Fara í efni

Fræðsla, forvarnir og heilsuefling

Til baka
Ingibjörg sviðsstjóri kortlagningar og forvarna
Ingibjörg sviðsstjóri kortlagningar og forvarna

Fræðsla, forvarnir og heilsuefling

Forvarnir spila mikilvægt hlutverk í starfi VIRK. Hæst ber verkefnið VelVIRK sem sinnir fræðslu og stuðlar að heilsueflingu á vinnustöðum og hefur vakið marga til umhugsunar um streituvalda.

Í ársbyrjun 2018 var ákveðið að leggja meiri áherslu á forvarnir hjá VIRK og úr varð stórt verkefni sem gengur undir heitinu VelVIRK. „Með forvarnarverkefninu er þess freistað að hafa áhrif á umræðuna í samfélaginu, leggja til fræðslu og verkfæri fyrir starfsmenn og vinnustaði, komast að því hvað sé að valda brottfalli af vinnumarkaði vegna álagstengdra þátta og loks að stuðla að heilsueflingu á vinnustöðum,“ segir Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri kortlagningar og forvarna hjá VIRK. Í stýrihópi verkefnisins sitja, auk framkvæmdastjóra og sérfræðinga VIRK, fulltrúar stærstu stéttarfélaganna, Samtaka atvinnulífsins, félagsmálaráðuneytisins, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins.

Er brjálað að gera?

VelVIRK forvarnarverkefnið er fjórþætt „Í fyrsta lagi voru gerðar auglýsingar til að vekja fólk til umhugsunar um hvort það væri eðlilegt að það væri alltaf „brjálað að gera“. Í öðru lagi má nefna vefsíðuna velvirk.is sem fór í loftið í byrjun desember 2018. Á henni má finna heilmikið efni sem snýr að stuðningi við einstaklinga og stjórnendur fyrirtækja. Haft er að leiðarljósi að efnið sé vandað og sett fram á aðgengilegan hátt auk þess sem við leggjum áherslu á að nýta jákvætt sjónarhorn en ekki vera með hræðsluáróður. Síðan er uppfærð reglulega, til dæmis má finna ráð til starfsmanna og stjórnenda um fjarvinnu í tengslum við ástand sem skapast hefur vegna COVID-19. Í þriðja lagi má nefna rannsókn sem gerð var meðal þeirra sem fengu greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags til að freista þess að finna breytur sem eru öðruvísi hjá þeim sem komast aftur til starfa eftir langvarandi veikindi samanborið við þá sem komast ekki aftur til starfa. Verið er að vinna úr niðurstöðum þessa dagana. Að lokum má nefna verkefnið „Heilsueflandi vinnustaður“ sem er samstarfsverkefni Embættis landlæknis, Vinnueftirlitsins og VIRK. Þau viðmið sem unnið er með í verkefninu ættu að vera orðin aðgengileg fyrir öll fyrirtæki á næsta ári en nú eru 13 vinnustaðir og stofnanir að prufukeyra þau,“ upplýsir Ingibjörg.

Þá hafa verið haldnir nokkrir morgunfundir með fræðslu tengdri vellíðan á vinnustað í tengslum við verkefnið. „Nefna má að á síðasta fundi hélt dr. Christina Maslach fyrirlestur um áhættuþætti kulnunar en hún er einn helsti sérfræðingur heims á því sviði,“ segir Ingibjörg.

Á velvirk.is er tekið fyrir efni sem sýnt hefur verið fram á að hefur áhrif á heilsu okkar og líðan. Rætt er um áhrif svefns og hreyfingar og fjallað um leiðir til að draga mörk á milli vinnu og einkalífs. Einnig er talað um þætti sem geta haft jákvæð áhrif á okkur, svo sem hvíld, að vera úti í náttúrunni, láta heillast, hlæja, leika sér, eiga samskipti, draga úr áreiti, sinna tómstundum og einfalda lífið. Á síðunni má finna greinar um þrautseigju, flæði, orkustjórnun, andlega þreytu, kvíða, uppsafnaða streitu, kulnun, góðverk, samfélagsmiðla og stafræna naumhyggju, svo nokkuð sé nefnt. Ítarlega er fjallað um streitu, kosti hennar og galla og ráð gefin um hvernig stemma má stigu við henni fari hún úr böndunum. Rætt er um stoðkerfið almennt, vanda sem þar getur komið upp og viðbrögð við honum.

Í kaflanum „Leiðtoginn“ sem ætlaður er stjórnendum er fjallað um ólíka stjórnunarhætti og þætti sem vitað er að hafa áhrif á líðan starfsmanna, svo sem viðurkenningu og virðingu, traust, réttlæti, tilgang og merkingu. Rætt er um bókina „Lífshættuleg stjórnun“ eftir Christian Ørsted og um kenningar dr. Christinu Maslach um kulnun á vinnustað. Þá má nefna umfjöllun um fjarvinnu og fjarfundi, mögulegar breytingar í kjölfar faraldursins, streitu stjórnandans, teymisvinnu, opin vinnurými og góðbendingar. Nýlega bættust við viðtöl við stjórnendur sem hafa verið að fara nýjar leiðir á sínum vinnustöðum en fleiri viðtöl bætast við á næstu vikum.

Vinsælt efni á velvirk.is er Streitustiginn sem er að danskri fyrirmynd og getur nýst vel fyrir vinnustaði og einstaklinga til að meta streitu hverju sinni og finna leiðir til að fást við hana ef hún er orðin of mikil. Einnig má nefna Náttúrukortið með 10 hugmyndum að útiveru við flestra hæfi fyrir hvern mánuð ársins.

(Samantekt: María Ammendrup, sérfræðingur hjá VIRK.)

Vekur fólk til umhugsunar

Verkefnið VelVIRK hefur vakið marga til umhugsunar, enda er það þýðingarmikið og getur haft áhrif til hins betra á líf fólks. Sjónvarpsauglýsingarnar vöktu til dæmis mikla eftirtekt en 86% svarenda í könnun sögðust hafa séð þær. „Rúmlega þrír af hverjum fjórum sögðu að þær hefðu vakið sig til umhugsunar um mikilvægi þess að hafa jafnvægi í starfi og einkalífi. Efni bætist við á velvirk.is með jöfnu millibili og hefur það fallið í góðan jarðveg. Samkvæmt skráningu yfir fjölda notenda hverju sinni eru allt frá nokkrum tugum til nokkurra hundraða notenda inni á síðunni hverju sinni. Verið er að vinna úr niðurstöðum rannsóknarinnar sem gerð var. Þær gefa vonandi mikilvægar upplýsingar sem meðal annars er hægt að nýta til áframhaldandi forvarnastarfs.

Áhugi hefur verið meðal fyrirtækja á að taka þátt í verkefninu „Heilsueflandi vinnustaður“ og morgunfundir hafa verið vel sóttir,“ segir Ingibjörg en verkefnið mun halda áfram næstu misserin. „Það gagnast bæði starfsmönnum og stjórnendum en á síðunni velvirk.is má eins og áður segir finna upplýsingar og gagnleg ráð, sem flestir geta nýtt sér, til dæmis þeir sem eru í atvinnuleit en sérstaklega er fjallað um atvinnumissi. Á næsta ári geta allir vinnustaðir nýtt sér viðmiðin í verkefninu „Heilsueflandi vinnustaður“,“ segir Ingibjörg að lokum.

Viðtalið birtist í Endurhæfing - sérblaði Fréttablaðsins 24. september.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband