Fara í efni

Atvinnutenging hjá VIRK

Til baka
Magnús og Líney
Magnús og Líney

Atvinnutenging hjá VIRK

Í upphafi síðasta vetrar setti VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður á fót nýtt þróunarverkefni. Tilgangur þess er að efla samstarf VIRK við fyrirtæki og stofnanir um allt land með það að markmiði að tryggja einstaklingum í starfsendurhæfingu farsæla endurkomu til vinnu. 

Helsta hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkri starfsendurhæfingarþjónustu og er því þróunarverkefnið rökrétt framhald segir Líney Árnadóttir, atvinnulífstengill hjá VIRK. „Verkefnið gengur út á að brúa bilið milli starfsendurhæfingar og vinnumarkaðar. Markmiðið er tvíþætt, annars vegar að auðvelda fólki sem er að ljúka starfsendurhæfingu að finna starf við hæfi. Hins vegar snýst það um að gefa fyrirtækjum kost á að finna hæfan einstakling til starfa og fá um leið fræðslu og stuðning sem miðar að því að tryggja farsæla endurkomu til vinnu. Við veitum því bæði einstaklingum og vinnustöðum sérstakan stuðning til að sem bestur árangur náist.“ 

Til þess að ná þessum markmiðum hafa atvinnulífstenglar VIRK heimsótt fyrirtæki og stofnanir til að leita eftir samstarfi að sögn Magnúsar Smára Snorrasonar, atvinnulífstengils hjá VIRK. „Fyrirtækin undirrita samstarfsyfirlýsingu þar sem tilgreindir eru sérstakir tengiliðir hjá fyrirtækinu og VIRK. Þetta auðveldar öll samskipti þegar atvinnulífstengill VIRK telur sig vera með einstakling sem geti hentað í starf hjá viðkomandi fyrirtæki og svo öfugt. Mikil áhersla er lögð á að miðla réttum einstaklingi á réttan stað.“

Fengið góðar viðtökur

Þeir einstaklingar sem eru í starfsendurhæfingu hjá Virk og eru tilbúnir að mati sérfræðinga til að reyna endurkomu til vinnu njóta þessarar nýju þjónustu segja þau. „Þetta eru einstaklingar með fjölbreytta menntun og starfsreynslu. Við mælum almennt með því að byrjað sé í hlutastarfi fyrstu 4-6 vikurnar og virknin sé aukin jafnt og þétt á þeim tíma þar til því starfshlutfalli er náð sem stefnt er að, eins konar stigvaxandi endurkoma til vinnu. En margir munu líka ráða við fullt starf eftir einhvern tíma,“ bæta þau við. 

Þau segjast hafa fengið mjög góðar viðtökur hjá fyrirtækjum og eru þakklát fyrir þau góðu viðbrögð. „Það er greinilega mikill velvilji hjá fyrirtækjunum og ljóst að þau vilja axla samfélagslega ábyrgð. Nú þegar hafa um 80 fyrirtæki undirritað samstarfsyfirlýsingu en í raun erum við í sambandi við yfir 300 fyrirtæki. Hingað til að hafa ráðningar lukkast vel og hafa bæði fyrirtækin og nýju starfsmennirnir verið mjög ánægð.“ 

Sú þjónusta sem VIRK veitir er víðtæk. „Við bjóðum einstaklingum aðstoð við atvinnuleit og starfsval en margir í þessum sporum standa frammi fyrir því að þurfa að skipta um starfsvettvang. Einnig veitum við stuðning eftir þörfum þegar viðkomandi hefur hafið störf, t.d. með aðkomu að skipulagi, mati á vinnuaðstöðu og úrlausn hindrana.“

Ýmiss konar ágóði 

Fyrirtækjum er á móti boðin aðstoð við að finna hæfan einstakling sem fellur að þeirra þörfum ásamt ráðgjöf um farsæla endurkomu til vinnu og aðlögun á vinnustað þegar við á. „Ágóði fyrirtækja liggur ekki einungis í verðmætum starfsmanni heldur líka í þekkingu á leiðum til að styðja fólk til starfa á ný eftir veikindi eða slys.“ 

Ýmsu er þó hægt að breyta til að auðvelda fólki með skerta starfsgetu endurkomu til vinnu. „Þrátt fyrir frábærar viðtökur er mikilvægt að vinnumarkaðurinn og fyrirtækin hugi betur að möguleikum á sveigjanlegri vinnutíma og mismunandi starfshlutfalli ásamt vönduðum leiðum til að taka við fólki eftir veikindi eða slys. Þannig geta þau mætt mismunandi þörfum einstaklinga. Það er nefnilega allra ávinningur að gera fólki kleift að nýta krafta sína og vera virkir einstaklingar á vinnumarkaði en þar verður hlutverk fyrirtækjanna seint ofmetið. Við erum því afar þakklát þeim sem hafa tekið þátt í þessu verkefni með okkur og vitum að þeim á eftir að fjölga svo um munar.“

Viðtalið birtist í Fréttablaðinu 24. október 2017.

Sjá meira hér: VIRK Atvinnutenging og hér.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband