Fara í efni

Fékk nýja vinnu með hjálp ráðgjafans

Til baka

Fékk nýja vinnu með hjálp ráðgjafans

Ársæll Freyr Hjálmsson

Ársæll Freyr Hjálmsson brenndist illa á vinstri hendi og handlegg þegar hann var við störf í spennustöð OR í Grafarvogi fyrir ári. Ársæll var fluttur illa slasaður á Landspítala í Fossvogi þar sem hann dvaldist í hálfan mánuð. „Þetta voru verstu jól ævi minnar,“ segir hann.

Ársæll Freyr, sem er rafvirki, var við störf ásamt starfsfélögum sínum þegar slysið átti sér stað. „Ég var að vinna í rafmagnsskáp í spennustöð þegar það varð skammhlaup og skápurinn sprakk. Ég fékk annars og þriðja stigs brunasár á vinstri hönd og handlegg og fyrsta stig í andlit. Þetta var gríðarmikil sprenging. Ég var bæði blindur og heyrnalaus í einhvern tíma á eftir en hélt meðvitund. Starfsfélagi minn og besti vinur kom mér strax í kælingu á meðan við biðum eftir sjúkrabílnum,“ segir Ársæll. Hann var sá eini sem slasaðist og segir að það hafi verið stórkostleg heppni að hann skuli hafa lifað þetta af. „Það er líka heppni að ég hafi haldið hendinni,“ bætir hann við. „Vinur minn brást skjótt og rétt við. Hann var stoð og stytta þennan dag og dagana eftir slysið,“ segir Ársæll Freyr. 

„Hjúkrunarfólk á spítalanum var sömuleiðis algjörlega frábært. Það bjargaði jólunum og veru minni á spítalanum. Ég fékk að fara heim um áramót en þurfti síðan að koma í umbúðaskipti. Þegar nokkur tími var liðinn gat ég skipt um þær sjálfur. Um miðjan janúar var síðasta sárið að gróa og þá minnkaði sýkingarhættan,“ segir Ársæll ennfremur.

Ársæli leiddist að hafa ekkert fyrir stafni þegar komið var fram í febrúar og honum fór að líða betur. „Um miðjan febrúar óskaði ég eftir því að koma aftur til starfa hjá Orkuveitunni. Ég vissi að þar voru störf sem ég gæti unnið þótt ég gæti ekki farið í gamla starfið mitt. Ég ræddi við verkstjórana mína sem sögðust hafa verkefni fyrir mig þar sem ég gæti stjórnað vinnuhraðanum. Hins vegar var það stefna fyrirtækisins að starfsfólk sem veiktist kæmi ekki aftur til starfa fyrr en það hefði náð fullri heilsu. Þar sat hnífurinn í kúnni. Ef ég hefði sætt mig við það væri ég enn heima á veikindalaunum,“ segir Ársæll sem var ósáttur við stefnu fyrirtækisins. 

Ársæll var þess fullviss að hann gæti orðið að gagni bæði fyrir sig og fyrirtækið og þegar verkstjóri hjá OR benti honum á að ræða við ráðgjafa hjá Virk/Starfsendurhæfingarsjóði lét hann ekki segja sér það tvisvar. „Ef árið hefði verið 2007 held ég að viðhorf fyrirtækisins hefði verið annað. Nú er verið að spara á öllum sviðum og það hafði áhrif,“ segir hann. 

„Það urðu þáttaskil þegar ég ræddi við Sigrúnu Sigurðardóttur, ráðgjafa hjá Virk/Starfsendurhæfingarsjóði. Hún ræddi við lækninn minn og óskaði síðan eftir fundi með yfirmanni, starfsmannastjóra og öryggisfulltrúa fyrirtækisins. Markmið fundarins var að skoða möguleika á að koma aftur til vinnu en í annað starf en ég hafði gegnt áður. Áhersla var lögð á að þetta væri ekki atvinnubótavinna heldur verkefni sem kæmu fyrirtækinu vel. Fundurinn bar strax árangur og með vottorð frá lækninum um að ég gæti sinnt léttari störfum flaug ég inn,“ segir Ársæll sem hóf störf aftur um miðjan mars sl. „Ég sótti síðan um starf sem losnaði í nóvember og fékk það. Það er starf í bilanadeild fyrirtækisins sem hentar mér ákaflega vel og ég get sinnt til frambúðar. Öll reynsla, þekking og menntun nýtist mér í þessari vinnu og ég er ákaflega glaður að hafa fengið hana,“ segir Ársæll sem er kominn í fullt starf. 

„Ég get algjörlega þakkað Starfsendurhæfingarsjóði að ég er kominn með fasta vinnu. Mér fannst óhugsandi að hanga heima þótt ég sé með skerta starfsgetu fyrir gamla starfið mitt. Það eru til önnur úrræði,“ segir Ársæll. „Ég átti nokkra fundi með Sigrúnu sem gerðu mér gott. Hjá henni fékk ég tækifæri til að ræða um slysið og afleiðingar þess. Mér var tjáð af yfirmönnum fyrirtækisins að ég ætti óskertan veikindarétt en ég spurði á móti hvort þeir vildu heldur hafa mig veikan heima en í starfi þar sem ég get búið til tekjur. Starfsendurhæfingarsjóður var eini möguleiki minn til að breyta þessu viðhorfi fyrirtækisins og fá menn til að ræða við mig. Fyrir það er ég þakklátur. Ég vil hvetja fólk í sömu sporum til að setja sig í samband við ráðgjafa hjá Virk. Ég hef þá skoðun að ef fólk er lengi frá vinnu þá verði endurkoman miklu erfiðari auk þess sem það hefur áhrif á andlega líðan.“

Ársæll hefur ekki náð sínum fyrri styrk og fær enn verk í höndina. Hann þarf því stöðugt að gæta sín, enda er húðin mjög viðkvæm. „Læknar geta því miður ekki sagt mér hvort ég muni nokkurn tíma ná mér þar sem taugaskemmdir eru talsverðar,“ segir Ársæll sem er engu að síður vongóður um framtíðina með nýtt starf.

Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.


Hafa samband