Flýtilyklar
Lærði hjá VIRK að hjálpa mér sjálfur
Böðvar Þ. Gunnarsson
Í vonskuveðri er jafnan gott að koma inn í hlýju og ekki spillir að mæta vingjarnlegu viðmóti. Böðvar Þ. Gunnarsson hefur lag á að taka þannig á móti fólki að því líði vel. Við setjumst saman við borðstofuborðið í vistlegri íbúð hans til þess að ræða samstarf hans við VIRK, langvinna viðureign hans við geðhvörf og vel heppnaða endurkomu hans út á vinnumarkaðinn.
„Líklega komu snemma fram hjá mér einkenni um geðhvörf en ég var ekki greindur með þann sjúkdóm fyrr en ég var fertugur. Nú er ég kominn á góðan stað eftir talsverða sviptivinda á vegferðinni,“ segir Böðvar Þ. Gunnarsson og klappar Perlu, hvítri tík, sem hefur tekið aðkomumanneskju með stakri rósemi og lagst örugg við fætur eiganda síns.
„Ég fer með „forræði“ Perlu í félagi við fyrrverandi sambýliskonu mína sem býr hér í nágrenninu, ég vinn vaktavinnu svo þetta er heppilegt fyrirkomulag,“ segir Böðvar þegar ég hef orð á hve Perla sé mikil heimilisprýði.
Yfir kaffibolla segir Böðvar mér ágrip af sögu sinni og vel heppnuðu samstarfi hans við VIRK starfsendurhæfingarsjóð.
„Ég var nýkominn frá Björginni þegar ég fór í stamstarf með VIRK. Björgin er geðræktarmiðstöð í Reykjanesbæ. Þar hafði ég verið viðloðandi í nokkur ár sökum geðhvarfa til að reyna að fóta mig í tilverunni, jafnframt því sem ég var hjá geðlækni og í virknimeðferð, lagði þar stund á listmálun.
Einkenni um geðhvörf komu fljótt fram hjá mér en voru mismunandi ágeng. Líklega er þessi sjúkdómur til einhvers staðar í ættum mínum. Ég kem úr stórri fjölskyldu, á sex hálfsystkini, þrjú þeirra á móðir mín sem ég ólst upp hjá hér í Grindavík, Keflavík og Sandgerði. Þegar ég flutti að heiman settist ég að í fyrstu í Keflavík, síðan lá leiðin til Reykjavíkur og skamman tíma bjó ég á Neskaupstað.
Ég stundaði nám í hárskurði einn vetur við Fjölbrautarskóla Suðurnesja, ætlaði að verða rakari, en komst ekki á samning. Ég fór á sjóinn rösklega tvítugur og eignaðist fyrsta barn mitt af sex um það leyti. Skamman tíma var ég kokkur á sjónum og líkaði það vel, hafði gaman af að elda.
Ég hef ekki átt auðvelt með bóknám, mig grunar að ég sé lesblindur en hef ekki fengið greiningu. Ég hef hins vegar verið vinsæll upplesari hjá börnum og barnabörnum og börnum á leikskóla þar sem ég starfaði um tíma, því ég les bæði hægt og skýrt. En áhugi minn þarf að vera geysimikill til þess að ég komist í gegnum heila bók.
Sá vel vonsku heimsins
Ég var orðinn þrjátíu og sex ára þegar ég áttaði mig á að eitthvað verulegt væri að í höfðinu á mér. Mér leið mjög illa og bjó í ljótum heimi. Ég sá allt í dökkum litum og fannst illskan allsráðandi. Ég tók inn á mig framferði stórra þjóð gegn litlum. Ég sá vel vonsku heimsins en ekki það sem gott var þar að finna.
Ég fór ungur að drekka og trúi því að áfengi sé nánast alltaf fyrsti stökkpallur yfir í annars konar neyslu vímuefna. Sumir segja að þeir hafi byrjaði á kannabisefnum og farið þaðan yfir í sterkari efni – en þeir gleyma drykkjunni sem þeir hófu fyrst. Áfengi er samfélagslega viðurkennt vímuefni. Ég fór að drekka til að prófa hvernig það væri og sama var að segja með kannabisefni. Í skólanum hafði verið forvarnarfræðsla, hún skilaði mér því að ég vildi prófa þetta sjálfur – athuga hvort þetta væri eins og menn höfðu sagt í fræðslunni. Því var haldið að okkur að þeir væru aumingjar sem gerðu þetta en ég veit í dag að ég er langt því frá að vera aumingi þótt vissulega hafi neyslan ekki gert mér gott, þvert á móti. Hún hefur gert samböndum mínum við konur illt og valdið mér mikilli vanlíðan og viðhaldið henni.“
Hver benti þér á VIRK?
„Það gerðist þegar ég var atvinnulaus. Ég var á þessum tíma „í rusli“, var ekki hæfur til að vera á endurhæfingarlífeyri, hafði fengið hann í eitt og hálft ár áður en ég hóf samstarfið við VIRK. Endurhæfingarlífeyrinn fékk ég fyrir tilstilli geðlæknis míns. Ég leit á lífeyrinn sem hækju og ætlaði mér út á vinnumarkaðinn aftur. Þegar tími endurhæfingarlífeyrisins rann út var ég enn á sama stað. Ég hafði reynt ýmislegt, svo sem hugræna atferlismeðferð, en ekkert dugði.
Ég var á atvinnuleysisskrá og það var ýtt á mig að fara að vinna. En þegar þarna var komið sögu tolldi ég í vinnu kannski viku í senn. Ég er sæmilega hraustur líkamlega en andlega var ég illa kominn. Eftir hverja slíka tilraun fór ég heim og lét ekki heyra í mér næstu daga. Ég taldi mig einskis nýtan úr því ég gat ekki þetta eða þetta – reif mig þannig endalaust niður.
Svo var mér boðið upp á að skoða samstarf við VIRK. Geðlæknirinn minn skrifaði beiðni til þeirra og ég ýtti á – hafði heyrt um þessa starfsemi og taldi að hún gæti hjálpað mér, vildi fá að prófa samstarfið. Ég átti rétt í gegnum Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og Starf, vinnumiðlun á snærum þess verkalýðsfélags, þannig komst ég í samband við ráðgjafa hjá VIRK og árið 2014 hófst svo samstarfið.
Ég hef í gegnum árin átt í erfiðleikum í samskiptum við nokkrar sambýliskonur, þótti þungur og jafnvel grátgjarn. Ég reyndi gera vel en fannst ég gjarnan fá skammir fyrir. Maður getur búið til ýmislegt miður gott í hausnum á sér. Geðhvörfin lýsa sér meðal annars í þráhyggju og ofsóknartilhneigingu. Manni finnst maður kannski fá skilaboð frá sjónvarpinu og þar fram eftir götunum. Ég heyrði vissulega hvað fréttaþulurinn var að segja en ég tók því þá sem sérstökum skilaboðum til mín.
Fór norður til að ná áttum
Mér leið skelfilega illa þegar ég fékk fyrsta viðtalið við ráðgjafa VIRK. Þar komst ég að þeirri niðurstöðu að VIRK væri ekki fyrir mig. Hjá Starfi var ég hins vegar hvattur til að láta reyna á samstarf við VIRK. Í millitíðinni komst ég á Efra-Ás, sveitabæ norður í landi. Vinafólk mitt er þar með kúabú og bauð mér að koma og reyna að ná áttum. Þar dvaldi ég í tæpt ár. Ég ræddi við ráðgjafa VIRK um hvort ég gæti fengið að mæta á fundi bæði hér í Reykjanesbæ og einnig á Sauðárkróki. Þetta var samþykkt en ég var í raun mest á Króknum.
Í gegnum VIRK fékk ég meðferð hjá manni sem reyndist vera lausnamiðaður sérfræðingur. Ég hafði áður farið til sálfræðinga en það hafði ekki reynst gera mér gagn að kafa ofan í fortíðina og erfið mál þar. Lausnamiðaði sérfræðingurinn sem ég fór til í gegnum VIRK skildi mín afstöðu og í sameiningu einbeittum við okkur að því hvernig ég gæti leyst mín mál í nútíðinni. Ég hitti þennan sérfræðing bæði fyrir norðan og á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta úrræði dugði mér best og það að vera í sveitinni, geta gengið um landareignina og inn í skóginn. Það er hof þarna og þangað gat ég farið og kveikt eld. Ég er ásatrúar og vinur minn á Efra-Ási er vígður Hegranesgoði.
Ég var á atvinnuleysisbótum meðan á þessu stóð og komst á vinnuvélanámskeið sem haldið var á vegum Starfs fyrir norðan. Bæturnar fékk ég héðan frá Reykjanesbæ og átti að sækja námskeiðið þar en var leyft að sækja svipað námskeið á Sauðárkróki. Ég fékk þar með vinnuvélaréttindi á allar vélar, smáar sem stórar.
Eftir að ég kom að norðan fór ég að vinna á leikskóla skamman tíma, fannst starfið skemmtilegt en launin alltof lág. Ég ákvað því, eftir útskrift frá VIRK, að sækja um starf hjá IGS, þetta var fyrir tæpum tveimur árum. Ég vinn enn hjá IGS, sem Icelandair rekur, hleð flugvélar, færi þær á milli stæða og svo framvegis.
Hjálpaði umræddur sérfræðingur sjálfsmynd þinni?
„Já, ég var nokkuð fastur í ýmsu erfiðu sem ég hafði upplifað á æskuárunum. Hafði rætt það við sálfræðinga áður, eins og fyrr kom fram. Ég hélt að ég gæti þar með losnað við það erfiða úr huganum. En það gerðist ekki í mínu tilviki. Ég varð bara aftur fastur í sársaukanum. Lausnamiðaði sérfræðingurinn var sammála mér um að slík upprifjun gerði mér ekki gott og óþarfi væri að ræða slíkt frekar.“
Ásatrúin mikilvæg
Hvaða leiðir sem þú fórst komu að mestu gagni?
„Hreyfing – göngur og slíkt, það gerði ég sjálfur en fór ekki í heilsuræktarstöð. Og ekki síður að sættast við sjálfan mig. Það þarf í raun enginn annar að fyrirgefa mér, ég þarf bara sjálfur að fyrirgefa mér ýmislegt sem ég hef talið mig hafa misgert. Þetta er eins og að hata einhvern. Ef ég hata manneskju þá líður mér illa – ekki henni. Ef maður telur sig hafa gert einhverjum eitthvað þá líður manni sjálfum illa – hinum kannski ekki. Lausnamiðaði sérfræðingurinn fékk mig til að sjá málin frá öðrum hliðum en ég hafði áður gert. Ég hitti hann á tveggja vikna fresti í tvo mánuði meðan ég var fyrir norðan. Einnig hitti ég hann hér í Reykjanesbæ. Ég átti hann svo að ef eitthvað kynni að henda mig sem ég þyrfti að bregðast við.
Ráðgjafa VIRK hitti ég aðra hvora viku fyrir norðan og svo annan ráðgjafa VIRK þegar ég var í Reykanesbæ. Að vera einn að basla með sjálfan sig hefur litlu skilað en spjall við ráðgjafana og álit þeirra leiðbeindi mér í átt að betri líðan. Ráðgjafarnir lögðu mér til dagbók sem ég hélt meðan ég var fyrir norðan. Ég átti stundum bágt með svefn og fór því oft seint á fætur eftir að hafa verið andvaka. Truflun á svefni hefur verið viðvarandi vandamál, einkum sef ég illa á sumrin. Lyf hafa ekki hjálpað mér, þau gera mig tilfinningasljóan. Ég hef ekki verið á lyfjum í fimm ár.
Tvisvar, með löngu árabili, hef ég farið í meðferð hjá SÁÁ við vímuefnavanda. Það kom mér frá áfengi og kannabisefnum. Að losna frá þeim og félagsskapnum sem neyslunni fylgdi reyndist þýðingarmikið. Dvöl mín fyrir norðan skipti sköpum hvað þetta snerti.
Núna reyni ég að vera betri í dag en í gær. Reyni að bæta mig – þá líður mér betur og öðlast betra líf. Ásatrúin er mér mikilvæg. Innan vébanda þeirrar hreyfingar er fólk sem hugsar á svipaðan hátt og ég, vill vernda náttúruna og sýna umburðarlyndi. Trúboð er bannað í ásatrú, það er að kynna trúarbrögðin – nema þá aðspurður. Sú félagslega tenging sem ég öðlaðist inni í Ásatrúarfélaginu er mér mikilvæg og ég veit að ég hef skipt þar máli.
Ég stunda mína vinnu og held mig frá vímuefnaneyslu. Ég sagði vinnuveitendum mínum sögu mína, bæði varðandi geðhvörfin, neyslu og öðru sem mér fannst skipta máli, svo sem gömlu brjósklosi. Þeir vildu gefa mér sjens og ég er þeim eilíflega þakklátur fyrir það. Mér hefur tekist að koma á eðlilegu sambandi við mína fyrrverandi – þráhyggjan er farin – vináttan situr eftir.
Ég vona að ég þurfi aldrei aftur að fara í gegnum erfið tímabil en ef ég dett út af vinnumarkaði þá veit ég af VIRK og úrræðum sem þar er að finna. Það sterkasta sem VIRK gerði fyrir mig var að sýna mér hvernig ég get hjálpað mér sjálfur.“
Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.
