Fara í efni

11 milljarða ávinningur af VIRK á árinu 2014

Til baka

11 milljarða ávinningur af VIRK á árinu 2014

Á ársfundi VIRK fór Benedikt Jóhannesson yfir útreikninga Talnakönnunar á árangri VIRK á árinu 2014 en áður lágu fyrir útreikningar á ávinningi starfsins á árinu 2013. Niðurstaða Talnakönnunar er sú að ávinningur af starfi VIRK á árinu 2014 hafi verið um 11,2 milljarðar króna samanborið við 9,7 milljarðar á árinu 2013. Í þessu samhengi má benda á að rekstrarkostnaður VIRK á árinu 2014 var um 2 milljarðar samanborið við 1,3 milljarða á árinu 2013.

VIRK fékk Talnakönnun til að greina árangur og hagnað af starfsemi VIRK árið 2014 á sama hátt og gert var fyrir árið 2013. Unnið var útfrá ópersónugreinanlegum upplýsingum úr gagnagrunni VIRK um þá einstaklinga sem útskrifuðust úr þjónustu VIRK árin 2013 og 2014 auk þess að unnið var með upplýsingar lífeyrissjóða um meðallaun. Fundinn var mælikvarði á sparnað af starfsemi VIRK sem tekur mið af raunverulegum árangri, árangri sem felst í að flýta endurhæfingu, stytta tímabil óvinnufærni einstaklinga og minnka tíðni örorku. Talnakönnun gaf sér mjög varfærar forsendur um vinnumarkaðsþátttöku einstaklinga í þessari vinnu. M.a. var ein forsendan sú að þeir einstaklingar sem voru á launum í veikindum, á bótum hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða á atvinnuleysisbótum við lok þjónustu hjá VIRK myndu hafa verið óvinnufærir í 5 ár ef VIRK hefði ekki notið við – en enginn þeirra hefði farið á varanlega örorku.

Þrátt fyrir þessar varfærnu forsendur kemst Talnakönnun að þeirri niðurstöðu að starf VIRK sé mjög arðbært. Rúmlega 11 milljarða króna ávinningur hafi verið af starfsemi VIRK árið 2014 og nærri 10 milljarða ávinningur af starfseminni 2013. Ábatinn af starfseminni skilar sér bæði til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Ofan á þetta kemur svo bættur hagur einstaklinga, bæði fjárhagslegur auk þeirra lífsgæða sem felast í því að geta tekið þátt í samfélaginu.

Sjá má glærur sem fylgdu innleggi Benedikts á ársfundinum hér og og skýrslu Talnakönnunar HF. um hagnaðinn af starfsemi VIRK 2014 í heild sinni hér.


Fréttir

03.04.2024
29.01.2024

Hafa samband