Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa

Varð aftur sterk og glöð hjá VIRK

Varð aftur sterk og glöð hjá VIRK

„Ég og sambýlismaðurinn minn eignuðumst son þegar ég var 42 ára og svo annan ári síðar. Þetta breytti lífi mínu mjög. Fram að því hafði ég verið sannkallaður vinnualki. Meðgöngurnar voru í lagi en báðir drengirnir voru teknir með bráðakeisara. Í síðari aðgerðinni voru bæði barnið og ég hætt komin – legið hreinlega sprakk.

Ég átti erfitt með að takast á við það að fara að vinna aftur í kjölfar þessara auðvitað gleðilegu en afdrifaríku atburða,“ segir Rósa Huld Sigurðardóttir er hún rifjar upp aðdraganda þess að hún leitaði eftir þjónustu hjá VIRK.

Rósa Huld Sigurðardóttir 

„Ég og sambýlismaðurinn minn eignuðumst son þegar ég var 42 ára og svo annan ári síðar. Þetta breytti lífi mínu mjög. Fram að því hafði ég verið  sannkallaður vinnualki. Meðgöngurnar voru í lagi en báðir drengirnir voru teknir með bráðakeisara. Í síðari aðgerðinni voru bæði barnið og ég hætt komin – legið hreinlega sprakk. Ég átti erfitt með að takast á við það að fara að vinna aftur í kjölfar þessara auðvitað gleðilegu en afdrifaríku atburða,“ segir Rósa Huld Sigurðardóttir er hún rifjar upp aðdraganda þess að hún leitaði eftir þjónustu hjá VIRK.

„Þannig var að rétt eftir að VIRK var stofnað fyrir röskum ellefu árum þá missti ég vinnu vegna veikinda. Ég frétti það í litlu herbergi þar sem VIRK var þá að stíga sín fyrstu spor að ég ætti rétt á aðstoð til að koma mér aftur út á vinnumarkaðinn,“ segir Rósa Huld.

„Það höfðu þá verið erfið veikindi í fjölskyldunni sem ég kom mikið að og tóku verulega á mig. Allt fór vel og þá gafst mér loks tími til að hugsa um sjálfa mig. Ég hafði sett öll mín mál á „pásu“ svo lengi. Þegar ég fór að hugsa um stöðu mín þá hreinlega hrundi heilsan, ég lagðist í þunglyndi og missti vinnu í kjölfar þess. Ég hafði starfað lengi sem þjónn og fékk góðan stuðning frá mínum vinnuveitendum en eigi að síður þurfti ég að hætta.

Ég fór og ræddi við mann hjá Eflingu – eða réttara sagt grét þar og grét og kom varla frá orði. Þessi maður sá að ég gat ekki unnið í þessu ástandi og setti mig í veikindaleyfi sem ég átti rétt á hjá stéttarfélaginu. Eftir það ræddi ég við ráðgjafa hjá VIRK. Ráðgjafinn spurði mig hvort ég væri til í að fara í nám. Ég sagðist ekki geta það af því að ég væri svo heimsk. En ráðgjafinn sagði mér að ég væri ekki heimsk og gæti vel farið að læra. Síðan kynnti hann mig fyrir starfsemi Keilis á Ásbrú og ég fór í nám, háskólabrú. Reyndar átti ég ekki að komast inn, það vantaði talsvert upp á stærðfræðikunnáttuna, en ég talaði mig inn.

Ég lauk náminu og fór í framhaldi af því í Háskóla Íslands og lærði félagsráðgjöf. Námið var mér erfitt, mér gekk vel í verklegum greinum en átti erfiðara með þær bóklegu. Í framhaldi af því ákvað ég að fara í ADHD-greiningu og komst að því að ég er með ADHD og tók lyf sem hjálpuðu mér að einbeita mér. Greiningin sagði mér einnig að ég væri vel yfir meðalgreind.

Um sama leyti og ég lauk BA-náminu varð ég ófrísk og eignaðist fyrri drenginn. Skömmu síðar fluttum við til Hveragerðis og ég varð aftur ófrísk. Eins og fyrr sagði missti ég heilsuna eftir seinni keisaraskurðinn.“

„Auðvitað líður þér betur núna. Líðan þín var í núll prósentum – nú ertu komin upp í tíu – en það er ennþá langt upp í hundrað prósentin. Gefðu þér tíma.“

Hafði svo miklar áhyggjur af því að yngra barnið myndi deyja

Hverskonar heilsubrest glímdir þú við?
„Eins og ég hafði áður lent í lagðist ég í þunglyndi og varð mjög kvíðin. Ég svaf illa. Ég hafði svo miklar áhyggjur af því að yngra barnið myndi deyja. Ég var sífellt að athuga hvort hann andaði. Ég svaraði oft ekki í síma, fór ekki í búðir eða í banka né í önnur slík erindi. Ég gat samt auðveldlega farið í mömmuhópinn minn, hitt konur sem ég þekkti þar og auðvitað fjölskylduna og vini mína. Allt þar fyrir utan var mér nánast ógerlegt.

Ég gat ekki einu sinni hringt og látið vita í bankanum ef ég þurfti að fresta greiðslum vegna húsnæðis eða annarra gjalda. Vandinn varð sífellt meiri og jafnframt óx mér mjög í augum að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Ég kom því ekki heim og saman að hugsa um börnin mín og líka að fara að vinna á einhverjum stað vissan tíma dags. Þetta var allt annað kerfi en ég hafði búið við fram að fæðingu drengjanna. Áður gat ég mætt snemma til vinnu og tekið aukavaktir – gat bara hugsað um sjálfa mig.“

Hvað gerðir þú þá?
„Ég talaði við heimilislækninn minn og spurði út í VIRK vegna minnar góðu fyrri reynslu af því starfi. Hann sótti um fyrir mig hjá VIRK en ég þurfti að bíða í næstum hálft ár eftir svari. Þetta gerist í byrjun árs 2018 að loknu fæðingarorlofi.

Ég hringdi nokkrum sinnum í VIRK og fékk loks að vita að beiðni mín hefði verið samþykkt fyrir nokkrum mánuðum en nokkuð löng bið væri eftir viðtali við ráðgjafa. Þær fréttir að beiðnin hefði verið samþykkt voru sannarlega kærkomnar, ég hafði verið svo kvíðin og hrædd um að ég kæmist ekki að.“

Hvað tók þá við?
„Þá fór ég í viðtal hjá ráðgjafa VIRK á Selfossi. Þar endurtók sig sama sagan, ég grét og grét. Bæði af spennufalli og þakklæti. Mér leið svo vel eftir þetta fyrsta viðtal að næst þegar ég hitti ráðgjafann þá sagði ég honum að mér fyndist ég bara orðin góð, þyrfti sennilega enga þjónustu. Þá hallaði ráðgjafinn sér fram og sagði: „Auðvitað líður þér betur núna. Líðan þín var í núll prósentum – nú ertu komin upp í tíu – en það er ennþá langt upp í hundrað prósentin. Gefðu þér tíma.“ Þetta leiddi til þess að ég áttaði mig á að ég gæti gefið mér tíma til að batna. Þetta skipti miklu máli, það er svo oft rekið á eftir manni.“

„Í fyrstu var ég dauðhrædd við að fara að vinna utan heimilis, hvað myndi gerast ef það gengi ekki upp. En ráðgjafinn sagði mér að þá myndum við halda áfram að vinna í mínum málum. Ég myndi ekki þurfa að byrja aftur á upphafsreit.“

Enn í áfalli eftir síðari keisaraskurðinn

Hvaða áætlun um endurkomu til vinnu lagðir þú og ráðgjafi VIRK upp með?
„Ég byrjaði á að fá dagtíma á Heilsustofnuninni í Hveragerði, NLFÍ. Fór þar í sundleikfimi, jóga og var hjá sjúkraþjálfara. Einnig hitti ég næringarráðgjafa í Hveragerði og fór til sálfræðings í Reykjavík. Ég hafði fitnað í fyrri meðgöngunni en þau kíló sem ég bætti við mig fóru ekki af mér aftur. Ég var líka mjög orkulaus – ég sem áður hafði gengið á fjöll og hjólað út um allt. Þetta var mér þungbært.“

Hvernig gekk að vinna á þunglyndinu?
„Það gekk vel. Ég fékk lyf og samtalsmeðferð hjá sálfræðingnum. Hann komast að þeirri niðurstöðu að ég væri enn í áfalli eftir síðari bráðakeisaraskurðinn. Með sérstakri aðferð sem heitir EMDR, leið mér eins og sálfræðingurinn hefði tekið heilt fjalla af herðum mér. Mér tókst þá að komast frá því að vera föst í að athuga hvort yngri drengurinn væri dáinn. Með því að losna við þessa áfallastreitu þá gat ég farið að vinna í öðrum málum sem ég þurfti að losa um. Og boltinn fór að rúlla. Þetta var nánast eins og kraftaverk. Ég hefði aldrei trúað að svona tækni gæti lagað líðan mína svona fljótt.“

Hvað varstu lengi í þjónustu hjá VIRK?
„Allt í allt var ég hátt í níu mánuði þar. Ég var í nokkra mánuði í sundleikfiminni og það var yndislegt með öllu „heldra“ fólkinu. Ég prófaði allt sem í boði var, meira að segja kalda pottinn – fyrst bara upp að ökklum og síðar sat ég þar bara með hausinn upp úr. Ég var líka æfingasal þar sem ég gerði æfingar í tækjum undir stjórn sjúkraþjálfara. Allt þetta skilaði mér auknum styrk. Ég léttist svo sem ekki mikið en líðan mín varð bara allt önnur. Ég varð aftur sterk og glöð hjá VIRK.“

Var í fyrstu dauðhrædd við að fara út á vinnumarkaðinn

Hvað með vinnumarkaðinn?
„Ég fór á vegum VIRK í starfsþjálfun á leikskóla í Hveragerði. Byrjaði á nokkrum tímum einu sinni í viku, þetta gekk hægt og rólega. Í lokin var ég farin að vinna flesta daga. Mér bauðst líka önnur vinna á þessum tíma í Hveragarðinum, við ferðaþjónustustörf. Ég tók þeirri vinnu af því að leikskólinn gat ekki boðið mér annað en hundrað prósent starf. Í fyrstu var ég dauðhrædd við að fara að vinna utan heimilis, hvað myndi gerast ef það gengi ekki upp. En ráðgjafinn sagði mér að þá myndum við halda áfram að vinna í mínum málum. Ég myndi ekki þurfa að byrja aftur á upphafsreit.“

Hvernig gekk þér að aðlaga heimilisstörf og uppeldi þessum nýju aðstæðum?
„Mjög vel með allri þessari aðstoð sem ég fékk á vegum VIRK. Strákarnir voru komnir í gæslu, annar á leikskóla og hinn til dagmömmu. Ég lærði að allt ætti sinn tíma. Allt þetta hafði eðlilega reynt mikið á samband okkar foreldranna. Við því var brugðist með stuttri ráðgjöf. Mestu skilaði þó opinská samtöl okkar sambýlinga.

Ég er mjög opin en maki minn er hlédrægari. Hann hefur reynst mér algjör klettur í öllu þessu. Hann reyndi að róa mig þegar ég var ofurseld kvíðanum og reyndi jafnframt taka þetta ekki inn á sig persónulega. Ég gekk stundum nærri honum í þessu erfiða þunglyndis- og kvíðaástandi en hann stóð það af sér. Hann gleður mig, er fyndinn og fallegur og segir öðru hverju: „Sæta, sæta,“ – það hjálpaði mikið. Hann leyfði mér að vera eins og ég er. Sambandið hefur fremur styrkst við þessa reynslu en hitt.“

Fórstu aftur í nám?
„Já, þegar ég var að vinna hjá Hveragarðinum þá sótti ég um að komast í meistaranám í félagsráðgjöf og diplómanám í stjórnsýslu. Ég var samþykkt inn í bæði þessi svið. Ég ákvað að fara í meistaranámið fyrst, tók tveggja ára nám til mastersprófs sem ég átti að ljúka síðasta sumar. En Covid-ástandið og slys sem ég lenti í fyrir ári hafði þær afleiðingar að ég náði ekki að ljúka við meistararitgerð mína. Ég fékk þá árs frest og er nú um þessar mundir að ljúka við ritgerðina sem fjallar um þjónustu við aðstandendur geðfatlaðra.“

„Ég fór á atvinnuleysisbætur og ætlaði að klára ritgerðina en var boðið starf hjá félagsþjónustu austur í sveit sem félagsráðgjafi. Það er gífurleg reynsla eftir að hafa sjálf þurft að nýta úrræði til bata.“

Nýttist best það sem ráðgjafi VIRK sagði

Hvernig er þá staðan hjá núna?
„Ég fór á atvinnuleysisbætur og ætlaði að klára ritgerðina en var boðið starf hjá félagsþjónustu austur í sveit sem félagsráðgjafi. Það er gífurleg reynsla eftir að hafa sjálf þurft að nýta úrræði til bata. Mér finnst oft að ráðgjafinn sem ég talaði í upphafi þjónustu hjá VIRK, sá sem kom mér á þá skoðun að ég væri ekki heimsk, hafi haft þau áhrif á mig að ég ákvað að fara í nám í félagsráðgjöf.

Ég hafði verið með félagsfælni en er laus við hana núna. Sjálfsmynd mín var í molum þegar ég hóf námið hjá Keili en hún hefur stórbatnað. Áður vissi ég alltaf hvernig skóm fólk gekk í – ég leit nefnilega ekki mikið hærra en það. Nú veit ég frekar hvernig augnlitur fólks er sem ég hef talað við.

Ég útskrifaðist frá VIRK vorið 2019 þegar ég fór aftur út á vinnumarkaðinn hjá Hveragarðinum. Síðan hefur mér liðið vel nema auðvitað hefur ástandið vegna Covid-19 tekið á mig eins og aðra. Ég þarf svo mikið að vera í kringum fólk. Ég er mjög ánægð með starf mitt í félagsþjónustunni. Ég hef í hyggju að fá launalaust leyfi til að ljúka starfsréttindum sem félagsráðgjafi og ætla svo að snúa aftur til starfa fyrir austan. Ég er enn í jóga og fer oft í sund. Ég hef líka nýtt mér eftir þörfum sjúkraþjálfun til að heilsunni í lagi.“

Hvað nýttist þér best í þjónustunni hjá VIRK?
„Þessi setning: „Þú ert ekki heimsk“ – og líka setningin: „Líðan þín var í núll prósentum – nú ertu komin upp í tíu – en það er ennþá langt upp í hundrað prósentin. Gefðu þér tíma.“ – Það var svo gott að átta sig á að maður þarf tíma til að vinna úr málum og vera ekki sem sektarkennd yfir því. Það er of mikið um það í samfélaginu og jafnvel hjá heilsustofnunum að ýtt sé óþægilega á eftir fólki.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband