Fara í efni

Inntökuteymi

Inntökuteymi VIRK er þverfaglegt teymi sérfræðinga VIRK sem vinnur í samstarfi við lækni VIRK, stjórnendur og lögfræðing VIRK.

Hlutverk inntökuteymisins er að leggja mat á það hvort einstaklingar eigi erindi í starfsendurhæfingu hjá VIRK, hvort þeir uppfylli nauðsynleg skilyrði samkvæmt beiðni læknis og svörum við spurningalista sem einstaklingarnir svara inn á „Mínum síðum“ á virk.is.

Ef upplýsingar í beiðni gefa ekki fullnægjandi mynd af málinu er stundum hringt í tilvísandi lækni. Stundum er hringt í einstaklinginn, hann boðaður á fund fagfólks inntökuteymis eða óskað eftir mati hjá fagaðilum á vegum VIRK, t.d. lækni, sálfræðingi eða sjúkraþjálfara, til að meta styrkleika og hindranir einstaklings með tilliti til atvinnuþátttöku, sem og hvort starfsendurhæfing sé raunhæf. Í mati kemur fram hver áherslan í starfsendurhæfingu viðkomandi einstaklings skuli vera ef hún er talin raunhæf.

Ákvarðanataka inntökuteymisins grundvallast þannig á eftirtöldum gögnum; greiningum heilsubrests í beiðni, upplýsingum í beiðni, svörum einstaklings á spurningalista á Mínum síðum og inntöku- og frávísunarviðmiðum VIRK - sjá nánar um rétt til þjónustu hjá VIRK og helstu ástæður frávísana hér.

Uppfylli einstaklingur skilyrðin er honum vísað í starfsendurhæfingarþjónustu út frá stéttarfélagsaðild og/eða búsetu. Inntökuteymið kemur þá með tillögur að áherslum í starfsendurhæfingu auk þess að áætla tímalengd viðkomandi þjónustuþega í þjónustu. Þjónustuþeginn er hvattur til virkni á biðtímanum fram að fyrsta viðtali með starfsendurhæfingarráðgjafa VIRK sem staðsettir eru hjá stéttarfélögum.

Ef beiðnum um þjónustu VIRK er vísað frá eru settar fram tillögur um hvert best er að leita aðstoðar, fyrst starfsendurhæfing sé ekki talin viðeigandi á þeim tímapunkti sem ákvörðun er tekin. Mikilvægt er að halda því til haga að ekki er þörf á aðkomu VIRK til að gera endurhæfingaráætlun og sækja um endurhæfingarlífeyri og hefur VIRK verið í samstarfi við TR um að leiðrétta þann algenga misskilning.

VIRK leggur áherslu á samstarf við stofnanir velferðarkerfisins með það að markmiði að auka þjónustu og árangur einstaklinga í starfsendurhæfingu. Inntökuteymið kemur þannig að samráðsfundum með stofnunum velferðarkerfisins, t.d. heilsugæslustöðvum, endurhæfingarstofnunum, stofnunum sem sinna geðheilbrigðisþjónustu, Vinnumálastofnun og fleiri aðilum. Loks kemur inntökuteymið að ýmsum þróunarverkefnum hjá VIRK.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband