Fara í efni

Er brjálað að gera?

Til baka
María, Ingibjörg og Líney
María, Ingibjörg og Líney

Er brjálað að gera?

Undir lok 2018 ýtti VIRK Starfsendurhæfingarsjóður VelVIRK forvarnarverkefninu af stokkunum sem hefur það að markmiði að vinna gegn brottfalli af vinnumarkaði vegna heislubrests, einkum og sér í lagi vegna álagstengdra einkenna.

Ársrit VIRK settist niður með VelVIRK teyminu: Ingibjörgu Loftsdóttur, Líneyju Árnadóttur og Maríu Ammendrup sem halda utan um verkefnið

Er brjálað að gera hjá ykkur?
„Við verðum eiginlega að viðurkenna að það var brjálað að gera við að koma velvirk.is í loftið," segja þær brosandi. „En við reyndum að vera skynsamar, tileinka okkur það sem við lærðum af vinnunni við verkefnið, höfum tekið innihald vefsíðunnar til okkar og breytt hegðun. Allt efnið og bjargráðin um það hvernig við getum haldið jafnvægi í lífinu hafa nýst okkur vel í vinnunni við forvarnarverkefnið almennt."

Afhverju VelVIRK?
„Undanfarin misseri hefur það verið rætt innan stjórnar VIRK að nauðsynlegt væri að VIRK færi í aðgerðir til þess að sporna við því að fólk falli af vinnumarkaði í ljósi þess að æ fleiri virðast heltast úr lestinni eða hverfa af vinnumarkaði, vegna tímabundinna eða langvarandi veikinda.

Í apríl 2018 samþykkti stjórnin að setja forvarnarverkefni af stað til að byrja með í þrjú ár. Í framhaldinu var stýrihópur settur á laggirnar sem styður við verkefnið, en hann er skipaður aðilum úr stjórn VIRK og fulltrúum frá Velferðarráðuneytinu, Landlæknisembættinu og Vinnueftirlitinu. Einnig var ákveðið að við þrjár myndum fara í verkefnið en við njótum dyggrar aðstoðar Vigdísar framkvæmdastjóra og Eysteins almannatengils VIRK," segir Ingibjörg sem leiðir verkefnið.

Verkefnið er stórt og mikið er undir. Ákveðin var þríþætt nálgun þar sem horft er til einstaklingsins - til þess sem hvert okkar þarf að huga að, til vinnustaðanna - stuðnings við fyrirtæki, stofnanir og stjórnendur og til samfélagsins í heild - umræðunnar og andans í samfélaginu.

„Skemmtilegasti hlutinn af verkefninu er Er brjálað að gera vitundarvakningin," segir Ingibjörg. „Við kölluðum góðan hóp fólks til hugarflugsfundar sumarið 2018 sem fór á flug og kom með hugmyndir um það hvernig sýna mætti ákveðin atriði eins og t.d. samskipti á vinnustað, áreitið í samfélaginu og mikilvægi jafnvægis á milli vinnu og einkalífs á gamansaman hátt," segir Ingibjörg.

„Það komu mjög flottar hugmyndir út úr þessari vinnu sem hægt var að leggja á borðið þegar samstarfið hófst við auglýsingastofuna Hvíta húsið um verkefnið," segir Líney. „Auglýsingarnar í vitundarvakningunni eru byggðar á þessum hugmyndum, þannig að þetta kemur beint úr grasrótinni."

Platjólagjöfin 2018

Og herferðin hófst í byrjun desember á því að plata fólk?
„Já, Hvíta húsið kom með snjalla hugmynd til að ýta aðeins við fólki og sambandi þess við snjallsímann, þetta samband sem við erum svo föst í og virkaði hún ótrúlega vel," segir Líney um Beacons auglýsingar sem auglýstu ímynduð gleraugu, sem hjálpuðu fólki að skoða símann t.d. á leiksýningu og í kirkjum, sem jólagjöfina 2018.

„Það voru margir sem vildu forvitnast um gleraugun, smelltu á auglýsingarnar og vildu kaupa en mörgum fannst líka ekki í lagi að svona vara væri til, sem var mjög jákvætt" segir María. Allir þeir sem smelltu á Beacons auglýsingarnar voru leiddir inn á velvirk.is - sem fór í loftið 1. desember - þar sem við blasti afsökunarbeiðni vegna gabbsins en einnig ráð m.a. til að tileinka sér hófsamari snjallsímanotkun.

Í kjölfarið hófst „Er brjálað að gera" vitundarvakningin sem samanstendur af stuttum stiklum sem vakið hafa athygli og fallið hafa í góðan jarðveg. Mjög mikil vinna var lögð í stiklurnar svo þær myndu höfða til sem flestra, reynt var að fjalla um alvarleg mál í gegnum góðlátlegan spéspegil og vekja þannig fólk til umhugsunar. „Það var mikilvægt að gera þetta án þess að vera að predika yfir fólki og okkur finnst það hafa tekist," segir María.

Á jákvæðu nótunum

Stiklurnar, sem finna má á velvirk.is og á Youtuberás VIRK, hafa það að markmiði að vekja fólk til vitundar um stöðuna, bæði í einkalífi og í vinnu, og vísa þeim í framhaldinu inn á velvirk.is sem er full af upplýsingum og bjargráðum. „Velvirk.is, sem við unnum í samvinnu við Hvíta húsið og Stefnu, er tvískipt. Annars vegar góð ráð og upplýsingar um það hvernig við höldum jafnvægi í lífinu almennt og hinsvegar horfum við til stuðnings við stjórnendur og leiðtoga á vinnustöðum og fjöllum um líðan á vinnustöðum," segir Ingibjörg. Vefsíðan sé komin til að vera, vaxi stöðugt að efni og innihaldi og umferðin inn á hana er stöðug.

„Tónninn í auglýsingunum og á velvirk.is er á jákvæðu nótunum, verið er að draga fram hvernig við getum gert betur fyrir okkur sjálf. Þarna má finna einfaldar og góðar lausnir t.d. í sambandi við hreyfingu. Bara það að bæta einhverju litlu við daglegt líf s.s. stuttum göngutúr, hefur strax jákvæð áhrif. Þetta þarf ekki alltaf að vera flókið og við þurfum ekki öll að vera ofurkonur/menn eins og samfélagið virðist heimta. Það þarf ekki alltaf að gera svo mikið, bæta heldur einhverju, sama hve litlu, jákvæðu inn í líf þitt og þér líður strax betur," segir Líney.

„Við höfum t.d. bent fólki á að rannsóknir sýna að það að hreyfa sig jafnt og þétt, setja hreyfingu inn í vinnudaginn sinn, hefur meiri áhrif heldur en þegar fólk er í kyrrsetu alla daga en fer þrisvar í viku í ræktina," segir Ingibjörg. „Við viljum algerlega forðast sjúkdómsvæðingu, erum ekki að hræða fólk á vefsíðunni með því hvað gæti gerst ef það er ekki að borða rétt eða hreyfa sig, heldur hvetja það til þess að taka þau skref sem það treysta sér til."

Streitustigi og náttúrukort

Líney segir að reynt sé að hvetja einstaklinga til sjálfshjálpar á vefsíðunni en einnig séu stjórnendur hvattir til að sækja sér efni sem þeir geta nýtt til að auka vellíðan á sínum vinnustað. „Það finnst mér mikilvægur kafli." Streitustiginn sé dæmi um eitt slíkt verkfæri sem finna megi á velvirk.is sem nýtist stjórnendum og innan fyrirtækjanna til þess að hjálpa til við að opna á umræðuna um streitu. „Steituumræðan er orðin svo ríkjandi í samfélaginu en við þurfum að koma okkur niður á sameiginlegt tungutak sem við getum öll skilið. Benda þarf á að það er vel hægt að takast á við streituna og að það er ekki svo erfitt að snúa til baka þótt fólk sé komið í töluverða streitu með samtali við nærumhverfi sitt, t.d. um skipulag á tíma og verkefnum," segir Líney.

Ingibjörg tekur undir þetta og undirstrikar að mikilvægt sé að fólk sé meðvitað um nauðsyn þess að ná að hlaða batteríin reglulega. „Það virðist skipta miklu máli og skilja á milli þess hvort fólk er að fást við nokkuð eðlilega streitu eða er að sigla inn í kulnun. Þeir sem eru að lenda virkilega í kulnun eru þeir sem glíma við mikið álag í vinnu og heima við yfir lengri tíma og ná aldrei hvíld. En ef við náum að hlaða batteríin á milli þá getum við ráðið við streituna og nýtt okkur hana," segir Ingibjörg.

„Við erum með margar góðar hugmyndir á velvirk.is um það hvernig við getum jafnað okkur eftir álag eins og t.d. náttúrukortið þar sem við bjóðum upp á 10 hugmyndir fyrir hvern mánuð ársins sem hægt er að nota til að styrkja heilsuna og halda góðu jafnvægi. Við reynum að hafa þetta á skiljanlegu máli, eitthvað sem allir geta lesið og tileinkað sér, svo við náum til sem flestra," segir María.

Rannsaka brottfall af vinnumarkaði

Auk vitundarvakningarinnar og vefsíðunnar þá er einn mikilvægasti hluti forvarnarverkefnisins umfangsmikil rannsókn á ástæðum brottfalls af vinnumarkaði. Sérstakur rannsóknarhópur var skipaður til verka sem samanstendur af sérfræðingum frá VIRK, fulltrúum frá SA, VR, Vinnueftirlitinu og Embætti landlæknis.

„Við sáum að það vantar íslenskar rannsóknir um það af hverju fólk fellur af vinnumarkaði vegna álagstengdra sjúkdóma. Nú eru komin drög að rannsóknaráætlun fyrir stóra og spennandi rannsókn þar sem skoðuð verða gögn um þá sem eru í langtíma veikindaleyfi. Markmiðið er að finna þær breytur sem gætu skýrt af hverju sumir ná að snúa aftur til starfa en aðrir ekki," segir Ingibjörg.

„Í rannsókninni verða lagðar fyrir spurningar eins og „Var eitthvað í vinnuumhverfinu sem jók álag í starfi?" eða er þetta eitthvað sem einstaklingurinn sjálfur þarf að huga betur að, sinni heilsu mögulega? Eða er þetta kannski streitan sem allir tala um að gegnsýri samfélagið? Væntanlega er þetta margþætt. Við vonumst eftir að vera komin með niðurstöður á næsta ári og í framhaldinu geta bent á leiðir til úrbóta."

Alma D. Möller, Vigdís Jónsdóttir, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir

Heilsueflandi vinnustaðir

Segja má að fjórði þátturinn í forvarnarverkefninu hafi bæst nýverið við þegar Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, Alma D. Möller, landlæknir og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, rituðu undir viljayfirlýsingu um heilsueflingu á vinnustöðum á morgunfundi um mikilvægi vellíðunar á vinnustöðum sem stofnanirnar gengust fyrir.

„Þetta er mjög spennandi verkefni sem hefur það að markmiði að stuðla að betri heilsu og vellíðan vinnandi fólks á vinnustöðum, að fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði. Í samstarfinu felst mótun viðmiða fyrir heilsueflandi vinnustaði sem og upplýsingamiðlun til að tryggja að vinnustaðir hafi góð verkfæri til að skapa heilsueflandi umhverfi," segir Ingibjörg.

„Embætti landlæknis hefur verið með verkefnin heilsueflandi samfélag og heilsueflandi skólar og höfðu unnið grunninn að verkefni um heilsueflandi vinnustaði. Byggt er á þeim grunni og verið er að endurskoða viðmiðin. Við stefnum á að í haust verði nokkrir vinnustaðir klárir í að prufukeyra verkefnið og í framhaldi geti allir vinnustaðir nýtt sér viðmiðin til að meta stöðuna og hvernig hægt sé að koma til móts við þau."

Allt styður þetta hvort annað í verkefninu, þessi hluti efli t.d. og styrki vinnustaðamenninguna og gefi stjórnendum og leiðtogum tæki til þess að auka vellíðan á vinnustaðnum. Enn önnur viðleitni í þá áttina séu síðan fimm morgunfundir sem stofnanirnar munu halda næsta árið um heilsueflingu á vinnustöðum.

Tölvupósti starfsfólks í orlofi eytt

Hefur eitthvað komið ykkur sérstaklega á óvart í vinnunni í verkefninu?
„Það er helst hvað aftengingin, endurheimtin eftir vinnudaginn, er mikilvæg fyrir heilsuna, þ.e. það að aðskilja vinnu og einkalíf, ná jafnvægi þar á milli. Einnig rannsóknir sem sýna mikilvægi orlofs og þess að skoða ekki vinnutölvupóstinn í fríinu því það hefur mjög lúmsk áhrif," segir María. „Hvernig varast eigi „rumination", sem þýtt hefur verið sem grufl eða hugarjórtur, þ.e. að vera með vinnuna á heilanum, hugsa endurtekið um vinnutengd vandamál fram eftir kvöldi og upplifa neikvæða tilfinningu í hvert sinn. Margir kannast við þetta og það þarf meðvitað átak til þess að komast út úr þessu með því að gera eitthvað allt annað." Ingibjörg tekur undir með Maríu „Áður glímdum við ekki við jafn mikið áreiti og í dag. Það er erfiðara í dag að kúpla sig frá þegar þú ert með allt í símanum þínum. Ég hef starfað sem stjórnandi í mörg ár en hef ekki sett upp vinnutölvupóstinn í símann minn og finnst að fólk ætti að hugsa sig vel um áður en það skref er tekið. Við verðum að hafa möguleika á að kúpla okkur frá vinnunni."

Ýmsar góðar hugmyndir eru settar fram á velvirk.is um skynsamlega meðferð tölvupósta eins og t.d. að eyða tölvupóstum starfsmanna þegar þeir eru í orlofi, nema kannski helst þeim sem berast síðustu tvo daga orlofsins. Rannsóknir hafa sýnt fram á að jákvæð áhrif orlofsins, hvíldin, afslöppunin og endurnæringin, geti gufað upp jafnvel á fyrsta degi ef fullt tölvupósthólf auk bunka af verkefnum mætir starfsfólki þegar það kemur til baka.

„Þessi hugmynd hugnast ekki öllum og auðvitað er mismunandi hvað hentar milli vinnustaða en við hjá VIRK ætlum að praktisera það sem við predikum og bjóða starfsfólki okkar að hafa þennan háttinn á í sumar, þ.e. að tölvupóstum sem berast þeim í sumarleyfinu verði eytt svo að jákvæð áhrif orlofsins nýtist þeim betur," segir Ingibjörg. Að sjálfsögðu fá þeir sem senda póst boð um að póstinum verði eytt og er vísað áfram á staðgengla svo að þjónusta skerðist á engan hátt.

Aðspurðar sögðu þær stöllur að lokum að viðbrögð einstaklinga og stjórnenda hafi verið mjög góð og að mikill áhugi væri á frekari kynningu á forvarnarverkefninu. Þá sé kominn biðlisti fyrirtækja og stofnana sem vilja vera með í fyrsta hópnum í heilsueflandi vinnustöðum. Vefsíðan velvirk.is fer vaxandi jafnt og þétt að efni og lögð er áhersla á að bæði starfsmenn og stjórnendur á vinnustöðum geti fundið þar efni til að styðja við vellíðan á vinnustaðnum.

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2019. 

Sjá nánar á velvirk.is


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband