Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Kulnun

Skólabókardæmi um kulnun

Skólabókardæmi um kulnun

Halldóra Eyjólfsdóttir keyrði sig út í vinnu, var síþreytt og gat ekki einbeitt sér - var skólabókardæmi um kulnun eða starfsþrot. Hún nýtti sér þjónustu og úrrræði á vegum VIRK með góðum árangri.

Halldóra Eyjólfsdóttir rannsóknarsjúkraþjálfari

Við hittum Halldóru Eyjólfsdóttur rannsóknarsjúkraþjálfara í skrifstofu hennar í Kringlu Landspítalans við Hringbraut. Hún er glaðleg og hlýleg kona, öryggið uppmálað og markviss í hugsun og framsetningu þegar rætt er um samstarf hennar og VIRK. Ótrúlegt virðist að hún hafi um tíma verið svo illa haldin af ofþreytu og kvíða að hún hafi orðið að taka sér langa hvíld frá störfum – en eins og í þessu efni sem öðrum er ekki allt sem sýnist.

 „Ég starfa nú sem sérfræðingur í meðgöngu- og fæðingarsjúkraþjálfun og sinni bæði sjúklingum og stunda rannsóknir,“ segir Halldóra Eyjólfsdóttir.

„Svona er þetta núna en árið 2013 var svo komið fyrir mér að ég var gjörsamlega „búin á því“, bæði andlega og líkamlega. Búin að keyra mig áfram í vinnu mjög lengi. Hafði fundið fyrir mikilli þreytu og varla geta dregist áfram en fór samt alltaf í vinnuna, stóð mína plikt, eins og sagt er.“

Hvað varð til þess að þú fórst í samstarf við VIRK?
„Ég var farin að sofa mjög illa, vaknaði klukkan fjögur á nóttunni og gat ekki sofnað aftur. Ég taldi sjálfri mér trú um að þetta væri vegna þess að ég væri komin á breytingaskeiðið, ég nálgaðist óðfluga fimmtugsafmælið.

Þetta ástand átti sér í raun langan aðdraganda. Ég hef alltaf verið hamhleypa til vinnu og skorpumanneskja. Alltaf haft óbilandi áhuga á starfi mínu. Ég hóf störf hér á Landspítalanum árið 2002 á endurhæfingardeild 14 D, þar er bækistöð okkar. Ég byrjaði á almennri skurðdeild, síðan á krabbameinsdeild en fór svo að sérhæfa mig í því sem ég starfa við nú.

Þegar ég byrjaði að vinna á LSH var ég nýlega búin að eignast fjórða barnið, átti fjögur börn á níu árum, og hafði því mikið umleikis. Það var því strax þá mikið álag á mér.

Ég kom af stað sérhæfingardeild fyrir fólk með vandamál í grindarbotni og árið 2004 fór ég fyrst að finna fyrir veikindum. Ég var á leið í vinnu akandi þegar ég fann fyrir hröðum og óreglulegum hjartslætti, gáttaflökti. Ég fór þá beint á bráðamóttöku og var greind þar með mikinn háþrýsting. Það þurfti í framhaldi af þessu að stuða hjartað í réttan takt. Ég hafði áður fundið fyrir óþægindum frá hjarta en aldrei þannig að það lagaðist ekki fljótlega. Eftir rafvendinguna fór ég á lyf en var eftir þetta viðkvæm fyrir hjarta.

Átti erfitt með að segja nei

Ég tók frí í þrjár vikur eftir þetta en fór svo að vinna og var fljótlega komin í mikið álagsástand aftur. Ég hélt þó mínu striki, tók að mér allskonar verkefni í vinnunni, var fljótust af öllum að bregðast við ef einhver þurfti hjálp eða var veikur. Alltaf gat ég bætt á mig. Ég hef átt erfitt með að segja nei, það er, held ég, grunnurinn að mínum veikindum.

Um þetta leyti komu upp erfiðleikar á vinnustaðnum, yfirmaður hætti skyndilega og ég var gerð að aðstoðar yfirsjúkraþjálfara. Það bættist ofan á allt annað sem ég hafði á minni könnu. Auk mikillar vinnu var heimilið og allskonar félagsstörf sem ég sinnti á þessum tíma. Ég átti sæti í stjórn Sjúkraþjálfarafélagsins og söng í tveimur kórum svo eitthvað sé nefnt. Einnig fór ég í mastersnám og útskrifaðist úr því með fullri vinnu árið 2008.

Það hefur verið mér til mikillar hjálpar að ég á góðan mann sem hefur stutt mig í gegnum þykkt og þunnt. Hann er kletturinn í lífi mínu, hefur alltaf staðið þétt með mér en jafnframt gefið mér það svigrúm sem ég hef þurft. Sá stuðningur er ekki sísta ástæða þess hve fljót ég var að ná mér upp eftir veikindin.“

Hvenær varstu orðin svo illa á þig komin að þú þurftir faglega aðstoð?
„Ég hafði sem fyrr sagði lengi fundið fyrir þreytu í vinnunni og mín viðbrögð við því voru að taka fleiri og fleiri verkefni að mér í stað þess að staldra við og taka því rólega. Ég hugsaði: „Þetta er leiðinlegt, ég verð að gera eitthvað nýtt.“

Ég var sett yfir Endurhæfingarteymi krabbameinsgreindra, sem var enn eitt álagsverkefnið ofan á mína venjubundnu vinnu. Það var árið 2013 og þá var ég farin að finna fyrir allskonar einkennum. Um sumarið fór ég með fjölskyldu minni í gott sumarfrí til Svíþjóðar í fjórar vikur. En þegar ég kom til vinnu í júlí var mikið álagsástand á vinnustaðnum eins og gerist gjarnan hér á spítalanum á sumrin.

Í september fór ég að finna fyrir svima og verulegum hjartsláttartruflunum. Ég fór til heimilislæknis sem taldi mig vera með vanvirkan skjaldkirtil. Blóðprufa staðfesti þá greiningu ekki. En ég lagaðist samt ekki, heldur var komin með verki um allan líkamann, auk þess sem sviminn var enn til staðar, svefnleysi og kvíði.

Svo gerðist það að mamma mín fékk blóðtappa í nóvember 2013 og dóttir mín handleggsbrotnaði um sama leyti. Vegna þessa svaf ég ekkert í tvo sólarhringa.

Ég fór þó til vinnu. Á einni vaktinni var ég stödd á gjörgæsludeild og var að taka fram úr rúmi mann sem var nýlega kominn úr hjartaaðgerð. Þetta hef ég gert ótal sinnum og þurfti ekki að hugsa mig um hvað það snerti. En meðan ég var með manninn á rúmstokknum þá gerðist eitthvað í höfðinu á mér. Ég fékk hræðilegan svima og vanlíðan, varð mjög máttlaus og þurfti að kasta upp. Mér tókst þó að koma manninum upp í rúmið aftur með hjálp hjúkrunarfræðings. Að því loknu fór ég inn á salerni og þar lyppaðist ég niður og kastaði upp. Á meðan hugsaði ég: „Annað hvort er ég að fá heilablæðingu eða hjartaáfall.“ Jafnframt hugsaði ég: „Ég er þó á gjörgæslunni, það er ekki langt að fara.“

Meðan ég var að taka mig saman í andlitinu þá kom sú hugsun til mín að ég væri með kvíða. Ég gerði mér skyndilega grein fyrir að ég væri í ofsakvíðakasti. Sú niðurstaða varð til þess að ég komst fram og sagði við samstarfskonu að ég væri svo illa haldin af svima að ég yrði að fara heim.

Þetta gerðist á laugardegi og ég var í rúminu alla helgina. Á mánudag ætlaði ég á fætur en gat ekki farið framúr. Ég var algjörlega „búin á því“, alveg kraftlaus, gat ekki einu sinni sest upp. Maðurinn hringdi og sagði að ég væri veik.

„Að því loknu fór ég inn á salerni og þar lyppaðist ég niður og kastaði upp. Á meðan hugsaði ég: „Annað hvort er ég að fá heilablæðingu eða hjartaáfall.“ Jafnframt hugsaði ég: „Ég er þó á gjörgæslunni, það er ekki langt að fara.“

Alltaf jafn þreytt

Ég var heima í tvær vikur og reyndi að hvíla mig en var alltaf jafn þreytt. Ég mætti svo til vinnu aftur og settist við tölvuna til að vinna úr skýrslum. Þá komst ég að því að ég gat ekki lesið. Ég sá orðin en hafði ekki einbeitingu til að vinna úr þeim. Þá hugsaði ég: „Hvað er í gangi með mig? Þetta er ekki eðlilegt,“ og varð enn kvíðnari. Í framhaldi af þessu fór ég til yfirmanns míns, Ragnheiðar S. Einarsdóttur og það varð mín björgun. Hún benti mér á að tala við starfsmannasálfræðing LSH. Ég gerði það. Sálfræðingurinn sagði: „Þú ert skólabókardæmi um kulnun.“ Hann sagði að ég yrði að fara í algjört frí. Ég stakk upp á fimmtíu prósent vinnu en hann neitaði því. „Þú getur það ekki, þá ertu bara að „kroppa ofan af sárinu.“ Ef þú ætlar að ná þér út úr þessu verður þú að fara í algjört frí í sex til tólf mánuði.“ Það þyrmdi yfir mig og mér fannst ástand mitt fáránlegt. Þetta var í desember 2013.

Full af fordómum

Ég ákvað að fara í frí yfir jólin en sagði góðum kollega frá ástandi mínu. Hann sagði: „Þarft þú ekki bara að leita til VIRK?“ Þá komu upp í mér miklir fordómar, mér fannst ég með engu móti geta farið „hinum megin við borðið“, ég, heilbrigðisstarfsmaðurinn, gæti ekki leitað mér slíkrar faglegrar aðstoðar. Ég vildi ekki hitta kunnugt fólk í heilbrigðisgeiranum í slíku ástandi sem ég var í, vildi miklu heldur „lækna sjálfa mig.“ Ég fór samt til heimilislæknis og hitti þar ungan kandidat sem talaði mig inn á að leita til VIRK. Sannfærði mig um að það myndi hjálpa mér. Hann sagði við mig: „Leyfðu mér að meðhöndla þig og afsalaðu þér völdunum.“ Ég hugsaði mig um og sagði svo: „Ókei, ég geri þetta.“ Kandidatinn sótti þvínæst um fyrir mig hjá VIRK og samstarfið hófst fljótlega eftir áramótin.“

Hvað fól það í sér?
„Enn með fordóma fór ég fyrir tilverknað ráðgjafa VIRK í Heilsuborg. Mér fannst mér ekkert miða, fannst ég ekki einu sinni svitna. Þá var mér ráðlagt að fara í aðeins erfiðari hóp og þar fann ég mig. Ég mætti í hvern tíma eins og klukka og var jafnframt komin í algjört frí frá vinnu. Ég átti inni launað veikindafrí í næstum ár svo það var ekki vandamál.

Ég hitti svo jafnaðarlega ráðgjafa VIRK, sem var mjög gott. Við lögðum á ráðin og ég fór til sálfræðings sem ráðgjafinn benti mér á og hitti hann fyrst tvisvar í viku og seinna strjálla. Sálfræðingurinn og ráðgjafinn fylgdu mér eftir þar til ég var komin til vinnu á ný.“

Úrræði VIRK virkuðu

Úrræðin sem VIRK beitti í samstarfi við mig voru sem sagt sálfræðiþjónusta, Heilsuborg, námskeið í núvitund, næringarfræðsla og ekki síst spjall við ráðgjafann. Hreyfingin var mjög mikilvæg fyrir mig, ég hef stundum sagt að hún hafi verið mín lækning. Ég var í raun mjög fljót að ná mér líkamlega.

Annað gerði ég líka sem var gott. Ég ákvað að vera ekki sú sem hyrfi og enginn á vinnustaðnum vissi hvað væri að. Ég skrifaði því bréf til vinnufélaga minna og rakti þar það sem væri í gangi hjá mér, þetta gerði ég líka gagnvart fjölskyldu minni, vinkonum og þeim sem stóðu mér næst. Í framhaldi af því fékk ég mikinn stuðning. Yngsta dóttir mín fann mikinn létti við þetta. Hún sagði: „Ég hélt að þú værir kannski mikið veik,“ hún hafði fylgst með mér á vappi á náttsloppnum og haft áhyggjur af mér.

Loks fór ég af fullum krafti í söngnám. Það hafði ég stundað í mörg ár en nú gat ég „hent mér út í sönginn“, fór snemma á morgnana í tónskólann og æfði mig. Það var mín vinna ásamt æfingunum í Heilsuborg. Ég vildi vera sem minnst heima á sloppnum því það fannst mér erfiðast. Ég er dálítill spennufíkill og þarf að hafa mikið fyrir stafni. Ég hef ekki lagast alveg af því en ég kann betur á sjálfa mig í þeim efnum, þekki mín mörk. Ég útskrifaðist úr söngnáminu í kjölfar þessa. Söngurinn gefur manni útrás og var stór partur af minni endurhæfingu.

Þótt ég væri fljót að ná mér líkamlega var ekki það sama upp á teningnum hvað andlegu hliðina snerti. Ég gat lært söngtexta en ég gat varla lesið blöðin. Minnisleysið þjáði mig enn og ég varð að skrifa allt niður sem ég átti að gera. Einbeitingarskortur, jafnvægileysi, minnisleysi og svimi – þetta hrjáði mig mest í veikindum mínum.“

Hvenær fórstu til vinnu aftur?
„Ég ákvað að skella mér í fimmtíu prósent vinnu í júní 2014 í samráði við ráðgjafa minn hjá VIRK, sem ég útskrifast frá mánuði síðar, og sálfræðinginn, sem enn fylgdi mér þá eftir. Þetta gerðist í framhaldi af því að Landspítalinn hafði viðurkennt sérfræðiþekkingu mína og ráðið mig sem slíkan í maí 2014 með tilheyrandi launahækkun. En þegar ég byrjaði að vinna fann ég að ég var ekki tilbúin ennþá. Ég var í toppformi og gat hlaupið á fjöll en ég átti erfitt með að einbeita mér. Ég fann aftur fyrir kvíðanum. Lausnin var sú að ég fór á ný í veikindafrí og var heima til að jafna mig. Um haustið 2014 fór ég aftur til vinnu og fann að ég var búin að ná mér. Þá kom ég til baka á öðrum forsendum en í fyrra skiptið. Ég sleppti ýmsum verkefnum sem ég áður hafði á minni könnu, ég held að fimm manns hafi tekið við verkefnunum sem ég sagði mig frá.“

„VIRK er að mínu mati alveg „brillíant batterí“, ef svo má segja. Sem fagmanneskja þá græddi ég mikið á að fylgjast með vinnubrögðum þar. Ég hef síðan beint ýmsum í samstarf við VIRK. Hins vegar mega fagaðilar gæta sín á að vísa ekki of veiku fólki til VIRK.“

Fann neistann aftur

Ég var þegar þarna var komið sögu ráðin í fimmtíu prósent vinnu sem rannsóknarsjúkraþjálfari og vann fimmtíu prósent við venjuleg sjúkraþjálfarastörf. Í lok september 2014 fór ég á námskeið til Bandaríkjanna og þar fann ég neistann aftur - og hann hefur lifað með mér síðan.

Ég fann fljótlega að streitan minnkaði við allar þessar aðgerðir. Ragnheiður, yfirmaður minn, átti stóran þátt í mínum bata af því að ég hafði hennar stuðning allan tímann og hún fylgdist með mér og studdi mig. Það var alltaf markmiðið hjá okkur að ég kæmi til baka til starfa. Ég hafði með sjálfri mér gefið mér ár til að skoða hvort ég þyldi fulla vinnu. Þegar árið var liðið fann ég að ég gat þetta. Og það átti ég ekki síst að þakka þeim góða stuðningi sem ég fékk frá Ragnheiði. Það hefði ekki verið gott að eiga við yfirmann sem ekki hefði skilið hvað var af mér og hefði ekki haft trú á VIRK. Ég álít það forgangsverkefni við svona aðstæður að gera atvinnurekendum grein fyrir hvað er að gerast og hvað sé til ráða. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kulnun í starfi getur beinlínis valdið heilaskaða ef ekkert er að gert.“

Hefur þú fundið fyrir því aftur að þú værir tæp?
„Já, ég fann fyrir því í sumar sem leið, þegar mest var að gera. Þá þurfti ég að bæta á mig verkefnum og fann þá fyrir kvíða, átti erfitt með svefn og það var stuttur í mér þráðurinn. Maður þarf að reka sig á til að átta sig á hvar mörkin liggja. Núna er ég steinhætt að bæta á mig verkefnum og hef lært að segja nei.“

Hafðir þú gagn af samstarfinu við VIRK?
„Já, þar var prógrammið lagt upp í samráði við mig. Mér fannst þetta ferli fyrst erfitt vegna minna eigin fordóma, eins og fyrr greindi. Það hjálpaði mér þó talsvert að ég var komin með opinn huga þegar ég hitti ráðgjafa VIRK. Ég hugsaði: „Ráðgjafinn er fagmaðurinn og ég legg mig í hans hendur.“ Ráðgjafinn lagði fyrir mig alls konar próf sem ég fyllti út og sagði mér að skrifa dagbók. Ég gerði þetta allt saman af mikill samviskusemi.

VIRK er að mínu mati alveg „brillíant batterí“, ef svo má segja. Sem fagmanneskja þá græddi ég mikið á að fylgjast með vinnubrögðum þar. Ég hef síðan beint ýmsum í samstarf við VIRK. Hins vegar mega fagaðilar gæta sín á að vísa ekki of veiku fólki til VIRK. Þetta er úrræði fyrir fólk sem er tilbúið til svona samstarfs og vill komast aftur út á vinnumarkaðinn. Fyrir manneskju sem var í minni aðstöðu var þetta fullkomið úrræði.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband