Fara í efni

Styrkir VIRK haustið 2016

Til baka
Fulltrúar Hlutverkasetursins og Vigdís
Fulltrúar Hlutverkasetursins og Vigdís

Styrkir VIRK haustið 2016

VIRK Starfsendurhæfingasjóður veitti í fyrsta sinn í haust styrki til virkniúrræða sem styðja við og auka árangur í starfsendurhæfingu. Markmið VIRK með styrkveitingunum til virkniúrræðanna er að stuðla að samstarfi við aðila sem veita opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra.

Styrkirnir til virkniúræðanna eru viðbót við styrki sem VIRK hefur veitt til rannsóknarverkefna og uppbyggingar- og þróunarverkefna en VIRK er heimilt samkvæmt lögum 60/2012 að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu m.a. með styrkveitingum.

Framkvæmdastjórn VIRK úthlutar styrkjunum tvisvar á ári að fenginni umsögn sérfræðinga sjóðsins. Alls voru að þessu sinni veittar 8 milljónir í styrki til virkniúrræða og 8 milljónir til rannsóknar- og þróunarverkefna. 

Styrki til virkniúrræða hlutu neðantaldir:

Björgin geðræktarmiðstöð Suðurnesja, Reykjanesbæ
Lykilstarfsemi Bjargarinnar er athvarf með reglubundinni daglegri iðju og félagslegum stuðningi allt þátttakendum að kostnaðarlausu. Þjónustan miðar að því að bæta þjónustu í heimabyggð við einstaklinga sem glíma við geðrænan vanda og til að rjúfa félagslega einangrun.

Grófin geðverndarmiðstöð, Akureyri
Starfsemi Grófarinnar byggir á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta. Markmið Grófarinnar eru m.a. að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata, þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér. 

Hjálpræðisherinn, Hertex, Reykjavík
Hjálpræðisherinn á og rekur Hertex, fata- og nytjamarkað í Reykjavík sem eru tvær verslanir og flokkunarmiðstöð fyrir allan varning sem kemur inn til sölu hjá þeim. Undanfarin ár hafa fjöldi sjálfboðaliða, sem hafa af einhverjum ástæðum ekki getað verið á vinnumarkaði, fengið tækifæri til - sem liður í að byggja einstaklinga upp - að koma og vinna hjá þeim allt frá nokkrum tímum á viku til nokkurra tíma á dag. Sjálfboðaliðunum er einnig boðið upp á sjálfstyrkingarnámskeið þar sem unnið er með persónulega uppbyggingu, fjármálanámskeið, matreiðslunámskeið og fjallað um hollustu og hreyfingu.

Hlutverkasetur, Reykjavík
Hlutverkasetur býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin. Með aukinni félagslegri virkni kemur oft löngun að prófa fyrir sér á vinnumarkaði og þá er fólki beint í Útrás sem er sérverkefni á vegum Hlutverkaseturs. Aðaláherslur verkefnisins er að auka þátttöku fólks með geðrænan vanda, en verkefnið er opið fyrir alla sem hafa löngun að vinna, en hafa ekki náð að tengjast vinnumarkaði af ýmsum orsökum. 

Hugarafl, Reykjavík
Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing. Hugarafl býður upp á opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á  reglulega  viðveru  og  stuðning í  daglegu  lífi, námskeið og virknistarf.
 
Lýðheilsusetrið Ljósbrot, Kópavogi
Lýðheilsusetrið Ljósbrot og starfsemi þess er ætluð ungu fólki, frá aldrinum 18-30 ára, sem glíma við ýmsan vanda s.s. fíknivanda, kvíða, depurð, einmannaleika, fallið úr skóla og starfi. Lýðheilsusetrið býður upp á opið aðgengi og stuðning í daglegu lífi í gegnum samfélagsmiðla auk vikulegra fræðslufunda.

Klúbburinn Geysir, Reykjavík
Allir sem eiga eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða geta orðið félagar í Klúbbnum Geysi. Innan þeirrar hugmyndafræði sem klúbburinn starfar hefur verið þróað atvinnutengt úrræði sem kallast ráðning til reynslu (RTR) sem hjálpa einstaklingum með geðræn vandamál að komast aftur á almennan vinnumarka eftir veikindi.

Geðræktarmiðstöðin Vesturafl, Ísafirði
Vesturafl býður upp á opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á reglulega viðveru og stuðning í daglegu lífi, námskeið og virknistarf. 

Styrki til rannsóknar- og þróunarverkefna hlutu neðantaldir:

Heilsuborg, Reykjavík: Þróunarstyrkur til verkefnisins Baklausnir
Styrkurinn er veittur til þróunar á nýju starfsendurhæfingarúrræði fyrir einstaklinga sem glíma við verki frá hálsi og baki. Úrræðið verður þjónustað af teymi sérfræðinga á ólíkum sviðum; sjúkraþjálfurum, læknum og sálfræðingum. Úrræðið inniheldur viðtöl og mat, einstaklingsþjálfun og hópaþjálfun með sjúkraþjálfara auk fræðslu í hópi. Ákveðið gæðakerfi verður einnig sett upp í kring um úrræðið til að mæla árangur þess.

Landssamtökin Geðhjálp í samvinnu við Námsflokka Reykjavíkurborgar/skóla- og frístundarsvið og velferðarsvið Reykjavíkurborgar: Þróunarstyrkur til verkefnisins Bataskóli
Styrkurinn er veittur til þróunar og undirbúnings bataskóla að breskri fyrirmynd sem mun veita notendum félags- og heilbrigðisþjónustunnar þekkingu/innsæi inn í andleg veikindi af ólíku tagi, hjálpa þeim að draga úr og/eða lifa með einkennunum og taka stjórn á eigin lífi með persónubundin markmið að leiðarljósi. Bataskólinn verður einnig opinn fyrir aðstandendur og fagfólk. Auk VIRK koma fjölmargir aðrar stofnanir s.s.  Landspítalinn og Reykjavíkurborg að þessu verkefni.

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir, Flúðum: Þróunarstyrkur til verkefnisins Að lifa til fulls með geðröskun. Áætlun um bata til betra lífs
Styrkurinn er veittur til þróunar á starfsendurhæfingarúrræði sem byggir á aðferðarfræði sem kallast „WRAP“ meðferðarúrræði sem þróað hefur verið í Bandaríkjunum með ríkulegri aðkomu einstaklinga með geðröskun. Þátttakendur í úrræðinu fá í hendur verkfæri til þess að takast á við erfileika sem hjálpar þeim að ná sér aftur á strik og auðveldar þeim þannig að komast aftur út í lífið í vinnu eða nám.

Hugarafl, Reykjavík: Rannsóknastyrkur til verkefnisins Rannsókn á starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu vegna geðrænna sjúkdóma og/eða áfalla og þurfa langan tíma og öflugt utanumhald til endurhæfingar.
Styrkurinn er veittur til rannsóknar á árangri þjónustunnar sem veitt er hjá Hugarafli og persónulegum árangri þátttakenda í henni sem getur orðið mikilvægt innlegg í framtíðarþróun á starfsendurhæfingarúrræði hjá Hugarafli.

Hjálparstarf kirkjunnar, Reykjavík: Þróunarstyrkur til verkefnisins Virkni og vellíðan – Taktu ábyrgð á eigin lífi
Styrkurinn er veittur til þróunar á tilraunaverkefni sem sniðið er að þörfum ákveðins hóps eða tekjulágum einstæðum mæðrum sem búa við örorku og eru með unglinga á heimilinu. Unnið verður út frá einstaklingsmiðuðum markmiðum, komið auga á lausnir og gerð áætlun.

Framkvæmdastjórn VIRK úthlutar styrkjum tvisvar á ári, að hausti og vori, og umsóknarfrestur vegna styrkveitinga vorið 2017 rennur út 15. janúar 2017. Nánari upplýsingar, stefnur og reglur varðandi umsóknir á styrkjum til VIRK og umsóknareyðublöð má sjá hér.


Fréttir

29.01.2024
23.01.2024

Hafa samband