Fara í efni

Framtíðarsýn í fyrirrúmi

Til baka

Framtíðarsýn í fyrirrúmi

Ingibjörg Ólafsdóttir ráðgjafi VIRK hjá Eflingu

 

Í móttökunni hjá Eflingu að Guðrúnartúni 1 er ekki margt um manninn. Stúlkan við símann lætur Ingibjörgu Ólafsdóttur, ráðgjafa VIRK, vita að kominn sé gestur til hennar.

Í sófa undir fallegum málverkum í þægilegu andrúmi bíður blaðamaður þar til Ingibjörg kemur fram og fyrr en varir hefst viðtalið í hlýlegu vinnuherbergi hennar. „Hjá Eflingu starfar fjölbreytt teymi," segir Ingibjörg þegar spurt er um menntun og bakgrunn þeirra ráðgjafa VIRK sem starfa hjá Eflingu.

„Sjálf er ég sjúkraþjálfari, hef meistaragráðu í viðskiptafræði og er viðurkenndur bókari. Þetta eru ólíkir heimar en að mörgu leyti góður undirbúningur undir svona starf. Við erum sjö ráðgjafar VIRK sem störfum hjá Eflingu. Við höfum ólíka menntun sem nýtist vel. Í okkar hópi erum við með félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, markþjálfa og sálfræðinga. Þessi fjölbreytni í menntun og reynslu gefur okkur möguleika á bera saman bækurnar og fá ráð hvert hjá öðru án þess þó að rjúfa á nokkurn hátt trúnað við það fólk sem er í samstarfi við okkur."

Hvernig hefjast ráðagerðir með þjónustuþega?
„Komi til dæmis til mín kona sem er orðin ófær um að sinna sínu fyrra stafi, kannski farin að eldast og þreytast, þá förum við í greiningarvinnu. Er konan þannig til heilsunnar að hún þurfi að vera í breytilegri líkamsstöðu? Vill hún vinna á fámennum eða fjölmennum vinnustað, hver er reynsla hennar áður – hefur hún sinnt mörgum börnum, þolir hún mikið áreiti? Sumir geta ráðið sig í framreiðslu, pökkun á matvælum eða í eldhússtörf. Það er ótrúlegt hve vel hefur oft gengið að finna heppilegan vinnustað fyrir þá sem njóta þjónustu VIRK. Sumir hafa farið í styttri, skrifstofutengd námskeið sem gefa möguleika á að fá skrifstofustarf."

Eru störf félaga í Eflingu fjölbreytt?
„Já, innan Eflingar, sem er stórt stéttarfélag, er fólk til dæmis í verkamannastörfum, vinnur í leikskólum, í veitingageiranum, við akstur bíla og ræstingar þetta er ekki tæmandi upptalning. Eflingarfólk er að mínu mati almennt afar öflugir einstaklingar. Margir sem leita til VIRK gera það í kjölfar slysa, einnig er algengt að til okkar komi slitið verkafólk sem er orðið ófært um að sinna sínu fyrra starfi og þarf að komast inn á annan starfsvettvang. Okkar félagsmenn starfa gjarnan í upphafi á mannmörgum vinnustöðum. Margir byrja sinn vinnuferil í Eflingu, sinna til dæmis ýmsum störfum meðfram námi."

Eru margir erlendir þjónustuþegar sem leita endurhæfingar hjá VIRK?
„Já, við erum einnig með marga erlenda félagsmenn innan okkar raða, við erum að sinna fólki sem kemur alls staðar að úr heiminum. Mér hefur fundist það skemmtilegt. Ég hef unnið hjá VIRK í nær áratug og í gegnum það starf hef ég í samstarfi við erlent fólk kynnst fjölbreytilegum menningarheimum. Ég hef til dæmis fengið vitneskju um hvernig menntakerfi í hinum ýmsu löndum er uppbyggt og þetta hefur vakið áhuga minn á ferðalögum."

Eiga erlendir starfsmenn við önnur vandamál að etja en Íslendingar?
„Erlent fólk er að berjast við sömu vandamálin og við hér hvað heilsufar snertir en félagslegur stuðningur við útlendinga sem starfa hér er oft mun minni en landsmanna yfirleitt. Fjölskyldur erlendra einstaklinga eru oftast í heimalöndum þeirra og þeir þá frekar einir á báti hér en Íslendingar. Þá er það okkar að leiðbeina viðkomandi um hvernig kerfið hér er uppbyggt. Ég gæti þess þó að halda mig við ráðgjafahlutverkið."

Hvernig hefur þér gengið að halda þér frá of nánum tengslum við þjónustuþega?
„Það hefur gengið ágætlega en óneitanlega hefur maður oft á tíðum mikla samkennd með fólki sem á í erfiðleikum, hvort sem það er erlent eða íslenskt. Ég reyni að aðstoða fólkið eftir bestu getu en jafnframt að gera einstaklingana sjálfstæða í ferlinu. Það er mikilvægt."

Aldrei í sama starfið dag frá degi

Hefur starf þitt tekið miklum breytingum undanfarin ár?
„Ég lýsi starfinu mínu gjarnan þannig að ég komi aldrei í sama starfið dag frá degi. Svo miklar eru breytingarnar og svo margþætt er starfið. Mér hentar þetta vel, finnst gaman að takast á við breytingar og sjá framþróun verða. Öllum ábendingum um hugsanlegar betrumbætur er vel tekið hjá skrifstofu VIRK. Efling og VIRK eru raunar yndislegir vinnustaðir. Ég hef starfað hjá VIRK í átta ár og hef því í ýmsum efnum farið í gegnum tímana tvenna. Fyrstu árin var VIRK að slíta barnsskónum, ef svo má segja."

Hvað „skónúmer" er starfsemin komin upp í núna?
„Kannski númer 37," segir Ingibjörg og hlær. „Við erum alltaf að vinna í að bæta okkar verkferla og vinnulag. Ég hef verið heppin að vera svona lengi hér og hafa fengið að taka þátt í þessari þróun."

Er sjúkraþjálfaramenntun gagnleg í starfinu hjá VIRK?
„Ég vann sem sjúkraþjálfari í fjórtán ár í Reykjavík, Keflavík og Hafnarfirði. Í mínu starfi hér sem ráðgjafi nýtist reynsla mín sem sjúkraþjálfari afskaplega vel. Ég hef gjarnan sagt: „Sjúkraþjálfari er fimmtíu prósent sjúkraþjálfari og fimmtíu prósent sálfræðingur." Það skapast svo mikil nánd á milli sjúkraþjálfara og þeirra sem eru í meðferð hjá þeim. Ég hef alltaf haft gaman af að vinna með fólki, kynnast því og læra af því."

Hafa úrræðin breyst mikið þessi ár sem þú hefur starfað hjá VIRK?
„Já og þeim hefur fjölgað. Við ráðgjafarnir hér hjá Eflingu ræðum gjarnan um reynslu af hinum mismunandi úrræðum, hvaða endurgjöf við fáum frá þjónustuþegum, hvernig fræðsla nýtist og þannig mætti áfram telja. Stundum þarf maður dálítið að þreifa sig áfram með hvað gæti nýst viðkomandi einstaklingi og fylgjast svo með hvernig þau úrræði henta sem verða fyrir valinu. Fari óreynd manneskja á tölvusviði á námskeið í þeim fræðum þarf að skoða hvernig það reynist, hvort það er að skila henni þeim árangri sem lagt var upp með. Stundum tekur maður rangar ákvarðanir í þessum efnum en stundum líka hárréttar."

Eru þeir sem koma til þín í ráðgjöf óvissir um hvað gera skal?
„Það kemur fyrir. Þá þarf viðkomandi kannski að fá að reka sig á - bara eins og gerist í lífinu yfirleitt. Við nálgumst einstaklinginn sem til okkar leitar þannig að hans óskir og væntingar komi fram. Maður spyr hvernig viðkomandi sjái fyrir sér að hægt sé að aðstoða hann. En auðvitað þarf að greina á milli hvað er hægt og hvað ekki. Hvaða úrræði væru líklegust til að skila einstaklingnum aftur út á vinnumarkaðinn."

Hvað ef fólkið sem kemur til þín gerir sér óraunhæfar væntingar um störf?
„Sumir sem til okkar leita eiga sér vissulega drauma sem ekki eru raunhæfir. Aðrir eiga sér drauma sem geta hugsanlega ræst síðar. Framtíðarsýnin er í fyrirrúmi hér. Við tölum mikið um framtíðina, að viðkomandi einstaklingur setji sér markmið til skemmri og lengri tíma. Félagsmenn í Eflingu sem til okkar leita langar oft í allskonar nám, einkum þeir yngri. Þá er það hluti af lengri framtíðarsýn. Við reynum þá að móta stefnu sem skilar þeim í átt að þeirra löngun eða draumi. Með öðrum orðum: Hvað getum við gert til skemmri tíma sem hluta af framtíðarsýn til lengri tíma. Við leitumst við að koma fólki til vinnu sem fyrst en hjálpa þeim jafnframt að skipuleggja sig þannig að sýn til lengri tíma verði að veruleika. Við notum mikið markþjálfun, einkum með ungu fólki og þeim sem vilja skipta um starfsvettvang."

Þurfum að styðja unga fólkið okkar betur

Er markþjálfun áhrifarík aðferð?
„Markþjálfun byggist að talsverðu leyti á spurningu eins og til dæmis: „Hvar sérðu þig eftir ár?" eða lengri tíma. Aðferðin byggir á að setja sér markmið til skemmri og lengri tíma. Markþjálfun nýtist vel þeim sem eru stefnulausir eða þurfa heilsu sinnar vegna að komast á nýjan vinnuvettvang. Markþjálfar okkar sinna þessu úrræði vel. Grunnþjónusta VIRK er að fólk stefni út á vinnumarkaðinn. Ef við finnum lítinn áhuga þá beitum við áhugahvetjandi aðferð til að auka áhugann á komast til vinnu."

Hver er stærsti hópurinn sem til ykkar leitar?
„Við erum að þjónusta fleiri konur en karla og meira af yngra fólki en áður. Sá myrki raunveruleiki blasir við að ungt fólk í vanda er stækkandi hópur. Mín skoðun er að það þurfi að taka betur utan um þennan hópi á vettvangi menntakerfis og heilbrigðisþjónustu. Það þarf að styðja unga fólkið okkar betur út í lífið. Ég er ekki að gera lítið úr þeim sem vinna innan þessara kerfa heldur benda á hvernig kerfin eru byggð upp."

Hvað finnst þér hafa verið mesta breytingin í sambandi við VIRK?
„Að fá gæðavottun sem gerir vinnuferlana skilvirkari og ná yfir allt landið. Það veitir yfirsýn og öryggi. Gæðavottunin var tekin í gagnið fyrir tveimur árum."

Hvernig gengur ykkur ráðgjöfum Eflingar hjá VIRK að finna störf fyrir þjónustuþega?
„Ráðgjafar Eflingar eru duglegir, við höfum þurft að bjarga okkur. Hér er starfsfólk sem hefur unnið hjá Vinnumálastofnun, það gagnast okkur inni í teyminu. Við setjum upp ferilskrá og kynningarbréf með okkar þjónustuþegum, hjálpum þeim að finna störf og fylgjum því eftir. Segja má að þetta gangi ótrúlega vel. Atvinnulífstenglarnir sinna einkum þeim sem þurfa meiri stuðning. Við ráðgjafarnir metum það hvaða fólk þarf mikinn stuðning."

Hver er meðaltími á þjónustu VIRK hjá ykkur?
„Meðaltími á þjónustu hjá VIRK er fjórtán mánuðir á landsvísu og við erum á því róli. Þetta er þó auðvitað mismunandi eftir einstaklingum. Sumir eru hér kannski bara í sex mánuði meðan aðrir þurfa lengri tíma. Hér hjá Eflingu hafa heldur fleiri þjónustuþegar verið að takast á við líkamleg vandamál en gerist almennt hjá þjónustuþegum VIRK á landsvísu. Þetta er þó aðeins að breytast, andlegir erfiðleikar eru að verða heldur meira áberandi en áður. Gjarnan helst þetta í hendur. Margir sem koma hingað glíma við mikið slit eftir líkamlegt erfiði og finna fyrir depurð. Oft má þó bæta þessa líðan með þeim góðu úrræðum sem VIRK hefur yfir að ráða."

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2019.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband