 2–5 mánuðum eftir veikindin og 24% líklegri 6 mánuðum síðar. Í þriðja viðtalinu, einu ári eftir það fyrsta, var enginn munur á hópunum hvað varðaði endurkomu til vinnu.

Bótaþegar með vinnutengd andleg veikindi upplifðu margvíslegar áskoranir í ferlinu, umfram þær sem bótaþegar fjarverandi vegna vinnutengdra stoðkerfisvandamála upplifðu. Starfsmenn með andleg veikindi fundu fyrir minni jákvæðum viðbrögðum vegna veikindanna frá yfirmanni sínum og samstarfsmönnum, minni líkur voru á að gerð væri áætlun um ETV af ráðgjafa í samráði við vinnustaðinn þeirra, meiri streituvaldandi samskipti voru við umboðsmann bótagreiðanda og það var ólíklegra að þeim væri gefin dagsetning hjá heilsugæslunni varðandi hvenær þeir myndu snúa aftur til vinnu. Á heildina litið tengdust þessir þættir því að minni líkur voru á því að þeir væru enn í vinnu sex mánuðum síðar.

Rannsakendur töldu að það ætti að vera í forgangi að finna leiðir til að draga úr mismuninum á milli þessara tveggja hópa þegar kemur að skipulagningu á ETV6 . Það er mikilvægt að bregðast snemma við því sýnt hefur verið fram á að eftir því sem tíminn líður, því minna máli skiptir það hver ástæða fjarverunnar er. Meiru máli skiptir hvort starfsmaðurinn hafi reynt að komast aftur til vinnu og hversu árangursrík sú tilraun var.

Þrír þættir

Samkvæmt rannsókninni eru það þrír þættir sem geta útskýrt nær allan þann mun sem er á milli þessara tveggja hópa þegar kemur að ETV6: verri andleg heilsa, líklegra að skortur sé á skipulagðri áætlun um ETV eða að boðið sé upp á breytingar á starfsskyldum og lakari viðbrögð yfirmanna gagnvart veikindum starfsmanna.

Hafa má áhrif á þessa þrjá þætti á ýmsa vegu. Mikilvægt er hins vegar að einblína ekki bara á að hafa áhrif á viðbrögð yfirmanna við veikindum starfsmanna sinna því þau eru mjög líklega þegar mótuð af sömu vinnustaðamenningu og hafði þau áhrif á starfsmanninn í byrjun að hann þróaði með sér vinnutengd veikindi6 . Hægt er að bjóða starfsmönnum, þar sem við á, að koma til baka á stigvaxandi máta eftir fjarveru vegna veikinda. Rannsóknir hafa sýnt að möguleikinn á slíkri aðlögun að vinnu gefur þeim tækifæri til að snúa fyrr til baka og getur þannig dregið úr lengd fjarveru vegna veikinda 7,8.

Rannsóknir hafa sýnt að þættir í vinnuumhverfi eins og vaktavinna, vinnuálag og kröfur um vinnuframlag geta haft mikil áhrif á heilsu og líðan starfsmanna 9. Vinnutengdir sjúkdómar valda því að starfsmenn missa daga úr vinnu, aukning er á veikindafjarveru, starfsmenn mæta í vinnu þegar þeir eru veikir og framleiðni minnkar. Þess vegna er mikilvægt fyrir bæði starfsmenn og vinnustaði að unnið sé markvisst að því að bæta vinnuumhverfið sem eflir almenna heilsu starfsmanna. Í nýlegri grein voru ýmsar rannsóknir á inngripum á vinnustað í tengslum við heilsueflandi vinnustaði skoðaðar kerfisbundið og kom þar í ljós nokkuð samræmi á niðurstöðum 3. Niðurstöðurnar bentu til þess að inngrip eins og það að stunda æfingar, þjálfun og fræðsludagskrá sem og notkun vinnuvistfræðilegra skrifborða og stóla gætu dregið úr verkjum og einkennum hjá starfsmönnum sem eru með stoðkerfisvandamál. Aðrar rannsóknir bentu til þess að hugræn atferlismeðferð (e. cognitive-behavioral therapy), núvitundarmiðuð streituminnkun (e. mindfulness-based stress reduction, MBSR) og þjálfun í streitustjórnun í starfi getur dregið marktækt úr streitu á vinnustað.

Fjölþátta inngrip skila besta árangrinum

Þrátt fyrir að höfundar greinarinnar hafi ekki viljað mæla sérstaklega með ákveðnum inngripum eða áætlunum, þar sem ekki væru enn til staðar óyggjandi vísbendingar um ágæti þeirra, þá vildu þeir samt veita almennar ráðleggingar til fyrirtækja (mynd 3) 3. Þeir töldu mikilvægt að fyrirtæki héldu áfram að þróa íhlutanir á vinnustaðnum til að bæta heilsu starfsmanna þar sem það eru til rannsóknir sem benda til þess að ákveðin inngrip geti haft jákvæð áhrif. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að meta áhrif þessara íhlutana með viðurkenndum mælitækjum til að skjalfesta ferlið og árangur.

Að þessu öllu athuguðu, þá virðist það vera fjölþátta inngrip sem skilar besta árangrinum, bæði þegar við skoðum íhlutanir á vinnustað til að byggja upp heilsusamlegan vinnustað og líka þegar við erum að skipuleggja árangursríka ETV hjá starfsmönnum sem hafa verið fjarverandi vegna veikinda. Fyrirtæki sem eru áhugasöm um að aðstoða starfsmenn sína til baka til vinnu á sem áhrifaríkastan hátt þurfa að leggja áherslu á að skipuleggja einstaklingsmiðaðar fjölþátta áætlanir um ETV. Þeir þurfa að leggja áherslu á að vinna gegn mismunun þegar kemur að mismunandi hópum og bregðast snemma við, þ.e. að reyna ETV snemma í ferlinu. Heilsusamlegur vinnustaður spilar án efa mikilvægt hlutverk í því ferli og getur átt þátt í að fyrirbyggja þróun á vinnutengdum sjúkdómum hjá starfmönnum.

Heimildir

  1. Sage D. Unemployment, Wellbeing and the Power of the Work Ethic: Implications for Social Policy. Critical Social Policy, 2019;39(2):205-228
  2. Cullen K L, Irvin E, Collie A, Clay F, et al. Effectiveness of Workplace Interventions in Return-to-Work for Musculoskeletal, Pain-Related and Mental Health Conditions: An Update of the Evidence and Messages for Practitioners. Journal of Occupational Rehabilitation, 2018;28:1-15
  3. Pieper C, Schröer S & Eilerts A-L. Evidence of Workplace Interventions – A Systematic Review of Systematic Revies. International Journal of Environmental Research and Public Health, 2019, 16, 3553. https://doi.org/10.3390/ ijerph16193553
  4. Institute for Work & Health (IWH). Supporting Return to Work Among Employees with Musculoskeletal or Mental Health Conditions: An EvidenceBased Practical Resource. 2018
  5. Cancelliere C, Donovan J, Stochkendahl M J, Biscardi M, et al. Factors Affecting Return to Work After Injury or Illness: Best Evidence Synthesis of Systematic Reviews. Chiropractic & Manual Therapies, 2016;24(1):32
  6. Smith P, LaMontagne A D, Lilley R, HoggJohnson S, Sim M. Are there Differences in the Return to Work Process for WorkRelated Psychological and Musculoskeletal Injuries? A Longitudinal Path Analysis. Social Psychiatry and Psychiatric Epidemiology, 2020. https://doi. org/10.1007/s00127-020-01839-3
  7. Maas E T, Koehoorn M, McLeod C B. Descriptive Epidemiology of Gradual Return to Work for Workers with a WorkAcquired Musculoskeletal Disorder in British Columbia, Canada. Journal of Occupational and Environmental Medicine, 2019;62(2):113-123
  8. Streibelt M, Bürger W, Nieuwenhuijsen K, Bethge M. Effectiveness of Graded Return to Work After Multimodal Rehabilitation in Patients with Mental disorders: A Propensity Score Analysis. Journal of Occupational Rehabilitation, 2018;28:180-189
  9. Theorell T, Hammarström A, Ronsson G, Bendz L T, Grap T, et al. A Systematic Review Including MetaAnalysis of Work Environment and Depressive Symptoms. BMC Public Health, 2015, 15,738. https://doi. org/10.1186/s12889-015-1954-4

Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband