Fara í efni

Hvað er starfsendurhæfing?

Til baka

Hvað er starfsendurhæfing?

Starfsendurhæfing hefur verið skilgreind sem allt það sem hjálpar einstaklingi með heilsubrest að vera í vinnu, komast aftur til vinnu og haldast í vinnu. Þetta er hugmyndafræði og aðferð ekki síður en meðferð eða þjónusta. Út frá þessari skilgreiningu má sjá að um mjög vítt hugtak er að ræða þar sem margir aðilar þurfa að koma að starfsendurhæfingarferli einstaklinga, bæði innan heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins og atvinnulífsins auk sérhæfðra aðila í starfsendurhæfingu, fjölskyldna og vina. Allir þessir aðilar hafa mikil áhrif á þetta ferli þar sem markmiðið er að aðstoða einstaklinga til sjálfshjálpar og endurkomu til vinnu í kjölfar heilsubrests (Waddell og félagar, 2008).

Á Íslandi hafa nokkur hugtök verið notuð sem snerta ferli starfsendurhæfingar, en mörg hver eru þó af svipuðum meiði. Það er t.d. víðtæk sátt um það að aðalmarkmið endurhæfingar sé að bæta færni einstaklings og á sama tíma vinna á hindrunum sem heilsubrestur veldur (Félagsmálaráðuneytið, 2009). Læknisfræðileg endurhæfing hefur verið skilgreind sem endurhæfing sem miðar að því að draga úr skerðingu og fötlun af völdum sjúkdóma og slysa þar sem saman fara félagslegar, læknisfræðilegar, sálfræðilegar og tæknilegar úrlausnir, sem miða að því að einstaklingurinn nái mestri mögulegri færni, samfélagsþátttöku og lífsgæðum og viðhaldi þeim. Í starfsendurhæfingu er starf aðalmarkmið endurhæfingarinnar. Starf vísar hér til félagsstarfs, heimilisstarfa og launaðs starfs eða atvinnu. Atvinnuleg endurhæfing hefur hinsvegar verið skilgreind sem endurhæfing þar sem launað starf eða atvinnuþátttaka er markmið.

Í lokaskýrslu starfshóps um starfsendurhæfingu á Íslandi var hugtakið starfsendurhæfing hins vegar notað í samræmi við skilgreininguna á hugtakinu atvinnuleg endurhæfing hér að ofan og má því segja að ákveðin hefð hafi skapast fyrir þeirri orðanotkun hér á landi (Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið, 2005). Hérlendis hafa menn þannig notað ólík hugtök yfir ýmsa þjónustu á sviði starfsendurhæfingar og það getur valdið erfiðleikum í samskiptum milli ólíkra fagaðila. Þetta verður ekki leyst í þessari grein en hins vegar er mikilvægt að koma því á framfæri hvernig VIRK skilgreinir þjónustu sína í starfsendurhæfingu. Starfsendurhæfing hjá VIRK er skilgreind á eftirfarandi máta þar sem byggt er meðal annars á skilgreiningu WHO frá árinu 2010:

„Starfsendurhæfing er ferli sem felur í sér stuðning við einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa í þeim tilgangi að auka starfsgetu, viðhalda henni og stuðla að endurkomu til vinnu. Í starfsendurhæfingu er unnið með styrkleika einstaklingsins samhliða því að lögð er áhersla á að draga úr áhrifum hindrana sem skerða starfsgetu."

Til að aðgreina starfsendurhæfingu frá annars konar endurhæfingu, eins og hún er skilgreind hér að ofan, má velta því upp hvort hjálplegt sé að nota hugtakið frumendurhæfing. Frumendurhæfing hefur það að markmiði að gera einstaklingi kleift að sinna athöfnum daglegs lífs eða ná hámarksfærni miðað við aðstæður. Félagsleg virkni getur verið hluti af frumendurhæfingu. Frumendurhæfing getur átt sér stað bæði innan heilbrigðisstofnanna og hjá fagaðilum sem sérhæfa sig í þessari tegund endurhæfingar. Starfsendurhæfing er ekki frumendurhæfing en þarf oft að vinna í náinni samvinnu við þá aðila sem henni sinna.

Heimildir

Félagsmálaráðuneytið (2009). Drög að starfshæfnismati. Skoðað á: http://www.velferdarraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Drog_ad_starfshaefnismati06112009.pdf

Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið (2005). Lokaskýrsla starfshóps um starfsendurhæfingu á Íslandi. Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið. Skoðað á: http://www.ll.is/files/bbecdchifd/Skyrsla_um_starfsendurhafingu.pdf

Waddell, Gordon, Burton, A. Kim and Kendall, Nicholas A.S. (2008) Vocational rehabilitation – what works, for whom, and when? Report for the Vocational Rehabilitation Task Group. London:TSO


Fréttir

30.04.2024
30.04.2024

Hafa samband