Fara í efni

Leið eins og mölbrotnum vasa

Til baka

Leið eins og mölbrotnum vasa

Helga Björk Jónsdóttir djákni

„Skólabókardæmi um kulnun“ heitir viðtal sem Helga Björk Jónsdóttir djákni las á vefsíðu VIRK um reynslu konu sem hafði verið í samstarfi við VIRK. „Ég vistaði slóðina og þetta viðtal breytti öllu hjá mér. Ég las það aftur og aftur. Alltaf þegar ég var að því komin að gefast upp þá fletti ég upp á viðtalinu og las það enn á ný og fékk aftur kjark til að halda áfram,“ segir Helga Björk sem lokið hefur samstarfi við VIRK, er komin í draumastarfið og hefur náð miklum bata.

„Ég beinlínis hengdi mig í þetta viðtal, ef svo má segja. Þessi kona fór of snemma að vinna og það hefur verið leiðarljósið í mínu bataferli – að fara varlega af stað. Svona mikilvægt getur það verið að segja öðrum reynslu sína,“ segir Helga Björk þar sem við sitjum saman í björtu eldhúsi í fallegu húsi hennar á Álftanesi.

„Ég lærði af reynslu þessarar konu, leit upp til hennar þótt hún væri mér bláókunnug. Ég tengdi við að þetta var vel menntuð kona og klár og hafði allt sem ég hefði haldið að myndi koma í veg fyrir kulnun í starfi – en gerði það ekki.

Fyrir fjórum árum var ég sjálf ótrúlega orkulaus, sofnaði beinlínis þar sem ég stóð. Ég vann sem umsjónarkennari og náði varla heilum tíma í kennslu án þess að „detta út“. Ég dofnaði upp, missti máttinn í líkamanum og fann fyrir óskaplegri þreytu. Ég vissi þá ekki að ég væri með kulnun. Ég hélt að eitthvað miklu hættulegra væri að hrjá mig, kannski æxli við heilann. Ég var hætt að sjá almennilega og þjáðist af minnisleysi. Ég var með dr. Google „á kantinum“ og var í framhaldi af lestri þar búin að fara til margra lækna og í allskonar rannsóknir, meðal annars var skoðað hvort ég væri með MS-sjúkdóm.

Missti minnið á miðjum vegi

Svo var það þegar ég var að aka Álftanesveginn í mars fyrir fimm árum að sú tilfinning helltist yfir mig að ég vissi ekki hvert ég væri að fara, hvar ég væri eða hvert ég ætlaði. Ég stoppaði bílinn og ætlaði að hringja í manninn minn en ég gat ekki opnað símann því ég mundi ekki aðgangsorðið. Þetta er hræðilegasta stund lífs míns. Ég sagði þetta samt engum, ég var þá enn að kenna og ég var hrædd um að missa vinnuna.

Ég hringdi til að melda mig veika. Daginn eftir hafði skólastjórinn samband og sagði mér að ákveðið hefði verið að ég færi í frí – búið væri að ráða nýjan kennara fyrir mig. Ég varð fjúkandi reið og fékk mikla höfnunartilfinningu. Mér fannst samstarfsfólkið hafa brugðist mér. Ég fékk í framhaldi af þessu mikinn heilsukvíða, las um hvern og einn sjúkdóm sem ég heyrði af og taldi mig hafa þá alla. Þetta var ömurlegur tími. Þremur vikum eftir að ég hætti að kenna fann ég að ég myndi ekki geta kennt framar.

Alvarleg lyfjaeitrun

Ég hélt áfram að fara til lækna. Einn þeirra var Hallgrímur heitinn Magnússon. Hann hlustaði á mig og reyndi að hjálpa mér. En það dugði ekki. Þar sem ekkert kom í ljós við allar læknisrannsóknirnar sem ég var í fram á sumar var ákveðið að ég færi til geðlæknis.

Ég var sett á lyf við geðhvörfum. Ég gat alveg mátað mig við maníuna en ég kannaðist ekki við neitt þunglyndi. Fyrra lyfið sem ég fékk olli svo miklum taugakippum að ég hætti fljótlega á því. Þá fékk ég annað og vægara lyf. Ég átti að taka það í hálfan mánuð án þess að kvarta yfir aukaverkunum, það tekur þann tíma fyrir lyfið að fara að virka.

Á þessum fjórtán dögum fékk ég flensu að ég hélt. Varð alveg óskaplega lasin. Ég fékk svo mikinn höfuðverk og var farin að æla þannig að ég fór upp á bráðadeild Landspítala. Ég var rannsökuð. Í ljós koma ég væri með sýkingu en svo var ég send heim og sögð vera með flensu. Ég nefndi lyfið sem ég var á en var sagt að ekki gæti verið að þetta væri aukaverkun þess. Heima varð ég enn veikari og hélt áfram að taka lyfið, orðin fársjúk með yfir fjörutíu stiga hita. Þá fór ég aftur á bráðadeildina og var aftur send heim. Í þriðja skiptið fór ég enn á bráðdeildina. Þá var hringt út til Svíþjóðar og þar upplýstist að þetta lyf gæti verið orsök veikinda minna. Ég var komin með heilahimnubólgu og lifrarbólgu.

Ákvað fárveik að fara í guðfræði

Þar sem ég lá þarna við dauðans dyr kom til mín sú ákvörðun, sem átti sér aðdraganda frá yngri árum, að fara í guðfræði. Ég fékk móteitur gegn lyfinu og næstu dagar liðu í móðu. Ég var reið yfir að hafa verið svona oft send heim og að ekki hefði verið tekin blóðprufa hjá mér strax. Biturleikinn læstist um mig en ég ákvað að leyfa honum ekki að heltaka mig heldur skrifaði mig frá þessu þegar heim kom. Það er mín aðferð. Þegar ég lagaðist fór ég í jóga sem hjálpaði mér talsvert.

Ég hafði áður skráð mig fjórum sinnum í guðfræði en þegar til kom fór ég ævinlega í allt annað nám. Nú ákvað ég að láta á þetta reyna og skráði mig enn á ný í guðfræðina og í tvennt annað til öryggis. Ég vissi að ég gæti ekki kennt og yrði að finna mér eitthvað annað. Í guðfræðina fór ég, minnislaus, nánast sjónlaus og orkulaus með húðblæðingar og leit út eins og „vafasöm kona“. En það hvarflaði ekki að mér að gefast upp. Í mér býr seigla sem varð til þess að ég skráði mig ekki í veikindaleyfi heldur fór í nám. Ég gat heldur ekki hugsað mér að þurfa að segja við fólk sem spyrði, að ég væri veik heima. Það gat ég ekki – heldur vildi ég fara í nám. En vegna námsins fékk ég ekki inni hjá VIRK þótt ég leitaði eftir aðstoð þar á þeim tíma.

Ég kynntist frábærum konum í guðfræðideildinni sem hjálpuðu mér að læra, lásu fyrir mig því ég gat ekki lesið eftir heilahimnubólguna. Ég bað um að fá að taka próf heima en fékk synjun. Þá sagði ég við Guð: „Ég trúi því ekki að guðfræðinámið stoppi hér.“ Svo lagðist ég upp í rúm en eftir hálftíma fannst mér að ég ætti að lesa Síðari Konungabók í Biblíunni. Letrið var smátt en ég las það eins og það hefði aldrei neitt komið fyrir mig. Þetta efni kom á prófinu og ég fékk 8,5. Eftir það gat ég lesið aftur en mér gekk illa að muna. Ég hélt áfram í náminu. Mér hafði verið vísað á Reykjalund og fékk þar inni en frestaði að fara þangað fram á vor. Ég hætti öllu nema að læra, sinna heimili og sofa. Ég á þrjú börn og þetta eru ekki stoltustu foreldraár mín – ég átti ekki neinn yfirdrátt í orku. Það bjargaði miklu að ég á frábæran mann sem studdi mig með ráðum og dáð. Ég komst í gegnum námið með því að sofa hverja stund sem ég gat.

Hafði fyrst fordóma gagnvart VIRK

Á Reykjalundi áttaði ég mig svo á að ég væri með kulnun. Það gerðist þegar ég las viðtalið sem ég sagði frá í upphafi. Heimilislæknirinn minn hafði samráð við geðsvið Reykjalundar og sagði svo við mig: „Nú viljum við að þú leitir samstarfs við VIRK.“ Ég var ekki hrifin, hafði fordóma og sagði við sjálfa mig að ég ætlaði ekki að láta einhver samtök stoppa mig í lífinu. Ég var illa komin og afar óróleg innra með mér svo ég lét mér þetta að kenningu verða og ræddi við ráðgjafa Kennarasambands Íslands hjá VIRK. Í framhaldi af því fékk ég endurhæfingarlífeyri sem greiddur var frá því ég sótti um meðan ég enn var á Reykjalundi.

Á Reykjalundi var mér uppálagt að gera lítið og njóta þess. Mér fannst það erfitt, ég var vön að vinna hratt og mikið. Ég fór í tíma í núvitund og leið óþægilega fyrstu tíu tímana. Nú legg ég hins vegar áherslu á að lifa í núinu. Ég bjó heima meðan á endurhæfingunni á Reykjalundi stóð, ók uppeftir á morgnana og svo heimleiðis aftur síðla dags. Nú þegar ég hugsa til baka finnst mér dvölin á Reykjalundi hafa verið hrein paradís.

Þegar ég svo fór í samstarfið við VIRK hafði ég ráðið mig til að kenna tvö námskeið, annað í myndlist fyrir ungmenni og hitt var foreldramorgnar hjá Vídalínskirkju. Ég hafði unnið þar áður í æskulýðsstarfi. Ég gat ekki hugsað mér að vera verklaus. VIRK samþykkti að ég ynni tuttugu og fimm prósent vinnu. Ég sagði eins og var að ég gæti ekki sagt við fólk að ég væri ekki að gera neitt. Ég vildi alls ekki segja að ég væri í samstarfi við VIRK. Slíkir voru fordómar mínir.

Logandi hrædd við dáleiðslu

Ég var orðin sterkari líkamlega eftir dvölina á Reykjalundi þegar ég fór í samstarfið við VIRK. Ég fann strax og ég settist inn hjá ráðgjafanum að þarna var ég komin til manneskju sem bar virðingu fyrir mér. Hún talaði við mig sem jafningja – ég sem hafði ímyndað mér að ég yrði þarna í einhverju aumingjahlutverki. Ég man að mér fannst í biðstofunni að ég væri komin á endapunkt. Ég vissi ekkert um VIRK á þessum tímapunkti annað en að þar væru einhver úrræði, svo sem leikfimi og eitthvað slíkt og ég ætti að vera með fólki sem væri lasið.

Ráðgjafinn fór með mér í gegnum sögu mína og ég sá að honum þótti nóg um. Í sameiningu ákváðum við að ég færi til sálfræðings í tíu tíma til að byrja með. Ég fékk tíma hjá sjúkraþjálfara, var send í vatnshlaup í Hafnarfirði og svo fór ég í dáleiðslu. Ég var nú logandi hrædd við að prófa það. En hjúkrunarfræðingurinn sem dáleiddi mig útskýrði vel fyrir mér hvaða árangri þetta ætti að skila. Ég fór þrisvar í dáleiðslutíma og við það var líkaminn „endurstilltur“ – ef svo má segja. Honum var kennt upp á nýtt að slaka á. Við þetta náði ég loks djúpri slökun án þess að vera að drepast úr þreytu. Einnig fékk ég disk með æfingum sem ég nota ennþá. Þessi dáleiðsla gerði kraftaverk fyrir mig. Sálfræðingnum á ég svo beinlínis líf mitt að launa. Eftir tíu tímana var ákveðið að ég héldi áfram hjá honum og ég er enn hjá honum. Hann kenndi mér að bera virðingu fyrir hver ég er og hjálpaði mér að endurraða mér. Ég orða þetta gjarnan þannig að ég fór til sálfræðingsins eins og mölbrotinn vasi. Ég vissi að ég átti möguleika á að „raða mér saman“. Ég vissi bara ekki hvernig. Ég skrifaði pistil um þetta sem margir deildu á Facebook. Lýsti mér eins og vasa sem stæði framarlega í hillu. Ég hafði alltaf lifað hratt og gert allt hratt. Ég var á þeim stað í hillunni að vel gat eitthvað gerst sem myndi ýta mér fram af henni. Það gerðist.

Samstarfið við VIRK var gjöf

Í endurhæfingunni í tengslum við VIRK hitti ég fólk sem hafði „brotnað“ en var að „raða sér saman“ aftur. Ég „hengdi mig“ á þá sem voru jákvæðir. Ég vissi að ég átti bara orku fyrir fáa og ákvað að eyða henni bara í þá sem voru á leið til bata. Hinir, sem drógu úr mér, voru ekki heppilegir fyrir mig. Ég hugsaði: „Ég ætla að velja þá sem eru byrjaðir að „raða sér aftur saman“. Það var mitt markmið sem ég stefndi ótrauð að.

Ég sá allt þetta fólk fyrir mér sem vasa sem byrjaður var að raðast upp. Ég áttaði mig líka á að brotin voru ekki galli. Götin sem eftir stóðu, þegar búið var að raða brotunum saman, voru í mínum huga samkenndin, samúðin, skilningurinn og dýptin í mannlegum samskiptum sem maður öðlast við að brotna sjálfur. Ég sá á öðrum að þeir voru ekki ónýtir þótt þeir hefðu brotnað og ég var það heldur ekki sjálf. Ég vissi ekki áður að slíkur samhljómur væri til sem ég fann við þetta.

Því miður hitti ég marga „brotna vasa“ sem höfðu gefist upp og reyndu jafnvel að draga úr mér kjark. Þeir sögðu mér að fara varlega, ekki fara að vinna, ég skyldi fara í örorkumat og þar fram eftir götunum. Ég talaði ekki lengi við slíkt fólk.

Ég lít þannig á að það, að komast í samstarf við VIRK, hafi verið eins og að fá gjöf. Eins og að fá pakka og hver hlutur í pakkanum stendur fyrir verkefni sem maður þarf að leysa. Og allt miðar þetta að því að komast aftur til vinnu.

Markmið mitt var ljóst. Ég ætlaði að byrja rólega og komast í djáknastarf. Ég var komin með embættisgengi en ég vissi að það væri torsótt að fá djáknastöðu. Ég lauk þessu eins árs námi og fékk embættisgengið í framhaldi af því. Mér gekk námið vel og ég trúi því að ég sé kölluð til þessa starfs. Þetta tuttugu og fimm prósent starf nærði mig. Ég gerði allt sem fyrir mig var lagt í endurhæfingunni, hlýddi öllu – nema hvað mér hentuðu ekki hóptímar, ég treysti mér ekki á þeim tímapunkti að hlusta á sögur annarra. Ég fékk í staðinn fleiri sálfræðitíma.“

Sigur að vígjast sem djákni

Veistu af hverju kennarastarfið hitti þig svona illa fyrir?
„Ég held að duglegar konur geri of miklar kröfur til sín. Ég fór fljótt að vinna eftir að yngsta barnið fæddist og var enn með það á brjósti. Ég held líka að ég hafi ekki það sem þarf til að kenna. Ég var ekki kölluð til þess. Í djáknastarfinu hef ég eldmóð sem ég hafði ekki í kennslunni.

Hvernig fór þetta erfiða tímabil þitt með fjölskyldulífið?
„Það er erfitt að segja frá þeirri hlið – samviskubitið sem eftir situr er enn töluvert. Ég viðurkenndi svo seint að ég væri veik. Ég þurfti svo mikið að sofa, ég á sjö ára son og hann man ekki eftir mér öðruvísi en þannig. Samviskubitið er þó að láta undan síga, það var ekki eins og ég hefði verið í einhverju rugli. Ég var bara veik.

Heilsa mín kom hægt til baka með mikilli slökun. Nú lifi ég eins og lítið barn, ég verð að passa að sofa og borða reglulega, þá gengur allt vel. Ég fer minna út að skemmta mér en áður fyrr og ég á erfiðara með að sitja veislur, ég þreytist fljótt í slíku umhverfi. En ég get unnið. Markmið mitt var líka að komast til vinnu en ekki í partý.

Það var mikill sigur þegar ég var vígð í fimmtíu prósent starf sem djákni í Vídalínskirkju þann 25. september 2016. Eftir þessa reynslu mína af kulnun bý ég yfir djúptækri reynslu sem nýtist mér vel í mínu starfi. Ég á líka sterka trú og ég bið oft og mikið. Ég er viss um að allt sem ég hef farið í gegnum geri mig að betri djákna. Eitt af því sem ég skil nú en skildi ekki áður er einmanaleikinn. Ég var oft hræðilega einmana eftir að ég hætti að kenna, fann fyrir nístandi einmanaleika þegar ég átti ekki lengur neinn vinnustað að sækja. Þegar ég hitti einmana fólk veit ég hvernig því líður. Núna hef ég náð þeim árangri að geta verið ein og sækist eftir því. Ég gæti þess vel að vera ein í hálftíma á dag, raða þannig inn í dagbókina mína. Þá stund kyrri ég mig og slaka á. Ég er þakklát VIRK fyrir gjöfina sem ég fékk – þá gjöf að verða aftur virk.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2017

Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.


Hafa samband