Fara í efni
Til baka

Mikilvægt að vinna með langtímaafleiðingar COVID19

Mikilvægt að vinna með langtímaafleiðingar COVID19

Að okkar mati þarf að draga úr fjarúrræðum í ljósi þess að fólk hefur einangrast. Fjarúrræði henta vel þar sem fjarlægðir eru miklar og úrræði ekki til staðar en ef aðstæður eru þannig að fólk geti mætt þá teljum við það árangursríkara.

Þjónustuaðila hafa eins og VIRK þurft að aðlaga starfsemi sína að breyttum aðstæðum vegna COVID19. Við tókum þau tali og lögðum fyrir þau nokkrar spurningar.

  • Hafa þarfir einstaklinga í þjónustu verið aðrar s.l tvö ár og þá hvernig?
  • Sjáið þið fyrir ykkur einhverjar áherslubreytingar varðandi þjónustuframboð í kjölfar Covid19?
  • Hvaða þættir eru það sem skipta máli varðandi farsælt samstarf við VIRK?

Sandra Guðmundsdóttir forstöðumaður Birta Starfsendurhæfing Suðurlands

Síðastliðin tvö ár hefur verið algengt að einstaklingar hafi þurft lengri tíma í endurhæfingu þar sem ekki hefur verið hægt að beita úrræðum að fullu vegna áhrifa samkomutakmarkana sem hafa verið mismunandi á hverjum tíma. Við höfum mætt einstaklingum með fjarþjónustu og leitað leiða til að auka framboð á úrræðum í fjarþjónustu.

Nú í lok faraldursins skynjum við þreytu hjá einstaklingum á fjarþjónustu. Við höfum fundið fyrir því að einstaklingar hafi þurft meiri stuðning sl. tvö ár og við höfum þurft að sýna meiri sveigjanleika. Það hefur verið meira um vanlíðan hjá fólki og meiri vanvirkni á tímabilinu. Margir hafa verið að glíma við hræðslu vegna Covid19 sjúkdómsins. Það hefur verið meiri þörf á sálfræðiviðtölum og stuðningsviðtölum hjá ráðgjöfum.

Við hjá Birtu starfsendurhæfingu teljum mikilvægt að vinna með félagslegar og andlegar langtímaafleiðingar Covid, vanlíðan, kvíði og einmannaleiki hefur t.d. aukist mikið sl. 2 ár. Hjá Birtu er boðið upp á heildstætt starfsendurhæfingarúrræði þar sem lögð er áhersla á þverfaglega nálgun og fjölbreytt úrræði.

Við teljum mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á félagslega- og andlega þáttinn og skapa aðstæður þar sem einstaklingar geta verið í samvistum við aðra og fengið tækifæri til að kynnast öðru fólki. Sl. 2 ár hefur fólk verið meira heima, það hafa verið færri möguleikar til að hitta fólk og minna um félagsstarf. Sumir þurfa tækifæri og aðstæður til að efla félagsfærni sína.

Við teljum að það þurfi að huga sérstaklega að úrræðum fyrir ungt fólk sem Covid hefur haft einna mest áhrif á. Sérstaklega þann hóp sem hefur hætt í námi og er ekki á vinnumarkaði. Við teljum einnig að það þurfi að leggja meiri áherslu á að vinna með félagskvíða, sem hefur fengið að blómstra í Covid.

Að okkar mati þarf að draga úr fjarúrræðum í ljósi þess að fólk hefur einangrast. Fjarúrræði henta vel þar sem fjarlægðir eru miklar og úrræði ekki til staðar en ef aðstæður eru þannig að fólk geti mætt þá teljum við það árangursríkara. Sumir þurfa aukinn stuðning til að geta mætt og því þarf að mæta. Að okkar mati skiptir mestu máli að eiga samtal og samráð og vera í góðri samvinnu við ráðgjafa og sérfræðinga VIRK í málum þjónustuþega.

Við búum svo vel að því hér á Suðurlandi að hafa átt í áralöngu og góðu samstarfi við ráðgjafa VIRK á Suðurlandi og sérfræðinga sem starfa í Reykjavík. Það skiptir miklu máli að það sé traust á milli aðila og virðing fyrir störfum hvors annars. Einnig að það sé til staðar sveigjanleiki, góð aðlögunarfærni og upplýsingaflæði sé gott.

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022

Texti: Anna Lóa Ólafsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband