Aukin vellíðan á vinnustað

Heilsuefling á vinnustöðum er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsfólks og samfélagsins alls og miðar að því að bæta heilsu og líðan vinnandi fólks. Með heilsueflingu á vinnustöðum er stefnt að því að auka vellíðan með því að bæta vinnuskipulag, vinnuumhverfi og samskipti á vinnustað.

Meiri áhersla er nú lögð á möguleika starfsfólks og að þeir geti þróast í starfi og þetta hefur leitt til víðtækari skilnings á mikilvægi heilbrigðis, lífsgæða og frekara náms. Það er allra hagur að gera vinnustaðinn að stað þar sem starfsfólk nýtur sín og líður vel. Með heilsueflingu geta fyrirtæki og stofnanir einnig bætt ímynd sína og orðið eftirsóknarverðari vinnustaðir.

Ávinningur starfsfólks er aukin vellíðan, bætt heilsa, aukin starfsánægja, minni streita og meira jafnvægi í lífinu almenn auk færi slysa og sjúkdóma. Starfsgeta hvers og eins verður meiri og fólk getur jafnvel átt lengri starfsævi. Hagur vinnustaðarins getur falist í aukinni framleiðni, meiri nýsköpun, minni starfsmannaveltu og minni kostnaði vegna fjarveru, veikinda og slysa.

Vinnuveitendur sem hlúa að heilsu og vellíðan starfsfólks hafa ekki eingöngu jákvæð áhrif á starfsfólkið heldur einnig á fjölskyldu þess og samfélagið í heild.

Mikilvægt er að á sem flestum vinnustöðum sé heilsuefling sjálfsagður þáttur í stefnu vinnustaðarins og unnið sé markvisst að henni.

Hægt er að vinna að heilsueflingu á nokkrum stigum og árangursríkast er ef heilsueflingarstarfið tekur til allra þesssara stiga. 

Stigskipt heilsuefling

  1. Byggja upp heilsusamlegt og styðjandi vinnuumhverfi þar sem stefna og hlutverk eru skýr, þjálfun og fræðsla fer fram og stjórnunarhættir fela í sér stuðning við starfsfólk. Þetta gagnast öllu starfsfólki, hvetur til heilbrigðra lífshátta og hefur jákvæð áhrif á líðan.
  2. Skoða áhættuþætti í vinnuumhverfi og bregðast við þeim. Með þessu má koma auga á þá einstaklinga og þær vinnuaðstæður sem þarf að sinna sérstaklega og þarfnast sérstakra aðgerða.
  3. Mikilvægt er að taka tillit til ólíkrar vinnufærni fólks og stuðla að því að einstaklingar með minna úthald eða færni haldist á vinnumarkaði og komi aftur til starfa eftir slys eða veikindi, hvort sem þau eru andlegs eða líkamlegs eðlis. Í þessari handbók eru ráðleggingar um hvernig gott er að koma á heilsueflingu á vinnustöðum. Hafa ber í huga að heilsuefling á vinnustað getur náð til fleiri þátta en hér eru teknir fyrir. Þau grundvallarvinnubrögð, sem nefnd eru hér á undan, um að leita samstarfs, virkja fólk úr mismunandi deildum vinnustaðarins og vinna á ólíkum stigum gilda jafnt um alla þá þætti sem þessar ráðleggingar ná yfir.

Hvernig er unnið að heilsueflingu á vinnustöðum?

Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980  ber vinnuveitendum skylda til þess að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum og skal hún marka stefnu um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Þessi áætlun skal fela í sér sérstakt áhættumat og áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Áætlunin skal fela í sér að gerðar séu úrbætur í samræmi við niðurstöður áhættumatsins sem og eftirfylgni að úrbótum loknum. Nánari upplýsingar um áhættumat er að finna á vef Vinnueftirlitsins.

Mikilvægt er að móta heildarstefnu og langtímaáætlun um heilsueflingu á vinnustaðnum sem fellur að almennri stefnu og stjórnunarháttum vinnustaðarins. Mikilvægt er að í slíkri áætlun séu einnig skammtímamarkmið. Tilgreina skal nauðsynleg úrræði, fjármagn, tímaáætlun og ábyrgðaraðila fyrir hverri aðgerð. Gott er að setja saman vinnuhóp sem í eiga sæti fulltrúar mismunandi starfshópa á vinnustaðnum.

Á minni vinnustöðum er hægt að hafa einn hóp sem vinnur að öllum þáttum er varða heilsueflingu starfsfólks en á stærri vinnustöðum er hægt að hafa einn hóp fyrir hvern þátt. Hlutverk vinnuhópsins er að virkja sem flesta til þátttöku, hvetja til opinnar umræðu og virkja starfsfólk til að stuðla að góðri heilsu og líðan á vinnustaðnum. Í vinnuhópnum ættu að sitja fulltrúar starfsfólks og stjórnenda en einnig er hægt að kalla utanaðkomandi sérfræðinga til aðstoðar. Hugsanlegir þátttakendur geta verið: fulltrúi yfirmanna, millistjórnenda, öryggistrúnaðarmaður, öryggisvörður, heilbrigðisstarfsfólk og aðrir sérfræðingar, fulltrúi stéttarfélaga, starfsfólk mismunandi deilda og starfsmannastjóri.

Tilnefna þarf ábyrgðaraðila til að samhæfa aðgerðir. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að umsjónaraðili og meðlimir vinnuhópsins fái upplýsingar eða fræðslu um grunnatriði þess þáttar sem þeir taka að sér. Meðlimir hópsins eiga að þekkja helstu verndandi og áhættuþætti og geta bent á aðgerðir sem stuðla að eða bæta heilsu og vellíðan á vinnustaðnum.

Skilgreining á heilsu

Skilningur fólks á heilsu hefur verið misjafn í áranna rás en með meiri þekkingu hefur skilgreiningin breyst mikið. Árið 1948 skilgreindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) heilsu sem líkamlega, andlega og félagslega vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma eða örorku. Í þeim ráðleggingum, sem hér fara á eftir, verður skilgreining WHO höfð til viðmiðunar og því verður tekið tillit til andlegra, líkamlegra og félagslegra þátta heilsunnar.

Samantekt Embættis landlæknis

Svæði

  • Guðrúnartún 1 | 105 Reykjavík
  • sími 535 5700
  • Kt. 440608-0510
  • virk@virk.is

Opnunartími skrifstofu: 9:00 - 16:00 (15:00 á föstudögum)